Skírnir - 01.04.2009, Blaðsíða 234
232
EINAR HREINSSON
SKÍRNIR
athæfið, en rentukammer og kansellí voru ekki sammála í þessu máli. Hér
setur Kristmundur tappann í frásögnina í stað þess að fylgja málinu frek-
ar eftir, lesanda til skemmtunar og yndisauka og rekja áfram að mið-
stjórnarvaldið sendi stiftamtmanni bréf af þessu tilefni og tók upp hansk-
ann fyrir Grím og tilkynnti stiftamtmanni að ef hann hefði eitthvað á
móti því að fá bréf á íslensku ætti hann að fá sér annað starf, sem Hoppe
gerði, sagði upp í fússi og fór. Þetta mál leiddi svo til þess að farið var að
gera kröfur um íslenskukunnáttu danskra embættismanna hér á landi. Að
mínu mati hefði þessi vitneskja glatt lesandann og stutt við bakið á Grími.
Annað dæmi um sérstakt heimildaval er frásögn Kristmundar af
Norðurreið Skagfirðinga 1849. Þetta er náttúrlega hápunktur sögunnar,
hetjan situr heima og að honum er sótt í Njálustíl sem á Hlíðarenda væri,
og lesandinn veit að Grímur er bullandi feigur, enda stutt eftir af bókinni.
Kristmundur eyðir miklu og góðu púðri í að leiðrétta frásagnir af undir-
búningi Norðurreiðar, ber saman frásagnir og tínir til gríðarlega vitn-
eskju.
Það hefur skapast ákveðin hefð fyrir því hér á landi þegar rætt er um
Norðurreið að endursegja það sem Ólafur Oddsson skrifaði í opnugrein
Sögu 1973, enda er það ferlega skemmtileg grein. Kristmundur gerir það
ekki, vissulega notar hann Ólaf en skeiðar líka í gegnum aðrar heimildir.
Aftur á móti getur Kristmundur ekki umburðarbréfsins um „Negraupp-
reisnina" í Vestur-Indíum sem fór víst víða þetta sumar og var ef til vill
kveikjan að Norðurreið, sem er skrítið, en þessu gerir Ólafur góð skil.
Þegar kemur að því að lýsa Norðurreið og eftirmála hennar styðst Krist-
mundur við dómabækur úr Eyjafirði og Skagafirði, frásagnir úr einka-
skjalasafni Rosenörns stiftamtmanns og bréfabók stiftamtmanns.
Einhverra hluta vegna lætur hann skjalabunkann ÞI. ISD: 1.9. Isl. Journal
1. nr. 981 frá 1849-1850 framhjá sér fara, en í þessum bunka, sem er ansi
þunnur, er að finna öll skjöl varðandi rannsóknina á Norðurreiðinni.
Þetta vekur nokkra furðu, því umræddur skjalabunki er meginheimild
Ólafs Oddssonar. Það sem ég er að reyna að fara með þessum málaleng-
ingum er að í þessum bunka liggur nefnilega bréf sem hvorki Ólafur
Oddsson né neinn annar sem ég veit um hefur notað. Þar er haldið fram
að Lárus Thorarensen sýslumaður hafi skipulagt Norðurreiðina og að
það verði nú aldrei rannsakað til hlítar þar sem að svili hans Pétur Hav-
steen sé ef til vill að taka við amtmannsembættinu. Þessi heimild hefði
nýst Kristmundi ágætlega þar sem hann dregur í bókinni stórlega í efa að
einhvern frelsis- og þjóðernisfnyk hafi lagt af Norðurreiðarmönnum.
Kristmundur fellur nefnilega ekki í þá gryfju að oftúlka frelsisvilja norð-