Skírnir - 01.04.2009, Page 252
250
EINAR FALUR INGÓLFSSON
SKÍRNIR
var sett upp á nokkrum stöðum í miðríkjum Bandaríkjanna og í
Reykjavík árið 1998. Þeir mynduðu í heimalandi hvor annars,
Wayne Gudmundsson á Islandi árin 1992 og 1993 og Guðmundur
á slóðum Vestur-Islendinga í Norður-Dakota í Bandaríkjunum
og í Manitoba í Kanada ári síðar. Báðir kusu að mynda í svarthvítu
og Guðmundur beitti samskonar hlutlægu sjónarhorni og á
myndum sem hann hefur tekið á Islandi, en hér vann hann þó tals-
vert með panorama-format; langar láréttar myndir sem hæfa flötu
landslagi sléttunnar.
„Hið íslenska auga Guðmundar Ingólfssonar man sveigi og
hreyfingu íslenskra dala og fjalla, og honum tekst að finna þá
hreyfingu á ný í gresjum og sléttum," skrifar kanadíski rithöfund-
urinn David Arnason í sýningarskrána. „Það er skáldhneigð í sýn
hans yfir slétturnar, en jafnvel fólk sem býr þar, sér slíkt ekki
nema því sé bent á það.“9
Vissulega er skáldhneigð í sýn Guðmundar, og hún birtist ætíð
í verkum hans þótt fyrirmyndirnar séu þekkjanlegur veruleiki, oft
okkar nánasta umhverfis. Víðfeðm þekking listamannsins á sögu,
jafnt fyrri tíma og samtíma, er annar þáttur sem spilar stóra rullu
í verkum Guðmundar. Sú þekking styrkir nálgunina og mótar val
hans á sjónarhorni.
Gagnrýnandi Morgunblaðsins hreifst af sýningu Guðmundar og
Gudmundsonar í Listasafni Alþýðu. I grein sem hann ritaði undir
yfirskriftinni „Tveir afbragðs ljósmyndarar", segir hann að ljós-
myndir Guðmundar séu „tregablandnar, fullar af eftirsjá og ein-
semd“. Gagnrýnandinn greinir afraksturinn á athyglisverðan hátt
þar sem hann segir þá félaga ekki skoða „landið með hlutlausu hug-
arfari ferðalangsins, heldur eru þeir einnig í innra samtali við eigin
væntingar og ímyndanir. Það er eins og báðir séu að leita að ein-
hverju sem tengir hið fjarlæga land við þeirra eigin heimahaga."
Hann endar skrif sín á að þetta sé „áhrifarík og margbrotin sýning"
þar sem margt af því besta sem ljósmyndalistin hefur upp á að bjóða
fái að njóta sín.10
9 David Arnason 1998: 8.
10 Gunnar J. Árnason 1988.