Skírnir - 01.04.2009, Page 207
SKÍRNIR
FLUGUMÝRARBRENNA
205
lendinga sögu, Þórðar, Sighvats og Snorra, sýnir lífshlaup þeirra
og skapgerð í hnotskurn.45
I 166. kafla Islendinga sögu er sagt frá því að Gissur Þorvalds-
son fluttist að Flugumýri vorið 1253 og setti þar saman reisulegt
bú ásamt Gróu Alfsdóttur, barnsmóður sinni, sem hann hafði
kvongast árinu áður þegar hann kom heim eftir dvöl í Noregi. En
á Flugumýri segir sagan að enginn jafnvirðulegur bær hafi verið í
Skagafirði fyrir utan staðinn á Hólum: „Þar váru öll hús mjök
vönduð at smíð, forskálar allir alþilðir til stofu at ganga, skáli
altjaldaðr ok stofa" (494). Gissur var því hér að sýna veldi sitt og
vilja.46 Þá er sagt að Gissur vildi ekki búsetu Eyjólfs Þorsteins-
sonar, tengdasonar Sturlu Sighvatssonar, í Skagafirði en hann hafði
farið þar með mannaforráð í umboði Þórðar Sighvatssonar kakala
sem var farinn til Noregs á konungsfund. Flutti Eyjólfur norður á
Möðruvelli í Hörgárdal. Um leið lýsir sögumaður honum svo
beinum orðum: „Eyjólfr var bæði mikill ok sterkr, vel andlitsfar-
inn ok inn drengiligsti maðr at sjá“ (479). Er rétt að taka eftir því
að sögumaður segir að Eyjólfur hafi verið drengilegur að sjá og
dregur um leið fram að sýnd er ekki sama og raun. Þessi mann-
lýsing hefur því forspárgildi. Jafnframt er sagt frá því að Gissur
hafi látið lýsa að Lögbergi fjörráðssökum við sig á hendur um-
boðsmönnum Þórðar kakala á Vesturlandi, Hrafni Oddssyni og
Sturlu Þórðarsyni, og þeim sem fylgdu þeim að málum. Með þessu
var Gissur að efla völd sín og gera áætlun um það hvernig hann
næði undirtökunum á landinu. Enda fer það svo að Hrafn og
Sturla sættast við Gissur um haustið og var liður í sætt þeirra
Sturlu að Hallur Gissurarson bað Ingibjargar Sturludóttur. Skyldi
brúðkaup þeirra vera á Flugumýri um veturnætur. Sögumaður
tekur það sérstaklega fram að Gissur og Hrafn Oddsson hafi
skilið með miklum kærleikum eftir sáttafundinn og gefur um leið
í skyn að ekki sé allt sem sýnist. Sumarið áður en sættirnar tókust
45 Úlfar Bragason. „The Art of Dying: Three death scenes in Islendinga saga“,
Scandinavian Studies 63(1991): 453-63.
46 Sjá Michel De Certeau. „The Practice of Everyday Life“, endurpr. í Practicing
History, bls. 222-24.