Syrpa - 01.04.1947, Side 31
Hann var fjöldamörg ár formaður í Seley og samtíða Jóni
Stefánssyni í Sómastaðagerði. Hann sagði mér söguna margoft
og alltaf með sömu orðunum, hafði þetta eftir hásetunum. Ég
er viss um, að hann hefur ekki vitað betur."
Sögur Jónasar, er birtast áttu í þessu hefti, hafa orðið að
víkja fyrir þessari leiðréttingu.
☆
BÆKUR
Lárus J. Rist: SYNDA EÐA SÖKKVA.
Endurminningar. Akureyri 1947. — Prent-
smiðja Björns Jónssonar.
Á síðari árum hafa margir hér á landi ritað og gefið út end-
urminningar sínar. Hafa þær verið mjög misjafnar að gæðum,
sem von er til, þar sem skapgerðir, ævikjör og aðstæður eru
eins mismunandi og mennirnir eru margir. Alltaf er því eitt-
hvað nýtt í hverju slíku riti og mest undir því komið, hvernig
með efnið er farið.
Lárus J. Rist er landskunnur brautryðjandi á sviði íþrótta,
bæði almennrar leikfimi og sunds. Hlýtur því lesandinn að eiga
von á fjölbreyttu efni, og að margt beri á góma, enda bregzt
Lárus ekki því trausti. — Hann elst upp í fátækt sunnanlands,
fer átta ára gamall norður í Eyjafjörð, gengur í gagnfræða-
skólann á Möðruvöllum og útskrifast þaðan tvítugur. Einn
vetrartíma vinnur hann að klæðagerð í Noregi, en hverfur
heim aftur vegna heilsubrests. Þá fer hann að stunda sund-
kennslu. En hugurinn leitar lengra. Hann brýzt í að sigla við
lítil fararefni til lýðháskólans í Askov og stundar þar nám
í tvö ár; en honum finnst hann þurfa enn að fullkomna sig í
þeim greinum, sem hafa tekið huga hans fanginn og hann
telur þjóð sinni nauðsynlegar til þrifa, og með tvær hendur
tómar hefur hann leikfiminám í Statens Gymnastik Institut
í Kaupmannahöfn. Bjartsýni hans og dugnaður og aðstoð
góðra manna greiða svo götu hans, að 27 ára gamall hefur
hann náð fyrsta marki sínu á lífsleiðinni og er viðbúinn að
hefja það þjóðþrifastarf, sem hann hefur unnið að fram á
þennan dag. 1 25 ár kennir hann leikfimi í gagnfræðaskólanum
á Akureyri og auk þess sund, bæði þar og annats staðar. Laun
hans eru svo lág, að hann verður að hafa ýmislegt fleira fyrir
stafni, og um áraskeið er hann ráðsmaður spítalans á Akureyri.
Á sextugsaldrinum langar hann til að breyta til og flytjast nær
bernskustöðvunum og 56 ára gamall hverfur hann til Suður-
lands, þar sem sundlaugin í Hveragerði ber sannast vitni
verka hans síðustu árin.
Endurminningar Lárusar hafa mikið menningargildi, hvar
sem í þær er litið, enda bera þær það með sér, að þær eru
sannar og herma sanngjarnlega frá mönnurn og málefnum, og
margir kaflar þeirra eru prýðilega ritaðir. Lárus hefur gott
lag á áð lýsa, hvernig óframfærinn unglingur með litlu sjálfs-
trausti, en heilbrigðri hjartsýni og markvísi, þroskast og vex
og verður að fulltíða, menntuðum manni, sem veit, hvað hann
vill, og kann að beita kröftum sínuní og þekkingu. Bókin á
S YRPA
sérstaklega erindi til ungra manna, sem eiga eftir að verða
fullorðnir. Hún sýnir þeim, hvers einlægur og heilbrigður
vilji er megnugur, þótt fjárhagur sé þröngur og skilningur
almennings takmarkaður og sljór. Hún sýnir þeim einnig, hve
nauðsynlegt er að vera bjartsýnn, stunda andlega heilbrigði,
hafa nytsöm verkefni fyrir stafni og sýna lipurð í allri sam-
vinnu.
Bókin er skemmtileg aflestrar og rituð á lipru og léttu máli,
sem er við allra hæfi. Lárus er gæddur góðlátlegri kímni, sem
hann þó beitir aðallega gagnvart sjálfum sér, og hún ferst hon-
um víða afburða vel. Má t. d. benda á frásögnina, þegar hann
fer alfarinn frá Akureyri, ríðandi á vélhjólinu, sem hann
kallaði Sörla: „Er út fyrir glerána kom, „spýtti ég í“, eins og
þeir kalla það bílstjórarnir, og hóf að syngja um hið góða
tungl, sem um loftið líður, þó að sjálf sólin væri í hádegisstað.
Þá komst ég að raun um, að fararskjóti minn átti ennþá einn
kost, sem ég hafði ekki talið honum tii gildis, en hann var sá,
að svo hátt lét í honum, að ég gat sungið fullum rómi, án þess
að verða fyrir því kvalræði að þurfa að hlýða á minn eigin
söng.“
Nafn bókarinnar er vel valið. Hún er í stóru broti, 297 bls.
að lesmáli, prýdd 30 myndum, og fylgir nákvæm nafnaskrá.
Frágangur allur af prentsmiðjunnar hendi er hinn vandaðasti.
Hafi Lárus kæra þökk fyrir bókina og hver sá, sem að út-
gáfu hennar hefur unnið!
Jónas Rafnar.
Hörður Þórhallsson: SÖNGVAR FRÁ
SÆLUNDI. (Nýir pennar). Reykjavík,
Helgafell, 1947.
Hörður Þórhallsson er rómantískt skáld. Hann yrkir íburðar-
miklar náttúrulýsingar um svanaflug, mánaskin og eldbylgjur
kvöldroðans, perluskrúða og silfurstrauma, beiskkaldar bárur
og ekka hafsins, sorgarþung ský og neistandi log stjarnanna.
Hann ann tónlistinni af heilum hug og yrkir áköf lofkvæði til
sönggyðjunnar og Rögnvalds Sigurjónssonar; og hann kveður
háfleyga og viðkvæma mansöngva — hin langþráða ástmey
dvelst úti við dimman sjá og hlustar á dunandi brimgnýinn, en
hvar sem söngvarinn fer, sér hann ætíð himneskt bros hennar,
blá augu og bjarta lokka, og hann veit að sú stund muni brátt
koma, er hann verður lagður andvana að fótum hennar.
„Söngvar frá Sælundi" er fyrsta bók Harðar. Flest eru kvæð-
in veigalítil, en þokkaleg og snotur, þar er víða fallega að orði
komizt og skáldlega, og ljós er virðing höfundarins fyrir list-
inni, hann fágar kvæði sín eftir beztu getu, leggur sig allan
fram. Stuðlasetning er þó reikul á stöku stað og smekkleysur
nokkrar, söngvarinn er t. d. „brostinn og bljúgur" og „fannst
fúinn upp við land“. Skáldamál Harðar er oft dálítið slitið eða
fornlegt, hann talar um tigna tinda og tárhreint traf, og í
lengsta kvæði bókarinnar, „17. júní 1944“, er svo kostgæfilega
safnað myndum og orðtækjum úr ættjarðarljóðum nítjándu
aldar, að betur verður ekki á kosið, þar vantar jafnvel ekki
„fimbulróm" og „svásar sólir". Hörður birtir þrjú smákvæði
án stuðla, en þau eru einna lélegust í bókinni, í annan stað
eru rímlausu kvæðin laglega gerð. Hér verður engu spáð um
framtið Harðar; hann er gæddur ljóðrænni gáfu, en virðist
skorta karlmennsku, hugkvæmni og öruggan smekk. Hátíðleiki
hans og rómantískt hugarþel eru nokkuð óvenjuleg, en alls eigi
óskemmtileg fyrirbæri á vorum dögum.
* • Á. Hj.
109