Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Blaðsíða 10

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Blaðsíða 10
10http://www.ætt.is Fréttabréf Ættfræðifélagsins í september 2021 aett@aett.is ur í Flatey til móður sinnar fyrir jólin. Hann hafði unn- ið við að smíða bát fyrir Friðrik Sigurðsson á Gamla Hrauni og bar með sér smíðatól sín og vinnulaunin í seðlum. Friðrik var giftur Sesselju Ásmundsdóttur sem var systir Gríms, tengdaföður míns. Þegar pilt- urinn skilaði sér ekki til Reykjavíkur var hans leit- að en hann fannst ekki. Það var svo 16 árum síðar að maður á skemmtigöngu suður af Kolviðarhóli leitaði afdreps í klettaskúta í rigningarskúr og sá þá glitta í handfang á sög. Þar var þá kominn hinsti hvílustað- ur smiðsins unga. Af seðlunum gat bankinn skrapað saman 100 kr og svo voru beinin þvegin á Hólnum, sett í kistu og send vestur til móður hans. ✽ ✽ ✽ ✽ ✽ Fæðing En menn dóu ekki bara á heiðinni, þar fæddust líka börn eins og þegar Jóna Þórðardóttir, 21 árs gömul stúlka, varð léttari og ól stúlkubarn í grænni lautu í sumri og sól í sláttubyrjun 1890, þá á leið austur í Ölfus, í kaupavinnu, ásamt manni sínum Eyjólfi Sveinssyni sem var ættaður úr Grímsnesinu. Hann skildi á milli og allt gekk vel. Ferðamenn, sem áttu leið hjá, sendu eftir tjaldi frá Kolviðarhóli og yfirsetukonu austur í Ölfus. Þegar hún kom að konunni sváfu hún og barn- ið djúpum sætum svefni í sumarsólinni í hraundæld- inni og heilsaðist vel. Og unga konan sagði þegar hún vaknaði: Ég er svo hress að ég gæti dansað! Það er gaman að hugsa til þess hve veröldin er lítil, því ég uppgötvaði, þegar ég las þetta, að faðir barnsins var bróðir langalangalangaafa barnabarnanna minna! ✽ ✽ ✽ ✽ ✽ Reykjakot og Reykjakotsætt Handan Hellisheiðarinnar, ofan við Hveragerði, ligg- ur dalkvos og í henni stendur bærinn Reykjakot. Segja má að hann kallist á við Kolviðarhólinn og sé eystri útvörður heiðarinnar. Reykjakot blasir við þeg- ar ekið er niður Kambana. Þar bjó á 18. öld, nánar tiltekið 1743-1783, Guðni nokkur Jónsson. Bjó hann þar fyrstur sinna ættmanna en síðan hafa niðjar hans setið jörðina og gera enn. Frá Guðna er komin svo kölluð Reykjakotsætt. Eru af henni margir þjóðþekkt- ir menn m.a. Vigdís Finnbogadóttir og Halldór Laxness, sumir segja á marga mismunandi vegu. Jón Steingrímsson eldklerkur kom við hjá Guðna á leið sinni til Reykjavíkur 1771 og segir frá honum í ævisögu sinni. Guðni þótti nokkuð vinnuharður og reis alltaf snemma úr rekkju. Einhverju sinni vildi hann vekja vinnumann sinn, sem honum þótti sofa of lengi, en tókst ekki hvernig sem hann tuskaði manninn til. Þegar betur var að gætt reyndist maðurinn dauður, hafði orðið bráðkvaddur í svefni. Þá bað Guðni guð að hjálpa sér, þar sem hann hafði gert tilraun til þess að vekja upp dauðan manninn. Guðni átti 24 börn með tveim konum. Af þeim komust 18 upp. Ein dóttir Guðna var Þjóðbjörg, hús- freyja á Villingavatni, önnur Vigdís á Tannastöðum og sú þriðja Ingveldur í Bakkárholti, f. 1759. Hún var langamma Ingveldar ömmu minnar. Ingveldarnafnið er enn við lýði, Ingveldur Ólöf systir mín f. 1948 bar það nafn. Ingveldur Guðnadóttir var einnig formóð- ir langfeðganna Ragnars, Kjartans og Ragnars, lista- manna, Til er skemmtileg saga um Vigdísi, sem var kven- skörungur mikill, skapstór, kappgjörn og ófyrirleitin. Bóndi nokkur, að nafni Sigurður, sem bjó á Völlum og Vorsabæ, hafði misst tvær eiginkonur. Hann bað Vigdísar, en hún neitaði. Sigurður var mun eldri en Vigdís og vel efnaður, m.a. átti hann marga væna sauði. Einhverju sinni sækir Sigurður sauðahópinn sinn upp í Hengladalina og rekur þá framhjá Reykjakoti, þar sem Vigdís sat með hannyrðir sínar við gluggann. Þá fer hún að sjá eftir að hafa neitað bónorðinu og verða af þessari stóru sauðahjörð. Hún hendir frá sér handavinnunni, vindur sér í fötin, og hleypur á eftir Sigurði og nær honum niður við Grýtu. Svo mikið lá henni á að hún gleymdi að setja á sig skóna og stökk á sokkaleistunum. Þar játaðist hún honum og þau gift- ust. En hjónabandið varð ekki farsælt, hún unni hon- um lítið og þótti heldur harðlynd. Vigdís bjó síðar á Tannastöðum. Þar hélt hún vinnumann sem Bjarni hét. Hann var lingerður og seinlegur. Á túnið féllu oft miklar aurskriður og þurfti að bera sand og möl af túninu vor hvert. Vigdísi þótti Bjarna ganga verkið seint og sló til hans með rek- unni. En höggið varð meira en hún ætlaði og Bjarni lærbrotnaði. Gekk hann jafnan haltur síðan og var því kallaður Bjarni á einum. Þegar hann löngu síðar fór að búa, gekk illa og hann varð heylaus. Þá var um hann ort: Bjarni á einum byrjaði búskapinn um vorið, en á góu endaði þá allt var komið í vandræði. Smælki Bara hænsnin Það eru ýmsar leiðir til þess að lýsa kostum og göllum jarða. Einhverju sinni lýsti Halldór Sigurðsson, síðar ráðherra, Harastöðum, sem var næsti bær við Staðarfell á Fellsströnd, þar sem hann þá bjó, með eftirfarandi orðum: „Einu skepnurnar sem bíta á landareigninni eru hænsnin“.

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.