Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Blaðsíða 13

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Blaðsíða 13
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í september 2021 http://www.ætt.is aett@aett.is13 1433 gefur svo Guðríður nokkur Ingimundardóttir, þáverandi eigandi Hóla, Viðeyjarklaustri jörðina fyrir sál Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra, bónda síns og son- arins Erlendar. Upp úr því var farið að kalla jörðina Klausturhóla, þótt aldrei væri þar klaustur. Í um hundrað ár frá 1652-1753 var rekinn spít- ali fyrir holdsveika í Klausturhólum. Hann var síðar fluttur í Kaldaðarnes. Hann var einn fjögurra slíkra spítala, og var fyrir Sunnlendingafjórðung. Kirkjur Kirkja var í Klausturhólum alla vega frá lokum fjórtándu aldar. Síðasta kirkjan í Klausturhólum var byggð 1895 og rifin 1932 þegar kirkja var reist á Stóru-Borg. Hluti af timbrinu úr gömlu kirkjunni var notað í nýju kirkjuna. Síðasti presturinn sem þjónaði Klausturhólakirkju var séra Stefán Stephensen, oft kallaður Stefán „sterki“. Vitað er um níu kirkjur í Grímsnesinu gegnum aldirnar. Á Hömrum var kirkja í 500 ár, á Apavatni í 300 ár, og svo voru kirkjur á Snæfoksstöðum, Öndverðarnesi, Klausturhólum, Búrfelli, Stóru Borg og nú á Sólheimum. Þegar grafið var á hlaðinu á Hömrum fyrir nokkrum áratugum komu upp bæði hauskúpur og beinagrindur. Þar er einnig örnefnið Kirkjuflöt. Þannig leynist sagan við hvert fótmál. Árnar og sögurnar Þrjár ár afmarka Grímsnesið og koma þar víða við sögu. Brúará afmarkar það að austan, Hvítá rennur bæði austan og sunnan við sveitina og Sogið rennur vestan við. Ótal sögur tengjast þessum ám. Brúará er lindá sem sprettur upp á Rótarsandi. Hún er næst mesta lindá landsins. Lindár eru tærar og með jafnt rennsli og hitastig. Meðalrennsli Brúarár er 60-70 m3/sek. Jóni Gerrekssyni, Skálholtsbiskupi, sem var danskur að ætt og illa þokkaður, var drekkt í poka í Brúará við Spóastaði, árið 1433. Lík hans barst niður ána og rak að landi fyrir neðan Hamra, við svo kallaðan Ullarklett, en Brúaráin rennur í Hvítá nokkru fyrir norðan Hamra. Ekki mátti úthella blóði biskupa og því varð að drekkja honum. Steinboginn Frægasta sagan um Brúará er tengd steinboganum sem lá eins og brú yfir ána og gaf henni nafn. Þetta gerði fátæklingum vestan árinnar fært að komast þurrum fótum í Skálholt til þess að betla sér mat. Svo gerist það árið 1602, í miklu hallæri og hungursneyð, að förumannsstraumurinn að Skálholti var óvenju mikill, biskupsfrúnni til mikils ama. Þá var þar biskup Oddur Einarsson. Sagan segir að frúin hafi, án vitundar biskupsins, sent bryta sinn að steinboganum og gert honum að brjóta hann niður, hvað hann og gerði. Biskupinn varð æfur þegar hann frétti þetta og ávítaði brytann mjög og sagði að hvorki sér né honum mundi happ af standa, en talið var að Oddur biskup væri forspár og sæi sýnir. Skömmu síðar drukknaði þessi bryti í Brúará. Biskupsfrúin fór heldur ekki varhluta af áhyggj- um biskupsins sem sagði að illt mundi af hennar ráð- um hljótast. Það varð og, því tvö yngri börn biskups- hjónanna voru sögð líða fyrir þessa gjörð. Sonurinn Eiríkur hafði mikinn vitsmunabrest og dóttirin Margrét var kvenna fríðust öðrum megin í andliti, með fagurrjóða kinn og blómlega, en hin kinnin var hvít og visin. Hún var trúlofuð séra Þórði Jónssyni í Hítardal, en það fór fyrir bí og hún giftist aldrei. Var hún þó með ríkari konum á sínum tíma og átti margar jarðir. Hún bjó í Öndverðarnesi og var svo yfirgangs- söm að Snæfoksstaðir, kirkjustaðurinn á næsta bæ, féll í auðn um tíma. En eftir stóð sú staðreynd að steinboginn var horf- inn og ásóknin í Skálholt dvínaði. Búrfell í Grímsnesi. Á Búrfelli bjó Grímur landnámsmaður. Hann nam Grímsnes vestanvert, frá Soginu upp að Svínavatni. Grímsnes fékk nafn sitt frá Grími. (Ljósmynd Guðfinna Ragnarsdóttir)

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.