Skírnir - 01.04.2009, Síða 123
SKÍRNIR
KONUSKEGG OG LOÐNIR BOLLAR
121
verður að halda áfram‘, jafnvel þótt báðum væri ljóst að viðkom-
andi hafi ekki hugsað sér til hreyfings í eiginlegri merkingu.
Hugtakslíkingin hér að baki væri lífið er ferð, og þannig getur
okkur ,dottið eitthvað í hug‘ vegna þess að hugurinn er hylki
(container), og talað um byggingu, grunn og jafnvel þak þessarar
greinar því TEXTI er hús/bygging. Hugtakslíkingar eru síðan
misjafnlega altækar (universal) í mannlegri hugsun. Þær sem
myndu heyra til dýpst í huganum eru svokallaðar líffræðilegar
hugtakslíkingar (biological metaphors), svo sem að: ástúð er
hlÝja, sem á sér e.t.v. rætur í skynjun ungbarns í faðmi móður, og
minna á að margar hugtakslíkingar eiga sér upptök í líkamanum,
þær eru líkamlegar (emhodied). A þessum grunni verður kær-
leikurinn eldur, sbr. „allur svo ég brann“. Ein hugtakslíking
sem virðist vera næstum altæk er persóna í tilfinningalegu
ójafnvægi er hylki með þrýstingi (sbr. Kövecses 2005), sem er
virkjuð jafnt meðal fornmanna sem gjarna ,þrútna‘ af sorg eða
reiði, og eins þegar við segjum nú á tímum að einhver ,springi‘ af
reiði. Umræðan um hvað sé altækt og hvað sértækt í hugtaksleg-
um veruleika manna er ein sú mikilvægasta í hugsunarfræðum, og
það er einmitt í þessari umræðu sem elstu dróttkvæði verða
áhugaverð. Hér kvikna spurningar um það hvernig og hversu
mjög hugtaksveruleiki okkar er mótaður af kristinni trú og klass-
ískri fagurfræði, og hér geta dróttkvæðin þjónað sem ,hið fram-
andi‘ sem hjálpar manni að koma auga á manns eigin hugsun.
Enn aðrar hugtakslíkingar eru ráðandi á tilteknu menning-
arsvæði (central metaphors), svo sem lífið er sýning eða af-
þreying sem skipar stærstan sess í bandarískri menningu (sbr.
„And now I face the final curtain"), og enn aðrar líkingar eða
módel virðast liggja dýpra en hugtakslíkingarnar og skipa þeim í
fylkingar. Þessi fyrirbæri kalla menn ýmist höfuðreglu (governing
principle) (Kövecses 2005: 234) eða, líkt og ég vel að kalla hér:
grunnskema (foundational schema) (Shore 1996). Grunnskema er
menningarmódel (cultural model) með víðtækari virkni en áður-
nefndar hugtakslíkingar. Dæmi um grunnskema væri yin og yang
í kínverskum hugsunarhætti, einskonar grunnhugsun sem síðan
tekur á sig endalausar birtingarmyndir.