Skírnir - 01.04.2009, Page 209
SKÍRNIR
FLUGUMÝRARBRENNA
207
frænda sinn, til hefnda eftir Höskuld Þráinsson, mann sinn, í
Njdlu.49 Eftir frýjuna er ljóst að miklir atburðir eru í vændum.
Enda er þess getið að Ásgrímur Þorsteinsson, bróðir Eyjólfs, hafi
sagt Hrafni Oddsyni þegar hann var á leið til brúðkaupsins á
Flugumýri að þeir bræður og Hrani Koðránsson ætli að stefna að
Gissuri eftir veisluna og drepa hann eða sonu hans eða brenna
inni. Hér er því þegar getið herkænskubragða andstæðinga Gissurar
sem vita að þeir geta aðeins farið að honum með klækjum þar sem
þeir eiga í vök að verjast gegn honum. Áheyrandinn/lesandinn
veit því allan tímann hvað í vændum er (jafnvel þótt hann hafi ekki
áður heyrt um ósköpin) þó að flestir veislugesta séu þess duldir
nema Hrafn. Glæsileiki valds Gissurar er sýndur með fjölmennri
brúðkaupsveislu, miklum veisluföngum, framkomu og ræðu hans
sjálfs og gjöfum til veislugesta. Sagan segir: „Var þar in bezta veizla,
er verit hefir á Islandi í þann tíma. Hefir þat lengi kynríkt verit
með Haukdælum ok Oddaverjum, at þeir hafa inar beztu veizlur
haldit“ (483). Gizur og menn hans eru óbeint varaðir við hættunni
en þeir skilja ekki ábendingarnar, eru alveg grunlausir enda kallar
Gissur andstæðingana sína í öðru hverju orði. Þetta eru hans
harmsögulegu mistök. En andstæðingarnir safna liði, gera árás í
skjóli nætur og mega engan tíma missa eins og sá sem má sín
minna.
í frásögninni um Flugumýrarbrennu — rétt eins og þegar sagt er
frá Örlygsstaðafundi — takast á andstæður vilji þeirra sem eigast
við. Sá aðilinn sem er einbeittari ræður úrslitum þrátt fyrir löggengi
frásagnarinnar. Hinir mæta örlögum sínum.50 Ef tekin er til saman-
burðar frásögn Guðmundar sögu dýra af Önundarbrennu þar sem
fylgt er brennumönnum þá segir Islendinga saga miklu meira af
þeim sem fyrir árás verða og tekur þannig afstöðu með þeim.
49 Sjá Carol. J. Clover. „Hildigunnr’s Lament“, Structure and Meaning in Old
Norse Literature: New approaches to textual anaysis and literary criticism,
ritstj. John Lindow o.fl. (The Viking Collection 3), Odense U.P., 1986, bls.
141-83.
50 Ker. Epic and Romance, bls. 252; sjá ennfremur Robert Cook. „The Sagas of
Icelanders as Dramas of the Will“, Proceedings of the First International Saga
Conference, University of Edinhurgh 1971, ritstj. Peter Foote o.fl., London:
Viking Society, 1973, bls. 88-113.