Morgunblaðið - 26.08.2021, Blaðsíða 43
MINNINGAR 43
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. ÁGÚST 2021
✝
Garðar Ingi-
marsson fædd-
ist í Laugarási,
Laugardal í Reykja-
vík 6. maí 1930.
Hann lést á hjúkr-
unarheimili Hrafn-
istu í Laugarási 15.
ágúst 2021. Garðar
var sonur hjónanna
Ingimars Ísaks
Kjartanssonar og
Sólveigar Jóhönnu
Jónsdóttur. Systkini Garðars
voru Auðbjörg, Kjartan, Ingi-
mar, Guðfinna, Guðrún, Kristín
Erika, Þórunn, og Erla.
Fyrrverandi maki Garðars
var Magnea Guðrún Jónsdóttir.
Börn þeirra eru: 1) Guðbjörg, f.
1952. Fyrrverandi maki Björn
Ingi Sveinsson, þeirra sonur
Sveinn. Núverandi sambýlis-
maður Gestur
Ólafsson, þeirra
dóttir Guðrún Sól-
ey. 2) Jón, f. 1955,
kvæntur Svövu
Stefánsdóttur, hans
synir Ívar Rafn og
Árni Þór. 3) Sólveig
Guðrún, f. 1961,
gift Þorvaldi Ei-
ríkssyni, þeirra
synir Arnar og Jó-
hann.
Garðar gekk í Laugarnes-
skóla og stundaði síðan nám við
Iðnskólann í Reykjavík og lærði
þar trésmíði og bifvélavirkjun.
Starfaði sem bifvélavirki lengst
af og síðan sem húsvörður í
Reykjavík.
Útför hans fer fram í dag, 26.
ágúst 2021, klukkan 15 í Kirkju
Óháða safnaðarins.
Loksins er elsku pabbi laus
allra mála hér á jörð. Enda-
spretturinn var langur og oft og
tíðum erfiður. Það sem ein-
kenndi hann var samt sem áður
óbilandi bjartsýni og hann smit-
aði alla sem á vegi hans urðu af
jákvæðni sinni.
Þegar foreldrar okkar skildu
varð sambandið á milli okkar
eitthvað minna en styrktist með
árunum.
Í gegnum tíðina var gott að
geta leitað til hans, hann reddaði
hlutunum með mikilli gleði.
Æskuminningar frá jólum eru
fullar af hlýju og annar eins jóla-
kall er vandfundinn.
Pabbi ólst upp í Laugarási í
Laugardalnum í Reykjavík og
það var gaman að rölta með hon-
um um Laugarásinn og hlusta á
æskuminningar sem streymdu
fram.
Hann var svona „altmulig
man“ pípari, smiður, rafvirki.
Hann bara reddaði því sem
redda varð.
Einbýlishúsið í Mosfellsbæ og
sumarbústaðurinn í Grímsnesi
bera þess gott vitni. Þetta tók
kannski langan tíma, sem má
kannski deila um, þar sem svo
gott sem einn maður vann öll
verkin.
Pabbi var mikill skapmaður,
þrjóskur, sem erfitt var að tala
til, ef hann var búinn að taka ein-
hverja ákvörðun. Eftir stendur
minning um jákvæðan hlýjan
mann sem gaf okkur endalausan
kærleik og vildi allt fyrir okkur
gera.
Þegar pabbi og mamma skildu
bjó hann svo um hnútana að við
áttum öruggt skjól í litla húsinu
á Baldursgötu þar sem okkur
leið svo vel.
Sjónin fór að daprast um sex-
tugt og versnaði stöðugt upp frá
því, sem endaði með því að hann
missti bílprófið.
Nú voru góð ráð dýr þar sem
hann bjó um tíma í sumarbú-
staðnum í Grímsnesi. Hann
reddaði sér með því að fá sér
sexhjól til að komast á milli staða
í sveitinni og rafmagnshjól sem
hann fór með í strætó á Selfoss,
þaðan hjólaði hann í sumarbú-
staðinn. „Þetta er nú ekkert
mál,“ sagði hann, þegar hann
skynjaði að við vorum áhyggju-
full, „ég fylgi bara hvítu línunni
úti í kanti.“
Það var gaman að heimsækja
hann í sumarbústaðinn og voru
veislur haldnar við öll tækifæri.
Hann bókstaflega skoppaði um
af gleði þegar hann fékk fólk í
heimsókn, því fleiri því betra.
Hann hélt okkur dætrum sín-
um við efnið á tímabili með eilífu
kaffihúsaflandri þar sem við
gúffuðum í okkur kaffi, sæta-
brauði og svo koníaki við sérstök
tilefni. Þetta voru stundir sem
við nutum í botn og skilja eftir
sig fallegar minningar.
Hann notaði oft „möntrur“ til
að halda sér gangandi: Þetta er
glimrandi, þetta er frábært, mér
líður vel, bravó, það er allt í
gúddí, „it’s oll ræt“.
Hann kyrjaði líka gjarnan lög-
in Ljúfa Anna og Syngjandi sæll
og glaður, til að halda í gleðina
og geðheilsuna.
Það var gaman að fara með
honum í bíltúr um borgina sem
hann þekkti svo vel og elskaði
svo mikið. Hann þuldi upp nöfn á
götum og byggingum þrátt fyrir
mikla sjónskerðingu.
Oftar en ekki fórum við í kaffi-
húsið Skálafell á Hrafnistu og
áttum þar ótaldar gleðistundir. Í
byrjun var þetta hressilegur
göngutúr frá heimili hans á
Hrafnistu á Brúnavegi. Svo tók
við göngugrind sem aldrei (bara
fyrir gamalt fólk) skyldi nota og
að lokum var það hjólastóllinn
sem tók við.
Takk elsku pabbi fyrir allt og
hvíldu frjáls og í friði.
Guðbjörg Garðarsdóttir,
Sólveig Guðrún og fjölsk.
Þegar ég kynntist konu minni,
Guðbjörgu, dóttur Garðars Ingi-
marssonar, vorum við báðir
komnir af allra léttasta skeiði og
talsvert lífsreyndir menn, þótt
um nokkurn aldursmun væri að
ræða. Það sem ég tók strax eftir í
fari Garðars var jákvæð afstaða
til flestra manna og fyrirbrigða,
þótt hann gæti líka verið fastur á
meiningunni, auk þess sem hann
lét dagleg viðfangsefni ekki vaxa
sér í augum. Þannig var það ekk-
ert stórmál fyrir hann að byggja
sér hús eða sumarbústað og
gróðurhús til að rækta í vínber
og grænmeti. Það sem háði hon-
um samt verulega, þegar aldur-
inn færðist yfir, var þverrandi
sjón sem hann háði við langa
baráttu af fremsta megni.
Öll leitum við hamingjunnar
þar sem við höldum að hana sé
að finna, oft bara til þess að kom-
ast að því að hún býr bara innra
með okkur sjálfum. Garðar lét
ekki sitt eftir liggja í þessari
hamingjuleit, en smám saman
byrgði forsjónin honum sýn á
það sem heimurinn hefur upp á
að bjóða. Á þessari kveðjustund
vil ég þakka honum fyrir allar
okkar samverustundir og votta
ættingjum hans og vinum mína
dýpstu samúð.
Gestur Ólafsson.
Afi Garðar var um margt
óvenjulegur maður. Þegar mað-
ur hugsar til baka má færa fyrir
því rök að hann og Bjartur í
Sumarhúsum hefðu að öllum lík-
indum orðið hinir mestu mátar
hefði sá síðarnefndi verið á lífi og
uppi á sama tíma og afi. Hann afi
var þrjóskuhaus sem kaus sjálf-
stæði framar öðru, vildi fara sín-
ar eigin leiðir hvað sem tuðar og
tautar og hlustaði sjaldan á
raddir vina eða vandamanna,
sem voru á skjön við hans eigin
skoðanir eða áætlanir, réttar eða
rangar. Honum varð í raun ekki
haggað þegar hans eigin niður-
staða lá fyrir. Þessir eiginleikar
gerðu honum auðvitað stundum
erfitt fyrir svo ég tali nú ekki um
þá sem stóðu honum næst, maka,
kærustur eða börn. Í upphafi 8.
áratugarins tók afi Garðar sig til
og ákvað að smíða sér hús við
Hamarsteiginn í Mosfellsbæ.
Það verkefni tók að vísu töluvert
langan tíma enda tók hann flest
verkefnin því tengd að sér sjálf-
ur eða setti eitthvað annað á for-
gangslista eins og t.d. að byggja
sér gróðurhús í garðinum. Húsið
þótti mér, sem lítill pjakkur, vera
hin mesta höll þótt öll mín upp-
vaxtarár hafi alltaf einhver hluti
af því verið hálffokheldur sem
kom sér þó vel enda gaman að
bardúsa eitthvað með hamar og
nagla í návist afa.
Þegar Hamarsteigurinn var
kominn á lokastig var farið í
næsta verkefni sem var að
byggja sér sumarbústað í Gríms-
nesinu þar sem hann undi sér
vel. Heilt yfir var afi alltaf hress
og kátur og aldrei neitt „að“ hon-
um, í það minnsta viðurkenndi
hann það aldrei. Hann bað lítið
um hjálp og gafst ekki upp fyrr
en í fulla hnefana. Gott dæmi var
þegar hann, kominn á sín efri ár,
svo gott sem bjó í bústaðnum ár-
ið um kring og hafði fjárfest í
sexhjóli til þess að koma sér á
milli staða þar í sveit. Kom að því
að sjónin var orðin mjög döpur
(gláka) sem og heyrnin en hann
var seint tilbúinn til að sætta sig
við að slíkt vesen gæti með ein-
hverju móti heft frelsi hans.
Þannig þræddi hann vegkantinn
á sexhjólinu sínu í verslunarleið-
angri til Selfoss en að endingu
fór það svo að lögreglan gómaði
hann glóðvolgan. Þar með sá
hann sér ekki fært að vera áfram
í sveitinni.
Í Reykjavík var hann samur
við sig karlinn, bjartsýnn og
þrjóskur. Þar kaus hann að búa
einn í miðbænum þar sem allt
sem hann þarfnaðist var í göngu-
færi. Hann brá svo á það ráð að
kaupa sér rafmagnshjól og man
ég eftir að einn dag sá ég hann á
rjúkandi siglingu niður Lauga-
veginn. Auðvitað heyrði hann
ekki í mér þegar ég kallaði á
hann og ekki sá hann mig heldur
þar til ég gekk í veg fyrir hann
og spurði hvað hann væri nú að
gera í þessu ástandi á fleygiferð
innan um margmennið. Honum
fannst þetta nú ekkert tiltöku-
mál enda allt í toppstandi sín
megin og mikil þægindi að kom-
ast á milli staða á svona hjóli.
Að lokum náði elli kerling yf-
irhöndinni og fékk hann pláss á
Vífilsstöðum og Hrafnistu þar
sem hann, hrókur alls fagnaðar,
raulaði sig í gegnum daginn. Síð-
ustu 3-4 árin hans á Hrafnistu
var hann orðinn það veikur að
bjartsýnin ein hélt honum á lífi
þar til hann loks fékk að kveðja
þennan heim.
Sveinn Björnsson
og fjölskylda.
Garðar
Ingimarsson
✝
Valgarður Jó-
hannesson
fæddist á Norðfirði
23. maí 1942. Hann
lést á heimili sínu á
Torrevieja 15. ágúst
2021.
Foreldrar Val-
garðs voru Jóhann-
es Stefánsson fram-
kvæmdastjóri og
Soffía Björgúlfs-
dóttir hússtjórnar-
kennari. Bróðir Valgarðs er Ólaf-
ur M. Jóhannesson
framkvæmdastjóri. Eiginkona
Valgarðs er Rós Navart (Nonný)
tungumálakennari. Valgarður og
Rós eiga einn son, Peter Skoog
tónlistarmann. Eiginkona Péturs
er Snezhana Shiro-
yan og eiga þau son-
inn Levon Skoog.
Fyrir átti Pétur
dótturina Enu Skog
og er barnsmóðir
Lila Vlasakova.
Valgarður ólst
upp á Norðfirði og
stundaði ýmis störf á
sjó og landi, lengst
af við bifreiðaakst-
ur. Hann flutti til
Reykjavíkur og hóf þá siglingar á
millilandaskipum. Síðari ár dvaldi
hann á Spáni og í Búlgaríu. Hann
veiktist af parkinson árið 2015 og
annaðist Rós eiginkona Valgarðs
hann á heimili þeirra til síðasta
dags.
Valli bróðir horfinn yfir móð-
una miklu – ja hvað skal segja?
Fyrri hluta lífsins bjó Valli á
Norðfirði. Nokkur aldursmunur
var á okkur bræðrum og Valli
varði löngum stundum í beitu-
skúrunum að spjalla við karlana
þannig að við vorum svolítið hvor í
sínum heimi. En Valli var alltaf
notalegur við litla bróður, til dæm-
is helgarmorgna þegar pabbi og
mamma lúrðu fram eftir. Þá
hrærði stóri bróðir gjarnan skyr
með miklum sykri og hnausþykk-
um rjóma út á. Síðan hefur skyr
ætíð verið í uppáhaldi á mínu
borði.
Valli vann við ýmislegt á Norð-
firði. Hann festi eitt sinn kaup á
forláta Benz-vörubíl. Það hafði að
vísu gleymst að setja vökvastýri í
bílinn þannig að það var varla
hægt að snúa ferlíkinu. En Valli
var stór og sterkur og minnist ég
þess er hann sveiflaði vörubíls-
dekki upp á bílpallinn. Nú, en sjór-
inn kallaði og fór Valli á síld eins
og gengur. Fylgdumst við litla
fjölskyldan vel með síldarævintýri
Valla og eitt sinn sendu foreldr-
arnir honum óskalag í Sjómanna-
lagaþáttinn. Á þessum tíma var
Raggi Bjarna afar vinsæll en fyrir
valinu varð Bolero eftir Ravel.
Skilst mér að þær 15 mínútur og
50 sekúndur hafi verið lengi að
líða í messanum.
Og svo var heimdraganum
hleypt í tvennum skilningi. Valli
bróðir flytur til höfuðborgarinnar
og ræður sig á millilandaskip sem
fleyta honum um víðan sæinn til
framandi stranda. Hlaut hann við-
urnefnið Valli víkingur á Norðfirði
en á þeim tíma hafði hver máls-
metandi maður viðurnefni. Á
þessum árum var undirritaður
kominn með fjölskyldu og færði
Valli strákunum alls kyns
skemmtilega hluti frá útlöndum.
Áhugaverðar sögur fylgdu gjarn-
an frá hinum fjarlægu borgum.
Enn í dag slæðast menn af förnum
vegi er bera Valla afar vel söguna.
Hann var jafnlyndur og þægileg-
ur í allri umgengni.
Svo stofnar Valli fjölskyldu og
giftist Rós Navart (Nonný) en hún
er frá Búlgaríu af armenskum
ættum. Sonur Rósar er Pétur og
elst hann upp hjá þeim hjónum.
Og enn grípur útþráin Valla.
Hann dvelur bæði á Spáni og í
Búlgaríu. Seinustu árin voru Valla
erfið en parkinsonssjúkdómurinn
herjaði á þennan stóra og sterka
mann þar til líkaminn gaf sig. Rós
hugsaði afar vel um hann alveg
fram á seinasta dag.
Að lokum sé ég Valla bróður
fyrir mér sitjandi við ströndina á
Torrevieja en þar sat hann gjarn-
an löngum stundum og horfði á
hafið. Kannski var hann að horfa
heim til Norðfjarðar
Ólafur Jóhannesson.
Valgarður
Jóhannesson
✝
Páll Ágúst
Hjálmarsson
fæddist 22. desem-
ber 1929 á Kambi
Deildardal í
Skagafirði. Hann
lést á Hjúkr-
unarheimili Sauð-
árkróks 5. ágúst
2021.
Foreldrar hans
voru Hjálmar
Pálsson, bóndi á
Kambi, f. 3.3. 1904, d. 15.4.
1983, og Steinunn Hjálm-
arsdóttir, f. 11.6. 1905, d. 15.7.
1942. Systkini Páls: Guðrún, f.
23.12. 1928, d. 8.1. 2018,
Hjálmar Ragnar, f. 3.3. 1931,
d. 10.1. 1998, Guðfinna Ásta, f.
9.8. 1932, d. 22.12. 2014, Þór-
anna Kristín, f. 12.4. 1936, d.
19.8. 2018, Hulda, f. 28.9.
1938, Skarphéðinn, f. 30.9.
1940.
Páll kvæntist 1951 Sigur-
björgu Erlu Jónsdóttir frá
Axlarhaga Blönduhlíð, f. 19.6.
1931, d. 10.11. 1997, þau eign-
uðust 3 syni.
1) Hjálmar Steinn, f. 9.11.
1952, maki Kristjana Sig-
mundsdóttir, f. 28.7. 1956,
börn þeirra eru þrjú; Páll, f.
16.11. 1974, maki Lillian Eg-
ilsdóttir Jacobsen, f. 16.9.
1977, sonur Páls og Júlíu Mar-
inósdóttur, f. 24.9. 1975, er
Sindri Frans, f. 5.11. 1996,
unnusta Katrína LeRox Við-
arsdóttir, f. 2.7. 1996, Júlía
Diljá Sveinbjörnsdóttir, f. 4.9.
1997, Emilía Katrín, f. 11.4.
2005, og Hrefna María, f.
11.12. 2010.
Bryndís Erla, f. 20.4. 1977,
maki Ástþór Helgason, f. 1.2.
1975, synir þeirra eru Þór, f.
30.7. 2006, og
Huginn, f. 28.6.
2008.
Ármann Helgi,
f. 23.1. 1990, maki
Soffía Hjördís
Ólafsdóttir, f. 1.3.
1991, dóttir þeirra
er Lóa Kristjana,
f. 14.3. 2019.
2) Jón Örn, f.
6.1. 1954, d. 31.5.
2008, fyrri eig-
inkona Hugrún Þóra Eðvarð-
sdóttir, f. 16.3. 1956, synir
þeirra eru Karl Hjálmar, f.
27.10. 1975, dóttir hans og
Margrétar Huldar Björns-
dóttur, f. 9.8. 1978, er Hugrún
Edda, f. 2.11. 1998, börn hans
og Kolbrúnar Jónsdóttur, f.
2.7. 1986, eru Markús Eðvar,
f. 12.3. 2007, og Bergrún Erla,
f. 19.6. 2013.
Árni Páll, f. 4.6. 1987, maki
Karitas Nína Viðarsdóttir, f.
1.6. 1988, börn þeirra eru Ró-
bert, f. 20.4. 2007, og Anna
Margrét, f. 19.8. 2011.
Seinni maki Jóns var Ása
Bjarney Árnadóttir, f. 31.3.
1951, fósturdóttir Sólrún
Gylfadóttir, f. 27.3. 1990.
3) Rúnar, f.7.3. 1962, maki
Sigurlaug Ólöf Guðmanns-
dóttir, f. 22.7. 1964, börn
þeirra eru Rúnar Björn Her-
rera Þorkelsson, f. 8.5. 1982,
Ágúst Natan, f. 18.8. 1996,
maki Marlia Trisha Vidad, f.
10.11. 1996, Þorsteinn Arnar,
f. 1.6. 1997, d. 13.6. 2015, Erla
Jóhanna, f. 11.6. 2003, unnusti
Eyþór Andri Traustason, f.
18.9. 1995.
Útför Páls fór fram frá
Sauðárkrókskirkju 16. ágúst
2021.
Þú ólst upp á Kambi við al-
menn sveitastörf sem voru allt
öðruvísi en nú á dögum.
Hesturinn var aðalhjálpar-
tækið ef svo má að orði komast
og þú varst laginn að umgangast
þá sem og aðrar skepnur, vél-
væðing á búskap er á öllum svið-
um í dag.
Árið 1951 útskrifaðist þú sem
búfræðingur frá Hólum í Hjalta-
dal.
Eftir það fórstu suður með
mömmu til að skoða hvaða
möguleikar væru og komst að
því að best væri að vera fyrir
norðan og fljótlega hófstu bú-
skap á Kambi á móti föður þín-
um.
Þú talaðir um að erfitt hefði
verið að búa á Kambi þar sem
túnin urðu ónýt að hluta sökum
kals. Samhliða búskapnum
kringum 1973 byrjaðir þú að
byggja hús á Sauðárkróki,
keyrðir á milli, það þurfti að
sinna bústörfunum, Skarphéðinn
bróðir þinn tók verkið að sér. Þú
náðir ekki að klára húsið, seldir
það og keyptir íbúð á Sauðár-
króki árið 1976 sem þú bjóst í til
dauðadags.
Þegar þú fluttir á Krókinn var
starf þitt verkstjórn og fleira í
Sláturhúsi Sauðárkróks til árs-
ins 1998.
Það er margs að minnast þeg-
ar litið er til baka, það var fastur
punktur hjá Hjálmari og fjöl-
skyldu að koma á hverju ári
norður og vera nokkra daga, það
voru yndislegar stundir,
Við vorum í góðu yfirlæti og
ég veit að krakkanir höfðu gam-
an af að spila og tefla.
Þú bjóst einn í 24 ár eftir að
mamma dó, þetta er langur tími,
vinir, bridge- og skákfélagar
komu þegar hringt var í þá,
stundum var spilað á tveimur
borðum og við hátíðleg tækifæri
voru þau fleiri, og oft var vakað
fram yfir miðnætti.
Í sumar brást heilsan og við
bræður og fleiri þjónustuðum
þig eins vel og við gátum, og þú
varst mjög þakklátur fyrir það.
Við minnumst þín sem um-
hyggjusams og góðhjartaðs föð-
ur.
Lífshlaup þitt var rúm 91 ár.
Hvíldu í friði elsku faðir.
Þínir synir,
Hjálmar Steinn og Rúnar.
Páll Ágúst
Hjálmarsson
Stapahrauni 5, Hafnarfirði
Sími: 565 9775
www.uth.is - uth@uth.is
Frímann
897 2468
Hálfdán
898 5765
Ólöf
898 3075
Kristín
699 0512