Skírnir - 01.04.2009, Page 246
244
EINAR FALUR INGÓLFSSON
SKÍRNIR
Guðmundur hafði um tíma fylgst með verkum þýsks kennara í
ljósmyndun og nemendum hans, í þýskum og dönskum Ijós-
myndatímaritum, og hrifist af því sem hann sá og las. Kennarinn var
Otto Steinert (1915-1978), læknir sem hafði skipt um starfssvið og
helgað líf sitt ljósmyndun. Steinert var einn af fyrstu þýsku ljós-
myndurunum sem tók aftur upp persónulega myndsköpun eftir
síðari heimsstyrjöldina, en ljósmyndurum sem höfðu mótast af
hugmyndum módernismans og Bauhaus-skólans hafði ekki verið
gert kleift að starfa á stjórnarárum nasista. Steinert varð áhrifamik-
ill kennismiður og ljósmyndari og fór svo að Guðmundur nam hjá
honum, við Folkwangschule fiir Gestaltung í Essen, Þýskalandi, á
árunum 1968 til 1971. Um tíma var Guðmundur aðstoðarmaður
Steinerts. Ríkjandi hugmyndafræði í þýskri ljósmyndun þess tíma,
sem Guðmundur kynntist vel á þessum árum, höfðu mikil áhrif á
þróun hans sem ljósmyndara og mótuðu hina myndrænu sýn hans
á heiminn.
I skóla Steinerts tókust nemendur á við fjölbreytileg verkefni og
ræddu hina ýmsu þætti fagsins út í hörgul; áhrif Steinerts fólust ekki
síst í þeim kröfum sem hann gerði um fagmannleg vinnubrögð og
myndræn gæði í öllum úrlausnum. „Hann hvatti okkur til að vera
frumleg og sjálfstæð. Hann hreifst af frumlegum og persónulegum
verkum, en hafði engan tíma fyrir þá sem stældu í blindni helstu
tískustrauma,“ segir Guðmundur.3 Steinert reyndi ekki að þrýsta
sinni persónulegu nálgun inn í nemendur, heldur hjálpaði þeim að
þroska hæfileika sína, finna áhugasvið og vinna úr þeim á áhuga-
verðan og skapandi hátt.
Guðmundur lagði einkum rækt við blaðaljósmyndun í náminu
en hefur aldrei starfað við það svið ljósmyndunar. Þegar hann kom
heim til íslands árið 1971 kenndi hann lítillega við Iðnskólann í
Reykjavík, var leiðsögumaður ferðamanna, en ári síðar stofnuðu
þeir Sigurgeir Sigurjónsson, ljósmyndari er lært hafði í Svíþjóð,
ljósmyndastofuna Imynd. Ráku þeir stofuna saman um tíma en um
langt árabil hefur Guðmundur rekið ímynd einn síns liðs og hefur
tekið að sér allrahanda ljósmyndaverkefni.
3 Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir 2002.