Strandapósturinn - 01.06.1991, Qupperneq 58
menn. Eitt vorið var ég á kúfiskbát frá Bolungarvík. Skipstjóri á
honum var Hjörtur Guðmundsson, bróðir Katrínar konu Guð-
björns Bjarnasonar, síðast á Hólmavík. Kúfiskinn veiddum við
ýmist á Önundarfirði eða Súgandafirði, fórum með hann inn í
Djúp og seldum.
Sjálfur átti ég bát á Drangsnesi í félagi við séra Jón. Eg lét smíða
hann í Stykkishólmi. Þetta var vélbátur, Guðrún að nafni. Eg
sigldi honum fyrir Vestfirði og reri honum eitt sumar frá Drangs-
nesi. Við beittum í Hellubúðinni undir Hamrinum innan við
Drangsnes. Eg seldi bátinn svo Torfa Guðmundssyni. Okkur
presti féll ekki sameignin, eða hvort gróðinn var ekki nógu mik-
ill?“
A þessum árum var Drangsnesþorp að byrja að myndast. Var
þá talsvert um, að aðkomumenn að sunnan gerðu þaðan út báta.
Nafni hans, Andrés Runólfsson eða hlutafélag, sem hann starfaði
hjá, hafði yfir þeim báti að segja.
„Andrés Runólfsson var orðhákur mikill, en allra besti karl.
Hann talaði bara svona. Já, ég fór einu sinni sem oftar á bátnum
við 3ja mann í sjóferð. Þetta var 5 tonna trilla, tíræðingur kölluð,
listagott sjóskip, en alopin. I þetta sinn fórum við yfir að Hvamms-
tanga að sækja beitusíld. Bátar þar voru með lagnet úti og drógu,
þegar við komurn yfir. Þeir létu okkur svo hafa síld, sem við
settum í stampa til flutnings heim. Strax á austurleiðinni var hann
byrjaður að hvessa, strokurnar stóðu út úr öllum fjörðum. Á
Hvammstanga hitti ég Guðmund Sigurgeirsson, sem seinna var á
Drangsnesi. Hann sagði mér að augljóst væri, að hann væri að
skella á með norðan stórviðri og réð mér til að fara hvergi. Ég
sinnti því ekki, sagðist ætla út með Vatnsnesinu og athuga hvað úr
veðrinu yrði. Ég gerði það og setti svo stefnuna út á flóann og
sigldi heim á leið. Þetta var síðla hausts og skemmst er frá því að
segja, að við niðamyrkur kvöldsins bættist hávaðarok, haugasjór
og blindbylur. Þegar út kom á flóann, kom ólag á bátinn, og vélin
drap á sér. Við hvolfdum síld úr tveimur stömpum og jusum og
komum vélinni í gang aftur. En meðan á þessu stóð hafði okkur
rekið hratt undan veðrinu, og vorum allt í einu komnir upp undir
Skottana úti af Broddanesey með ólgancli brot á allar hliðar“.
56