Morgunblaðið - 23.12.2021, Blaðsíða 22
22 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. DESEMBER 2021
SVIÐSLJÓS
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Líklega hefur byggðasögu hvergi
hér á landi verið sýnd jafn mikil
ræktarsemi og í Skagafirði. Hafa þó
víða um land mikil verk verið samin
og gefin út á þessu sviði. Vitnis-
burður um sérstöðu Skagfirðinga er
ritröðin Byggðasaga Skagafjarðar
sem nú á dögunum fyllti tíunda bind-
ið sem er það síðasta. Útgefandinn,
Sögufélag Skagfirðinga, er enginn
nýgræðingur. Þetta elsta héraðs-
sögufélag landsins hefur gefið út
hartnær 100 rit um sögu
Skagafjarðar, m.a. Skagfirskar
æviskrár í 18 bindum og Skagfirð-
ingabók sem orðin er sjö þúsund
blaðsíður í 40 bindum.
Stöndum á gömlum merg
„Við stöndum á gömlum merg,“
segir Hjalti Pálsson, ritstjóri verks-
ins, þegar hann er beðinn að skýra
þessi miklu afköst og þennan mikla
áhuga á sögu í héraðinu. Hann segir
að löngu áður en Sögufélagið var
stofnað 1937 hafi afkastamiklir
fræðimenn fyrri hluta 19. aldar eins
og Jón Espólín sýslumaður og Gísli
Konráðsson sagnaritari plægt jarð-
veginn, safnað efni, skráð og gefið út.
Í kringum Espólín hafi orðið til
nokkurs konar akademía í Skaga-
firði. Svo mikill var áhugi sýslu-
mannsins á sagnaritun að hann mátti
eiginlega ekki vera að því að elta
snærisþjófa og aðra smábrotamenn
eins og starfsfélagar hans í öðrum
sýslum vörðu ómældum tíma í.
Arfur Espólíns og lærisveina hans
hefur síðan verið dyggilega ávaxtað-
ur í Skagafirði. Nefna má að á ár-
unum 1949 til 1958 gaf Sögufélagið
út ritverkið Jarða- og búendatal í
Skagafirði 1781-1958. Þetta var
brautryðjandaverk og einstakt í
sinni röð. Enn hefur ekki verið gefið
út í heilli sýslu ábúendatal sem nær
svo langt aftur, en tímasetningin var
miðuð við elstu manntalsbækur úr
Skagafirði og verður ekki aftar kom-
ist með samfellt ábúendatal.
Hjalti segist hafa starfað við
byggðasöguna í rúman aldarfjórð-
ung, en áður var hann héraðs-
skjalavörður Skagfirðinga. „Ég hóf
störf 1. október 1995 og formálann
að lokabindinu, 10. bindinu, skrifaði
ég 1. október á þessu ári,“ segir
hann. Hjalti er orðinn 74 ára gamall
en hefur ekki í hyggju að setjast í
helgan stein á þessum tímamótum.
Hann langar til að vinna að fleiri
verkum, koma áfram út Skagfirð-
ingabók og kannski semja eitthvað
sjálfur.
Þarf að höfða til stórs hóps
Hjalti segist snemma hafa gert sér
grein fyrir því byggðasagan yrði að
vera fjölbreytt að efni og höfða til
stórs hóps. Þótt uppistaðan sé jarða-
lýsingar, sem þurfa að vera þurrar
og nákvæmar, fylgir öllum bindum
byggðasögunnar fjölbreytt efni um
mannlíf og menningu í héraðinu í
tímans rás. Þar er að finna þjóðsögur
og sagnir sem tengjast jörðunum og
fólkinu sem þar hefur búið, drauga-
sögur jafnvel, frásagnir af álaga-
blettum og fornminjum, vísur og
fleira smælki af slíku tagi.
„Sagnfræði má ekki vera leiðin-
leg,“ segir Hjalti og segir að frá upp-
hafi hafi áherslan verið á að gera
byggðasöguna í senn skemmtilega
og hagnýta án þess að slá af kröfum
um nákvæmni og fræðileg vinnu-
brögð.
Það eru ekki aðeins bændur, búa-
lið og almennir lesendur í Skagafirði
sem gagn hafa af byggðasögunni.
Hún er handbók fyrir fjölmarga að-
ila. Kemur ferðaþjónustunni t.d. vel
og nýtist leiðsögumönnum sem fara
um héraðið með ferðamenn. Hún
nýtist einnig skipulagsyfirvöldum og
sveitarstjórnum til að fá yfirsýn um
héraðið og auðveldar skipulags-
vinnu. Og byggðasöguna er líka að
finna á skrifstofum allra fasteigna-
sala í Skagafirði. Þeir þurfa að geta
svarað fljótt og vel þegar spurt er
um stærðir jarða, mannvirki, hlunn-
indi og sögu.
Þeir sem leita uppi gamlar húsa-
tóttir og eyðibýli hafa líka mikið
gagn af ritinu, því þar er að finna
GPS-staðsetningartákn allra
þekktra jarða sem eru aflagðar, um
400 fornbýla.
Öflugur fjárhagsstuðningur
Þótt Sögufélagið sé hinn formlegi
útgefandi byggðasögunnar hefði
þetta mikla verk verið óhugsandi án
fjárhagslegs stuðnings öflugra aðila í
Skagafirði. Að lokabindinu standa
auk félagsins Akrahreppur, Bún-
aðarsamband Skagfirðinga, Kaup-
félag Skagfirðinga og Sveitarfélagið
Skagafjörður. Nokkur fyrirtæki
önnur og sjóðir hafa ennfremur veitt
styrki. Auk Hjalta hefur allan tím-
ann verið stöðugildi aðstoðarmanns
við verkið og hafa þeir verið nokkrir
sem þeim starfa hafa sinnt. Við 10.
bindið störfuðu með honum Egill
Bjarnason, Kári Gunnarsson og
Kristján Eiríksson. Í lokabindinu er
á tæplega fjögur hundruð síðum
fjallað um Hofsós, Grafarós, Haga-
nesvík, Drangey og Málmey. Sagt er
frá jörðum þar, mannlífi, verslun og
atvinnuháttum. Ljósmyndir eru
rúmlega 420 auk korta og teikninga.
Mannanafnaskrá fyrir öll tíu bindin
er í vinnslu og verður hún gerð að-
gengileg á heimasíðu Sögufélags
Skagafjarðar á netinu í stað þess að
prenta hana. Talið er að um 25 þús-
und nöfn komi fyrir í bókunum svo
skráin myndi fylla vænt bindi, en
hagkvæmara þykir að hafa hana á
netinu.
Ekki numið staðar
Í formála 10. bindisins segir
Bjarni Maronsson, formaður útgáfu-
stjórnarinnar, að með Byggðasögu
Skagafjarðar hafi verið ofinn sá
þráður á milli fortíðar og nútíðar í
Skagafirði sem traustur muni reyn-
ast þeim sem vit og vilja hafi til að
nýta sér fróðleik og reynslu kynslóð-
anna til að mæta viðfangsefnum líð-
andi stundar.
Og Bjarni gefur fyrirheit um að
ekki verði látið staðar numið hér.
„En þótt merkum áfanga sé náð
nemur tíminn ekki staðar. Það er
verðugt viðfangsefni og skylda núlif-
andi og næstu kynslóða að skrá og
varðveita atburði og sögu Skaga-
fjarðar áfram og byggja svo ofan á
þann grunn sem Byggðasaga Skaga-
fjarðar og Saga Sauðárkróks eru
Skagfirðingum,“ segir hann.
Sagan má ekki vera leiðinleg
- Tíunda bindið af Byggðasögu Skagafjarðar komið út - Yfirgripsmikið verk um allar bújarðir í
héraðinu - Þjóðsögur og skemmtisögur í bland við jarðalýsingar - GPS-hnit allra eyðibýla fylgja
Ljósmynd/Óli Arnar Brynjarsson
Ritstjórinn Hjalti Pálsson með handritið áður en það fór í prentun.
Byggðasaga Skagafjarðar X. bindi.
Fróðleikurinn í Byggðasögu Skagafjarðar er gjarnan kryddaður með
margs konar smælki, þar á meðal gömlum og nýjum þjóðsögum og
sögnum sem tengjast byggðunum. Í lokabindinu er þessa sögu að
finna:
„Sigursteinn Friðberg Guðlaugsson fluttist til Hofsóss á sjöunda
áratug 20. aldar og gerðist verkamaður þar. Óhætt er að segja að á
stundum hafi verið róstusamt í kringum manninn og fór hann að vinna
í frystihúsinu á Hofsósi. Það gekk ekki allaf snurðulaust en verkstjóri
var Þórður Kristjánsson. Þannig hagaði til að verkstjórakompa Þórðar
var í einu horni vinnslusalarins svo að hann gat þaðan haft yfirsýn á
vettvang gegnum glerrúður. Að því rak að upp rann síðasti vinnudagur
Sigursteins Friðbergs í frystihúsinu. Hann kom inn í verkstjórakomp-
una og áttu þeir Þórður orðaskipti sem lauk með því að verkstjóri taldi
mælinn orðinn fullan, rak verkamanninn og sagði að hann skyldi aldrei
koma þangað aftur. Sigursteinn varð ævareiður, æddi út úr kompunni
og skildi eftir opnar dyrnar. Fólk í vinnslusalnum varð vitni að því þeg-
ar Sigursteinn snerist skyndilega á hæli, aftur inn til Þórðar, barði
hnefanum ofan í skrifborðið og æpti: „Ég skal hefna mín á þér þegar
ég er dauður.“
Síðan liðu ár. Sigursteinn bjó á Hofsósi til æviloka og andaðist 20.
október 1988, 74 ára gamall. Staðreynd er að næsta dag, 21. október,
lést Þórður Kristjánsson, 62 ára að aldri.“
Undarleg tilviljun eða hvað?
ÚR BYGGÐASÖGU SKAGAFJARÐAR
Mörkin 6 - 108 Rvk.
s:781-5100
Mörkin 6 - 108 Rvk.
s:781-5100 www.spennandi-fashion.is
Opið: 23.des: 11-18
24.-27. des: Lokað
GLEÐILEG JÓL KÆRU VIÐSKIPTAVINIR!