Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Qupperneq 14

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Qupperneq 14
14http://www.ætt.is Fréttabréf Ættfræðifélagsins í september 2021 aett@aett.is Sogið er einnig lindá, og það á upptök sín í Þingvallavatni. Það undarlega er að það streymir fram úr vatninu með 110 m3/sek, með viðkomu bæði í Úlfljótsvatni og Álftavatni. Í Þingvallavatn renna samt aðeins fimm rúmmetrar úr Öxará og einhverjir smálækir í Grafningnum. Samt tæmist Þingvallavatn ekki! Ástæðan er að leysingavatn úr Langjökli, heilt Sog, streymir fram neðanjarðar gegnum gropið og holótt hraunið. Margir telja að Ölfusárnafnið hafi áður náð alla leið upp í Þingvallavatn sem þá kallaðist Ölfusvatn eða Ölfossvatn. Sogsnafnið er hvergi að finna í Landnámu. Sogið er vatnsmesta lindá lands- ins. Það rennur svo í Hvítá undir Ingólfsfjalli og sam- an mynda þær Ölfusá. Oftast má sjá þar skörp skil milli jökullitaða vatnsins í Hvítá og blátærs vatnsins í Soginu. Apavatnsför Sogið kemur einnig við sögu árið 1238 í s.k. Apa- vatnsför. Sú för hafði afdrifaríka þýðingu fyrir yf- irráðin yfir Íslandi og síðar fyrir sjálfstæði landsins. Þar áttust við tveir voldugustu höfðingjar á Íslandi, þeir Sturla Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson. Sturla var þá valdamesti höfðinginn og keppti um völdin við Gissur, fyrirliða Haukdæla, sem var valdamesti mað- ur í Árnesþingi. Sturla stefndi Gissuri til sín að Neðra- Apavatni og hittust þeir á flöt sem enn þann dag í dag heitir Stefnuvöllur. Þeir hittust á Stefnuvellinum á Hvítasunnudag 1238, Þá var vora best segir í Sturlungu. Báðir vildu ná yfirráðum yfir Íslandi með Noregskonung að bakhjarli. Þá var yfirgangur og ofsi Sturlu sem mestur. Hann óttaðist að Gissur yrði sér erfiður ljár í þúfu og stefndi honum því til sín. Sturla var með mikið herlið, 3-400 manns, þar á meðal var frændi hans, sagnaritarinn Sturla Þórðarson, sem lýst hefur þessum fræga atburði í Sturlungu. Gissur hafði aðeins 40 manns með sér. Sturla bað menn Gissurar að leggja niður vopnin. Þeir brugðu við hart „og brotn- uðu spjótsköft þeirra sum“, segir í Sturlungu. Þessi setning varð allt í einu raunveruleg, einn sumardag 1960, þegar Sigurlín Grímsdóttir, yngsta heimasætan á Neðra-Apavatni, þá 6 ára gömul, rak fótinn í eitthvað hart í kartöflugarðinum í útjaðri Stefnuvallar. Kom þar upp spjótsoddur, ryðgaður mjög og forn. Hann er nú á Þjóðminjasafninu. Það er erfitt að bera brigður á frásögn Sturlungu með þessa staðreynd við höndina. Sagan segir að Sturla hafi síðan látið Gissur sverja sér trúnaðareið þar sem hann lofaði því að fara utan. Gissur sór eiðinn, síðan riðu þeir saman að Álftavatnsvaðinu, eina vaðinu á Soginu, og var Sturla þungt hugsi hvað gera skyldi við Gissur. Margir hafa gert því skóna að hann hafi velt því fyrir sér hvort hann ætti að drepa Gissur en ákvað svo að láta hann lausan. Þá sagði Sturla hin fleygu orð „Ríðum enn“ og þeir héldu yfir Sogið og „höfðu djúpt“. Ættfaðirinn mikli Önnur saga, tengd Soginu, er um Þorleif Guðmundsson ættföður Grímsnesinga. Sagan er svona: Í Norðurkoti, sem var hjáleiga frá Öndverðarnesi í Grímsnesi, bjuggu upp úr miðri 18. öldinni hjón ásamt ungum syni sínum, Þorleifi. Bærinn brann árið 1773 og þau fórust bæði í eldsvoðanum, ásamt þrem öðrum. Þetta fólk var allt jarðsett í svo kölluðu Fimmmannaleiði í kirkjugarðinum á Snæfoksstöðum. Þess má enn sjá þar merki. Vinnukonu tókst að bjarga þrevetra syni húsbændanna, Þorleifi að nafni, út úr logandi bænum. Þau voru þau einu sem komust lífs af úr brunanum. Norðurkot fór í eyði 1938. Golfvöllur Múrarameistarafélags Reykjavíkur er nú þar sem Norðurkotið stóð. Sagnir herma að Þorleifur Guðmundsson hafi þrisvar lent í lífsháska en bjargast, tvisvar úr elds- voða og einu sinni frá drukknun. Drengurinn fór í fóstur til Halldórs Brandssonar föðurbróður síns að Úlfljótsvatni og ólst þar upp. Hann fór þangað ásamt vinnukonunni, bjargvætti sínum, og var með þeim kvíga sem fara átti upp í fóstrið. Þegar komið var að Úlfljótsvatni, sem er hluti af Soginu, og kvígan var komin í bátinn, varð drengurinn svo ókyrr að óttast var að hann mundi gera kvíguna brjálaða og skildi Halldór bóndi þau eftir og átti að sækja þau síðar. Úti á vatninu ærðist kvígan samt, bátnum hvolfdi og fylgdarmaðurinn drukknaði. Kona Halldórs, sem var nýstigin upp af barnssæng, sá slysið, setti fram bát og tókst að bjarga bónda sínum. Þar bjargast Þorleifur litli í annað sinn úr lífsháska. Þegar hann var enn á barnsaldri, að leik inni í baðstofunni og fólkið við vinnu úti, kviknaði í rúmfleti. Konu einni örvasa tókst að staulast út úr alelda bænum með drenginn. Þar bjargaðist Þorleifur Guðmundsson í þriðja sinn úr bráðum lífsháska. Og það var eins gott því hann átti eftir að skila miklu dagsverki. Nesjavallaættin Þorleifur er talinn forfaðir Nesjavallaættarinnar. Hjónin Katrín Grímsdóttir og Guðmundur Jónsson. Þau bjuggu í Hlíð í Grafningi. Katrín var dóttir Nesjavalla-Gríms, barnabarn Þorleifs Guðmundssonar frá Norðurkoti. Katrín var fædd 1841. Guðmundur, sem var fæddur 1832, var kominn af Guðna Jónssyni í Reykjakoti.

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.