Skírnir - 01.04.2009, Page 135
SKÍRNIR
KONUSKEGG OG LOÐNIR BOLLAR
133
ómerk.30 í slíku samhengi er það dónaskapur að ætlast til að
viðtakendur þurfi að brjóta hugann um merkingu líkinga eða sjá
fyrir sér eitthvað allt annað á leið til merkingarinnar, því slíkt
krefst tíma og orku fólks, og yrði sennilega frekar tengt andlegri
leti líkingasmiðsins en listrænni snilligáfu.
Hér hefur verið varpað ljósi á andstæðuspennu myndkenninga.
Mikilvægt er að geta þess að mörg dæmi eru um að þessi fagur-
fræðihneigð andstæðuspennunnar birtist af fullum krafti í víðara
samhengi kvæðanna, og er slík dæmi, skiljanlega, helst að finna í
elstu kvæðum. Hjá forföður dróttkvæðs háttar, Braga gamla, er að
finna vísur um merka sögn af gamalli germanskri dauðavætti sem
bar nafnið Hildur. Þessi sögn er að öllum líkindum mjög gömul,
mun eldri en Valhallarhugmyndin sem kalla mætti blending þess-
arar sagnar og kristnu hugmyndarinnar um himnaríki. Sögnin
kemur fyrir sjónir sem nokkurskonar germönsk Sýsifosarsögn,
hermennirnir eru hnepptir í merkingarlaust eilífðarferli þar sem
þeir berjast og eru vaktir til lífs á ný; erfiðleikar við að fá merkingu
í tilvistina er ekkert nýtt. Mikilvægt er hvernig Bragi inn gamli
miðlar okkur þessari ógnvekjandi konu. Þar má segja að hann
skapi andstæðuspennu milli kenninganna sem hann velur henni.
Hildur er í senn bœti-Þrúðr dreyrugra benja (IB: 2), þ.e. ,gyðja
sem þerrar og læknar hin blóðgu sár‘, og ósk-Rán œða ofþerris (IB:
2), ,sú sem æskir að æðar þorni' (= dauða). Bak við fyrstu kenn-
inguna er mynd af einskonar hjálpsamri hjúkrunarkonu sem
mætir andstæðu sinni, dauðanum, í hinni kenningunni. Hildur
sameinar andstæður tilverunnar, hún er Shíva (lífsaflið) og Kalí
(eyðileggingin) í senn, og einmitt í þessari lýsingu er kannski að
finna skýringu gamla norræna listarandans á yfirnáttúrulegum
hæfileikum hennar: I henni sameinast andstæður tilverunnar.
Mætti í þessu samhengi minna á grein Meulengracht Sorensens
30 Athyglisvert er að sú manneskjusýn sem markaðsundirstöðuhyggja síðustu ára
hefur ræktað fram mætti einnig kalla .klassískari' en hin klassíska sýn á manninn.
Þar sem rökvísi og skynsemi (logic, ratio) var áður keppikefli og markmið mann-
legrar breytni og hugsunar, á homo economicus að vera eins konar fullkomin skyn-
semisvera sem hefur frelsi til að velja — og velur alltaf rétt í krafti sinnar rökvísi.