Skírnir - 01.04.2009, Page 148
146
BERGSVEINN BIRGISSON
SKÍRNIR
í ljósi þessa er skiljanlegt hví menn hafa leitast við að tengja
myndmál hinna .frumstæðu' dróttkvæða við súrrealískar myndir.
Franski fjölfræðingurinn Roger Caillois (1913-1978) var einna
fyrstur manna til að koma auga á þetta samband.37 Caillois mætti
kalla einn af hugmyndafræðingum síð-súrrealismans, og textar
hans vísa beint eða óbeint til kenninga annarra páfa stefnunnar.
Caillois hitti Breton 1932 og gekk þá til liðs við súrrealista en
hvarf frá hópnum 1934, mögulega vegna kynna við Gaston Bach-
elard það sama ár. Breton hafði í anda Reverdys dregið upp
ákveðið fagurfræðilegt viðmið fyrir myndmál sem gekk út á að
hrottafengnar myndir, myndir sem einkenndust af óhaminni fant-
asíu eða myndir sem buðu upp á að óskyldum hlutum var stillt
upp hlið við hlið, voru skáldlegustu myndirnar sem völ var á.
Comte de Lautréamont (1846-1870) var einn þeirra gengnu skálda
sem súrrealistar hófu til vegs, ekki síst vegna þess uppreisnaranda
og fjarstæðukennda myndmáls sem þar mátti finna, en skáldin
sem Breton vitnar til í ávarpinu, svo sem Aragon, Vitrac og Sou-
pault, eiga allir fjarstæðumyndmálið sameiginlegt. Oft er vitnað í
setningu Lautréamonts um það sem var „fagurt eins og óvæntur
fundur saumavélar og regnhlífar á skurðarborðinu" sem einkennis-
orða fyrir fagurfræðilegt inntak súrrealismans (sjá t.d. Halldór
Guðmundsson 1983: 269), og vissulega er setningin líkt og smíðuð
með fagurfræðihugsun Bretons í huga.
Caillois var ekki á sama máli. Hann fullyrðir að slíkar myndir
þurfi alls ekki að hafa neitt skáldlegt yfir sér. Hin góða póetíska
mynd er öllu heldur sú mynd sem megnar að spyrða það nákvæma
(juste) og hefðbundna saman við það sem er framandi og sláandi.
I fyrirlestri sínum „Actualité des Kenningar“ frá 1958 (prentaður
1978), dregur hann fram norrænu kenninguna sem dæmi um hina
góðu skáldlegu mynd, þar sem kenningin megnar að sameina hið
hefðbundna (hér vísar hann til kenningamódelsins eða táknmiðs-
ins) og hið undarlega (bizarre), sem við finnum í kenningabrigð-
inu. Hér virðist Caillois lesa af dýpri skilningi en Borges, sem við
37 Þakkir til Sigurðar Pálssonar skálds fyrir að benda mér á grein Caillois um nor-
rænar kenningar.