Skírnir - 01.04.2009, Síða 125
SKÍRNIR
KONUSKEGG OG LOÐNIR BOLLAR
123
Á þessum grunni hef ég valið að tala um ,andstæðuspennu‘ sem
grunnskema eða höfuðreglu elstu dróttkvæða, sökum þess að hún
virðist bæði móta það sem ég hef valið að kalla kenningamódel, og
einnig fagurfræði kvæðanna í víðara samhengi. Því lætur nærri að
kenningamódelin, þessar óskráðu reglur sem öll skáld þurftu að
kunna (meðvitað eða ómeðvitað) en hvergi koma fram fyrr en í
Snorra-Eddu, virki eins og hugtakslíkingar. Sumar þessara hug-
takslíkinga láðist Snorra að skýra í Eddu sinni, og því getum við
skilið að elstu skáld höfðu í hugtaksveruleika sínum líkinguna um
hugann sem vind tröllkonunnar, án þess að við fáum nokkru
sinni botn í hana. I því tilviki er rökin fyrir líkingunni að finna í
glataðri sögn, og er hér því um sértæka og menningarbundna hug-
takslíkingu að ræða.
Kenningin sem konuskegg
Andstæðuspennan kemur skýrast fram í þeim kenningum sem eru
myndrænar, á þann veg að þar er fulltrúum andstæðra fyrirbæra í
náttúru eða menningu eða fulltrúum andstæðra hugdilka (catego-
ries) att saman í stofnorði og kenniorði eða í stofni og táknmiði
kenningarinnar.24
Fræðimenn hafa fyrir löngu komið auga á að höfuðskepnur
heiðins lífsskilnings og heimsmyndar eru andstæður. Claude Lévi-
Strauss fullyrti á sínum tíma að ,menning‘ og ,náttúra‘ væri grund-
vallarandstæðupar allra menningarheima, og önnur andstæðupör
miðuðust síðan við þetta par (Lévi-Strauss 1994 [1964]). Með
þetta að viðmiði hafa menn ráðist til greiningar á norrænni menn-
ingu (Clunies Ross 1994; Meulengracht Sorensen 1977; Schjodt
24 Það skal tekið fram að ekki eru öll kenningamódel grundvölluð á andstæðu-
spennu, eins og t.d. kenningar sem byggjast á vísun til hetju- eða goðsagna (svo
sem GULL ER FRÆ FÝRISVALLA Og PÓR ER BANI TRÖLLKONUNNAR eða ,mellu
dólgr'). Þess ber þó að geta að kenning sem er byggð á sögn, svo sem um Signý
og Hagbarð, getur myndað andstæðuspennu í samhenginu þar sem hún birtist,
sbr. í vísunni um hengingu Agna hér aftar. Þetta stutta yfirlit hér yfir and-
stæðuspennu-kenningar er ekki hugsað sem altækt yfirlit, meiningin er aðeins
að gefa nokkur dæmi. Sjá nánar Bergsvein Birgisson 2008a: 77-91.