Skírnir - 01.04.2009, Page 238
236
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
SKÍRNIR
jafnvel talmál. Þegar Halldór Laxness skrifaði Gerplu sagðist hann hafa
lagt metnað sinn í að nota ekkert orð eða hugtak sem kom inn í tungu-
málið eftir elleftu öld. Þó að Ofsi sé bók um bók eins og Gerpla, hefur
Einar Kárason alfarið hafnað aðferð Laxness og tekur inn í texta sinn allt
sem honum sýnist. I stíl hans og eintölum persónanna sjáum við klisjur
sem gætu verið ættaðar úr vikublöðum dagsins í dag, eins og þegar Gróa
Álfsdóttir segir: „Fyrir vikið runnu út í sandinn allir mínir draumar um
að fá að lifa í friði með mínum manni og mínum börnum.“ (82). Við
sjáum líka klisjur úr fréttatímum þegar Árni beiskur afsakar morðið á
Snorra Sturlusyni og segir: „... ég var bara hvort sem er að framfylgja
skipunum" (127). Það er sem sagt hæfilega póstmódernískt virðingarleysi
í máli og stíl bókarinnar og aðeins Heinreki biskupi er með orðum sínum
ætlað að reyna að endurskapa miðaldir í tungumálinu. I þekkingarheimi
persónanna rekst lesandi líka á fjölmargt sem þar ætti ekki að vera ef ítrasta
raunsæis væri gætt (og ef enn væru til einhverjir áhangendur þess). Áhuga-
vert og spennandi væri til dæmis að skoða augljósar eða hálffaldar vísanir
og textatengsl við aðrar miðaldabókmenntir, ekki síst Njálu.
Það er þó nokkuð af veruleikaáhrifum í Ofsa. Við fáum að vísu lítið að
vita hvað fólk borðar og hvernig það eldar — undantekning frá því er
innsýn í skyrgerð á Flugumýri sem er nauðsynleg til að hægt sé að fela sig
í sýrukeri. Sjaldan sjáum við hvernig fólkið er klætt, en við fáum að sjá
hvernig búið er til brúðkaupsveislu á Flugumýri og tjaldaðir veggir svo að
fólk verður andaktugt af hrifningu. Við fáum líka að sjá hvernig heimilis-
fólk á stórbýlinu sefur þétt saman í svefnskála svo að einkalíf þess verður
opinbert fyrr en varir. Og stundum er lesanda boðið upp á undirfurðuleg-
ar lýsingar eins og þegar Ásgrímur, bróðir Eyjólfs ofsa, fær þá hugmynd
að honum beri að ávarpa her sinn og blása honum kjark í brjóst fyrir árás-
ina á Flugumýri. Ásgrímur þykist vita að stóran helli eða skála, Skeljungs-
skála, sé að finna í Blönduhlíðinni og ansar því engu þótt honum sé sagt
að þetta sé bara gjóta eða skúti. Hann hefur nefnilega séð það fyrir sér að
tveir menn skuli standa með logandi kyndla hvor sínum megin við for-
ingjann og mynda umgjörð um ræðu Eyjólfs: „Hann var farinn af baki,
tvísté lengi, fór og kastaði af sér vatni og var lengi að, ég sá hann var skjálf-
hentur þegar hann gyrti sig og hagræddi hringabrynjunni. Svo kom hann
sér fyrir á milli kyndilberanna í hellismunnanum; þurfti að standa örlítið
boginn á aðra hlið, sem gerði uppstillinguna minna hermannlega" (161).
Ofsi er annars ekki myndræn bók, megináhersla hennar er lögð á frá-
sögn, atburðarás, sálarástand og deilur persónanna sextán sem hafa orðið
í þessari margradda sögu.