Skírnir - 01.04.2009, Page 254
252
EINAR FALUR INGÓLFSSON
SKÍRNIR
Á síðasta áratug gerði Guðmundur talsvert af því að skrá
ásýnd slíks arkitektúrs hér á landi, arkitektúrs sem er smám saman
að hverfa. Um leið og hann skapar sín persónulegu listaverk verða
til merkar heimildir um staði og hönnun sem oft hefur verið litið
framhjá þar sem hún verður ekki til undir hatti fagurfræðilegrar
sköpunar.
Myndirnar sem Guðmundur tók á sína stóru myndavél inni í
tönkunum vísa í sviðsmyndir12, í ævintýri sem gætu átt sér stað úti
í geimnum eða verið sérhönnuð fyrir leiksvið, en engu að síður
eru þessar byggingar byggðar með ótvírætt notagildi í huga.
Ljósgjafinn í myndunum er einungis þau litlu en manngengu
op sem eru á þeim, auk annarra gata sem tíminn hefur hoggið í þá
suma. Ljósmyndarinn hefur gætt vel að samspili súlna, hringform-
anna á gólfinu, birtunnar og bogadreginna veggja við að skapa þær
eftirminnilegu myndir sem hann tók í tönkunum. Þær eru abstrakt
í eðli sínu, en engu að síður kaldhömruð skráning á raunverulegri
iðnhönnun.
XI
Hvort sem efniviður hins listræna heimildaljósmyndara er borgin
eða landið, þá eru alltaf nokkrir kraftar að verki: efniviðurinn,
myndlíkingin og skaparinn sjálfur, ljósmyndarinn. Allir vinna
þessir þættir saman; formrænar eigindir, þroski og hugsun ljós-
myndarans skapa heildina.13 Ljósmyndarinn Robert Adams segir
að þegar þessir þættir vinni allir saman og útkoman verður áhuga-
vert verk, þá sé umhyggja okkar og ást á lífinu þar að baki.
12 Gæti sviðsmyndalíkingin tengst því að um langt árabil var Guðmundur einn
helsti ljósmyndari leikhúsa hér á landi?
13 í bók sinni Beauty In Photography segir hin áhrifamikli bandaríski ljósmyndari
Robert Adams (1996: 14) um landslagsljósmyndun, og þau orð hans má einnig
heimfæra á mannvirkjamyndir: „Landscape pictures can offer us, I think, three
verities — geography, autobiography, and metaphor. Geography is, if taken
alone, sometimes boring, autobiography is frequently trivial, and metaphor can
be dubious. But taken together, as in the best work of people like Alfred
Stieglitz and Edward Weston, the three kinds of information strengthen each
other and reinforce what we all work to keep intact — an affection for life.“