Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Blaðsíða 12

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2021, Blaðsíða 12
12http://www.ætt.is Fréttabréf Ættfræðifélagsins í september 2021 aett@aett.is inni, Heiðarjarðir, sem liggja að Lyngdalsheiðinni og Mýrajarðir sem liggja að ánum austan til í sveitinni. Hraunajarðirnar kallast jarðirnar milli Sogs og Hvítár. Þær eru flestar á eldbrunnu, kjarri vöxnu hrauni. Það eru Öndverðarnes, Miðengi, Vaðnes og hluti Klausturhóla, Hæðarenda og Ásgarðs, auk bæjanna Norðurkots, Suðurkots, Snæfoksstaða, Hraunkots og Foss, sem eru allir löngu komnir í eyði. Á hraunajörðunum er víða góð beit og skjólsælt í hraununum, en erfitt með slægjur og léleg ræktunar- skilyrði. Heiðarjarðirnar þóttu alltaf bestu sauðfjárjarðirn- ar. Þær eru tíu og raða sér umhverfis Lyngdalsheiðina, en hún er dyngja eins og Skjaldbreiður, og myndaðist á síðasta hlýskeiði ísaldarinnar fyrir um 130 000 árum. Heiðarjarðirnar eru Neðra-Apavatn, Þóroddsstaðir, Svínavatn, Björk, Hallkelshólar, Klausturhólar, Hæðarendi, Búrfell, Efri-Brú og Kaldárhöfði. Lyngdalsheiðin er eins og stór terta þar sem bæirnir eiga allir hver sína sneiðina, misstórar þó. Svo eru það mýrajarðirnar sem raða sér meðfram Brúará og Hvítá austan og sunnan í Grímsnesinu. Þar erum við að tala um Sólheimahringinn, með Bjarnastöðum, Kringlu, Hömrum, Sólheimum, Vatnsnesi, Ormsstöðum, Eyvík, Stærri-Bæ, Brjáns- staði og Minni-Bæ, sem kominn er í eyði, sömuleið- is Reykjanes. Að hluta einnig Hagi, Mosfell, Minna- Mosfell og Sel. Mýrajarðirnar eru grösugastar og þar eru miklar slægjur. Þar hafa löngum verið kostamestu býli sveit- arinnar. Við sjáum á þessu að jarðfræðin hefur haft afger- andi áhrif á búskaparhættina, og skapað mönnum mismunandi skilyrði til ræktunar og beitar. Það er góð beit á hrauna- og heiðajörðunum, en erfitt með slægjur og léleg ræktunarskilyrði á hraunajörðunum. Bændur þar þurftu margir að sækja heyskap suður yfir Hvítá. Það var mjög erfitt, og margir drukknuðu í slíkum ferðum. Það dylst þó engum að Grímsnesið er gjöf- ult, hverrar gerðar sem jarðirnar eru. Hér er vatns- orka og jarðhiti, stöðuvötn og ár með lax og silungi. Kjarrivaxin hraun með mestu sumarhúsabyggðir landsins, rauðamöl og malarnámur í gömlum gígum og fornum sjávarhjöllum. Landnámið Þá er það mannfólkið og landnámið. Í Landnámu er getið um tvö landnám í Grímsnesinu, sem fékk nafn sitt af Grími landnámsmanni sem bjó fyrst í Öndverðarnesi, síðan á Búrfelli og var heygður í Klausturhólum. Hann er sagður Rögnvaldsson af Jamtalandi. Hann var víkingur og herjaði „fyrir vest- an haf“ ásamt bræðrum sínum og frændum. Kona hans var Álöf dóttir Þórðar vaggagða, en hún hafði áður verið kona Ásbjarnar jarls á Suðureyjum, en hann drap Grímur. Grímur nam Grímsnes vestanvert, frá Soginu upp að Svínavatni og voru Klausturhólar í landnámi Gríms. Ketilbjörn gamli nam um svipað leyti Laugardalinn allan, Biskupstungurnar og Grímsnesið austanvert niður að Höskuldslæk. Ketilbjörn bjó á Mosfelli. Hann á að vera heygður í flæðarmáli Hestvatns, undir Hestfjalli, í landi Eyvíkur. Við megum ekki gleyma því að fortíð og nútíð flétt- ast alltaf saman. Það er gaman að segja frá því að á Hömrum í Grímsnesi hefur sama ættin setið í yfir 300 ár, eða frá því um 1700, og Auður Gunnarsdóttir sem er bóndi á Hömrum, er 28. ættliðurinn frá Ketilbirni gamla, landnámsmanni í Grímsnesinu! En víkjum aftur að landnáminu. Höskuldslækur er örlagalækur í sögu Grímsness því landnám þeirra Gríms og Ketilbjarnar sköruðust um heila sex km. Þeir eignuðu sér báðir spilduna frá Höskuldslæk upp að Svínavatni. Þessir 6 km ollu deilum og svæðið var kallað þrætuspilda. Um svipað leyti kemur til Íslands hálfbróðir Ketilbjarnar, Hallkell að nafni. Þeir voru sammæðra. Hallkel langaði í jörð líka og Ketilbjörn, sem bjó á Mosfelli, og hafði af nógu að taka, vildi gefa hon- um land. Það vildi Hallkell ekki þiggja og sagði að það væri best að útkljá deiluna um þrætuspilduna og skoraði Grím á hólm. Þeir börðust þar sem nú eru Klausturhólar. Grímur féll og Hallkell tók þá staðinn, bjó þar síðan og gaf nafnið Hallkelshólar. Hólanafnið er að öllum líkindum dregið af þeim hólum sem við í dag þekkjum sem Seyðishóla. Grímur er sagður heygður í túninu undir hólunum við bæinn, og heitir þar Grímsleiði. Einhverntíma snemma á miðöldum fellur Hallkelshólanafnið út og farið er að kalla bæinn Hóla. Mosfell í Grímsnesi. Á Mosfelli bjó Ketilbjörn gamli, annar tveggja landnámsmanna í Grímsnesinu. Hann nam Laugardalinn allan, Biskupstungurnar og Gríms- nesið austanvert niður að Höskuldslæk. Ketilbjörn er forfaðir greinarhöfundar í 28. lið. (Ljósmynd Guðfinna Ragnarsdóttir)

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.