Skírnir - 01.04.2009, Page 194
192
GUÐNI ELÍSSON
SKÍRNIR
viðurkennir yfirsjónir sínar og eygir með því björgunina, þann
logandi blossa í myrkri sem Sigurbjörg lýsir í viðtalinu við Þröst
Helgason sem vitnað var til hér að framan. Upprisa konunnar felst
þá í játningaskrifunum sem leiða til þess að hún bindur elskhug-
ann í ljóðabálkinn sem við höfum fyrir framan okkur — eins og
draug sem kveðinn er í jörð niður. Þá verður konan í einhverjum
skilningi orðsins einnig höfundur ljóðsins sem lesandinn hefur
fyrir framan sig, en ekki einvörðungu persóna í verkinu. Staða
hennar innan textans verður þar með virkari en ella, en með skrif-
unum staðfestir hún skilgreiningarvald sitt yfir karlinum og
treystir um leið sjálfsmynd sína sem verður til við rofið frá hinum
efnislega (kjötmikla?) elskhuga — sem mun „leysast upp áður en
/ sagan er úti / eins og hali drekans, eins og drekinn sjálfur“ (137).
Orð Sigurbjargar gefa til kynna að hún hallist fremur að þessum
skilningi. Þá verður frásögnin, sé hún greind í heild sinni, að
lausnartexta, að sögu sem lýsir ekki aðeins ferð inn í myrkur held-
ur einnig út úr því. Órjúfanlegur hluti tólf spora meðferðarkerfis-
ins felst nefnilega í því að gera þrettánda sporið að umræðuefni, að
játa syndir sínar og gera yfirbót.
Lokalínur Blysfara birta ekki afdráttarlausa afstöðu. Pönk-
sálmurinn sem konan flytur er eins og nafnið gefur til kynna nokk-
urs konar blendingur andstæðra sjónarmiða. Ef ætlun konunnar
er að tjá lausn frá fortíð sinni með bálhvítu blysinu gerir hún það
jafnframt standandi í mittisdjúpum öldunum um miðja nótt. Og á
sömu stundu og konan lýsir því yfir að elskhuginn hafi „séð þetta
fyrir, blæðandi, / fölur, hvernig hann leystist / sundur“ (144), segir
hún einnig að hún sé „aldrei ein hér í örfirinu / nei, ég er aldrei
lengur ein“ (144-145) og að „nestið, slim“ sé í hennar „mjúka,
kvíðna kvið: / wilkommen ‘ (145). Hvern býður konan velkominn
um leið og elskhuginn leysist í sundur? Og hver „fæðist / altalandi"
(147) í lokalínum ljóðsins eftir tuttugu og tveggja daga hríðir?
Elskhuginn? Bókin?
Blysfarir eru særing. Særingu má nota til þess að vekja upp eða
kveða niður.