Skírnir - 01.04.2009, Page 130
128
BERGSVEINN BIRGISSON
SKÍRNIR
ræðaskálds þar sem Hákon jarl er sagður tæla (spenja) undir sig
barrhaddaða konu Óðins (landið/Noreg) með sannyrðum sverða
(IB: 147). Hér er þrennt í blöndurýminu: Vísað er til goðsagna af
samförum Óðins og jarðar, landsyfirtöku Hákonar með hernaði
og því er maður tælir konu undir sig með ástarorðum — sem, líkt
og Vésteinn Ólason bendir á (1992: 213), má skilja sem svo að ekki
séu alltaf sönn út frá sjónarhóli skáldsins. Það fylgir sögunni að
Hákon jarl var svo mikill kvennamaður að kristnir menn kölluðu
hann „ósiðugan“ í þeim efnum. Hér myndar skáldið andstæðu-
spennu milli vopnabraks konungsins og hæfni hans til að mæla
,ástaryrði‘ og komast yfir konur. Það að skáldið vísi til Óðins í
sömu blöndu, minnir okkur á að skilja þarf á milli þess hvernig
nútíðarmenn bregðast við slíkri grótesku og hinir gömlu — hér er
andstæðuspennan spyrt við helga goðsögn og varla tómt grín.
Eitt besta dæmi um slíka spennumyndun er þar sem Þjóðólfur úr
Hvini sýnir dauðagervinginn Hel í samförum við hina dauðu kon-
unga í Ynglingatali (vísur 7, 30, 32). Þar er um einskonar blend-
ingsmynd skáldsins að ræða sem myndar sterka andstæðuspennu.
Hel er í öllum öðrum kvæðum „gnúpleit og grimmleg" eins og
Snorri orðaði það, hún er systir Fenrisúlfs, blásvört eins og lík, og
Egill Skallagrímsson sýnir okkur m.a. hvar hún treður á líkum fall-
inna hermanna í HQfuðlausn (10. vísu) — kannski þau bláni þess-
vegna? Þjóðólfr kennir Hel hinsvegar í sínu gróteska kvæði við æsku
og erótískan blóma, hún er ,mær‘ sem ,kýs sér konungsmann' (til að
giftast), hún býður konungum til ,þings‘ (samfara) og hefur þá ,at
gamni'. Og skáldið tengir hana við bjartasta og besta stað meðal
manna á himni (þaðan sem allir fara sáttir á braut!) — hún er Glitnis
gná. I árekstri þessarar kynþokkafullu meyjar við hefðbundnu
myndina af blásvartri Hel vaknar andstæðuhlaðin hugarmynd (sjá
mynd nr. 3) sem minnir um margt á Kerch terracotta, þær fígúrur
sem Míkhaíl Bakhtín notaði sem dæmi um hnyttilega grótesku, en
þar var um að ræða gömul kvensköss, þunguð og hlæjandi. Hér ríkir
hið eftirsóknarverða misræmi, eða eins og Bakhtín skrifar:
„nákvæmlega hið gróteska inntak líkamans“ (Bakhtin 1968: 25).27
27 „...precisely the grotesque concept of the body.“ Mikilvægt er að geta þess að