Skírnir - 01.04.2009, Page 124
122
BERGSVEINN BIRGISSON
SKÍRNIR
Líkt og athugulir lesendur hafa séð nota ég ýmist hugtakið
módel eða líking um ákveðin verkfæri í hugsun mannsins. Skil-
greiningar á þessum hugtökum eru enn nokkuð á reiki í hugsun-
arfræðum, eða misjöfn eftir fræðimönnum — og lesa má langar
þrætur um það hvað komi fyrst eða sitji dýpra í huganum: hugs-
unarmódel (cognitive/cultural model) eða hugtakslíking. Hér hef
ég valið að fylgja línu hugtakslíkingafræða (conceptual metaphor
theory) með upphaf í bók Lakoffs og Johnsons, Metaphors We
Live By, frá 1980, og þeirra fræða sem hafa vaxið upp úr þeim
jarðvegi og kalla mætti hugtaksblöndufræði (conceptual integra-
tion theory), gjarnan nefnd ,blending theory* sem mætti íslenska
sem blöndufræði. I blöndufræðum er ekki lengur „eitt skilið
gegnum annað“ eins og var hin eldri skilgreining metafóru, held-
ur sýna blöndufræðin hvernig mannshugurinn er fær um að
blanda saman gerólíkum sviðum án áreynslu til að skapa merk-
ingu og öðlast skilning. Fremstu kennimenn hugtaksblöndufræða
eru Gilles Fauconnier og Mark Turner (2002), og segja má að hér
öðlist fagurfræði kenninganna loksins hæfilega greiningu, því
samkvæmt þessum fræðum á öll merkingarsköpun sér stað í svo-
kölluðu blöndurými (blending space) mannshugans — einnig
merkingarsköpun líkinga. Hið gamla metafórulíkan sem deilir
líkingu aðeins upp í myndlið (source) og táknmið (target) er því
einungis lýsandi (descriptive) samkvæmt þessari hugsunargrein-
ingu, það er á svæði milli þessara inntaksrúma (input spaces) lík-
ingarinnar sem merkingarsköpun hennar á sér stað — í blöndu-
rýminu.23
23 Til að gera langa sögu stutta þá er þróunin sú frá gamla metafórulíkaninu að það
sem áður kallaðist táknmið og myndliður heitir nú inntaksrúm 1 og 2. Tvö rými
hafa síðan bæst við í hinu nýja líkani: almennt rými (generic space) sem spannar
það sem er inntaksrúmunum er sameiginlegt og minnir á það sem áður kallaðist
rök fyrir líkingum, og hið áðurnefnda blöndurými þar sem vissir partar frá inn-
taksrúmunum blandast saman og skapa merkingu. Hér nota ég orðin rúm og
rými fyrir enska orðið ,space‘, með þeirri hugsun að mörg rúm (inntaksrúm,
holrúm) geta komið saman í einu rými; hér hefur íslenskan blæbrigði sem mér
finnst rétt að nýta. Bergljót Kristjánsdóttir (2008: 43-45) notar orðið ílagsrúm
fyrir ,input space‘, blandað rúm fyrir ,blending space' og almennt rúm fyrir
,generic space'.