Skírnir - 01.04.2009, Page 173
SKÍRNIR
JÓNAS HALLGRÍMSSON ...
171
kvæða Jónasar Hallgrímssonar virðist fela í sér tengingu náttúru og
sögu, þar sem virðing fyrir fortíðinni stendur í heimspekilegu sam-
hengi við virðingu fyrir rétti til framtíðar. Það er meðal annars þetta
sem gefur þeim klassískt yfirbragð og endingu fram á okkar tíma.
Það viðhorf til kvæðanna sem hér er sett fram minnir á skoðan-
ir bandaríska fornleifafræðingsins Williams D. Lipe þar sem hann
í ágætri ritgerð sem út kom 1984 fjallar um gildi og merkingu
menningarminja eða menningarauðlegðar.36 Að vísu tekur hann
svolítið öðruvísi á gildi menningarminja en gamli Riegl, sem stend-
ur um margt á gömlum merg þýskrar hughyggju. I siðferðilegum
og mannlegum efnum má rekja þræði hjá Lipe aftur til byltingar-
mannsins Gregoire og ræðuhalda ábótans um umburðarlyndi,
varðveislu mannlegra snilldarverka og uppfræðslu gegn skemmd-
arfýsninni (vandalismanum), fáfræðinni og myrkri heimskunnar.37
Samkvæmt franska blaðamanninum og sagnfræðingnum Pierre
Nora eru minjastaðir (lieux de mémoire) flókin fyrirbæri. I raun
eru hugmyndir Nora, sem hann lagði fram í rómaðri grein 1984,
ákaflega franskar og miðaðar við þörf á endurnýjun á franskri
þjóðernislegri sagnaritun.38 Hugmyndirnar eru svolítið ruglings-
legar og mótsagnakenndar, kannski tækifærissinnaðar ef svo mætti
að orði komast.
Hugmyndir Nora taka annars vegar svip af eldfornum mælsku-
fræðilegum aðferðum um minni og minnisþjálfun, þar sem staðir
og myndir, loci et imagines á latínu, í huga mannsins gegna mikil-
vægu hlutverki. Hins vegar gætir þar hugmynda um samsafnað
(kollektívt) eða félagslegt minni úr fórum félagsfræðinga 20. aldar.
Þessum fornaldarhugmyndum og 20. aldar hugmyndum virðist
erfitt að koma saman á rökvísan hátt. Niðurstaðan verður eins
konar úrvalsstefna (eklektisismi). Samkvæmt Nora er skilyrði
fyrir minjastöðum sú fyrirætlan (intention) að muna eftir þeim, en
þó segir hann að til séu minjastaðir sem ekki uppfylli þetta skil-
yrði, þ.á m. forsögulegir, landfræðilegir og fornleifafræðilegir staðir.
36 Lipe 1984.
37 Nútímalega greinargerð fyrir hugmyndafræði Gregoires um minjavernd má
lesa í Sax 1990.
38 Hér er stuðst við bandaríska þýðingu, Nora 1996.