Morgunblaðið - 07.04.2022, Síða 52

Morgunblaðið - 07.04.2022, Síða 52
52 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 7. APRÍL 2022 ✝ Þórhallur Birgir Jóns- sonfæddist 14. ágúst 1950. Hann lést 27. mars 2022 á líknardeild Land- spítalans í Kópa- vogi. Foreldrar hans voru Jón Frímann Frímannsson, f. 12. mars 1913, d. 6. júní 1994, og Auð- ur Gísladóttir, f. 5. nóvember 1921, d. 22. nóvember 2013. Eiginkona Þórhalls Birgis var Ásthildur Alfreðsdóttir, f. 5. mars 1954, d. 14. september 2015. Dóttir þeirra er Gyða Þórhallsdóttir, f. 23. mars 1981. Börn Gyðu eru Arna Gyðudóttir, f. 31. júlí 2018, og Bjarki Gyðuson, f. 31. júlí 2018. Systkini Þór- halls Birgis eru: Pála H. Jónsdóttir, f. 18. júní 1941, Álfhildur H. Jóns- dóttir, f. 4. maí 1944, d. 3. maí 2020, Dagbjört Jónsdóttir, f. 27. apríl 1946, og Guðbrandur Jónsson, f. 11. febrúar 1954. Sambýliskona Þórhalls var Alla H. Hauksdóttir, f. 25. októ- ber 1954. Útför Þórhalls Birgis fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 7. apríl 2022, kl. 11. Leiðir okkar Bigga lágu sam- an árið 2016 á Hvítasunnumóti í Kirkjulækjarkoti. Við þekktum auðvitað hvort til annars áður, frá fornri tíð, þar sem við erum bæði frá Siglufirði. En þarna ár- ið 2016 varð strax góður vin- skapur á milli okkar og fljótlega fóru hjörtun okkar að slá í takt. Það var mikil og óvænt ham- ingja sem mér var færð að fá að kynnast honum Bigga mínum og eyða með honum síðustu árunum hans. Við lifðum lífinu svo sann- arlega lifandi saman, ferðuðumst mikið bæði innanlands og utan og áttum svo ótal margar góðar stundir að hugsandi til baka er eins og tíminn sem við áttum saman hafi verið mun lengri en hann raunverulega var. Ferðalögin okkar hófust strax helgina eftir að við hittumst í Kirkjulækjarkoti með heimsókn á Fiskidaga á Dalvík. Næstu ár- in ferðuðumst við vítt og breitt um landið og áttum notalegar stundir á ýmsum stöðum með fjölskyldu og vinum. Við áttum einnig margar og góðar stundir erlendis, á Spáni, Ítalíu, Póllandi og í Noregi, með vinum og fjöl- skyldu. Góðu stundirnar okkar saman voru svo óteljandi margar og það er svo verðmætt að geta yljað sér við allar þessar góðu minningar um Bigga sem ég mun geyma eins og gull í hjart- anu. Ég er þakklát fyrir hverja stund sem ég átti með honum en hefði viljað eiga svo miklu fleiri. Biggi var einstakur maður og er erfitt að finna nógu sterk lýs- ingarorð til að lýsa þeim manni sem hann hafði að geyma. Hann var einstakt ljúfmenni og hvers manns hugljúfi, eins og allir sem þekkja hann vita, og ég varð snortin af hans stóra og hlýja hjarta. Hjálpsamari og greiðvikn- ari mann er erfitt að finna en hann var ávallt reiðubúinn að að- stoða vini og fjölskyldu við nær hvað sem er. Það var líka fátt sem hann gat ekki gert en hann var einstaklega handlaginn og margt til lista lagt eins og flestir þekkja. Biggi var einn af demöntunum í mínu lífi og sjálfur átti hann dýrmæta demanta, Gyðu dóttur sína og barnabörnin Örnu og Bjarka, sem hann hugsaði afar vel um og lagði áherslu á að eyða sem mestum tíma með. Það var svo fallegt að fylgjast með hversu vel hann hugsaði um þau og svo dásamlegt fyrir mig að fá að taka þátt í lífi þeirra líka og fylgjast með barnabörnunum vaxa og dafna frá fæðingu. Missir þeirra er mikill, að missa ástkæran föð- ur og afa sem var svo stór hluti af lífi þeirra. Biggi var einnig afar góður við demantana mína, börn og barna- börn, sem voru fljót að átta sig á hversu góðan mann hann hafði að geyma og tóku honum strax opn- um örmum. Þau voru ófá skiptin sem ég fékk að heyra um hversu hamingjusöm þau voru yfir því að ég hefði kynnst honum Bigga mínum. Hans verður svo sann- arlega sárt saknað af mörgum en fallegar minningar um hann munu lifa í hjarta okkar. Ég bið góðan Guð að geyma vel þitt fallega hjarta og senda okkur sem söknum þín ljós og styrk í sorginni. Fallegu minn- ingarnar um þig og okkar góðu stundir saman mun ég geyma í hjartanu að eilífu. Mér finnst viðeigandi að láta texta úr fallegu lagi sem Biggi hreifst af fylgja: Hvers virði er allt heimsins prjál ef það er enginn hér sem stendur kyrr er aðrir hverfa á braut. Sem vill þér jafnan vel og deilir með þér gleði og sorg þá áttu minna en ekki neitt ef þú átt engan vin. Hvers virði er að eignast allt í heimi hér en skorta þetta eitt sem enginn getur keypt. Hversu ríkur sem þú telst og hversu fullar hendur fjár þá áttu minna en ekki neitt ef þú átt engan vin. Það er komin vetrartíð með veður köld og stríð. Ég stend við gluggann myrkrið streymir inní huga minn. Þá finn ég hlýja hönd sál mín lifnar við, eins og jurt sem stóð í skugga en hefur aftur litið ljós. Mín vetrarsól. (Ólafur Haukur Símonarson) Alla Hjördís Hauksdóttir. Elsku Biggi bróðir og kær vinur er farinn frá okkur. Þar fer góður og ljúfur bróðir og mágur sem var alltaf traustur og til staðar fyrir alla sína nánustu. Alltaf svo til í að hjálpa og að- stoða ef þess var þörf. Okkur sem enn erum hér þykir þyngra en tárum taki að kveðja þig allt- of snemma. Hefðum viljað hafa þig lengur hjá okkur. Þú varst fjórum árum eldri en ég og á uppvaxtarárum okkar leit ég alltaf upp til þín sem stóra bróð- ur. Minningar sem ég á frá þeim tíma eru einstaklega góðar og er mér mjög minnisstætt hvað þú varst alltaf rólegur og það fór ekki mikið fyrir þér. Þú hélst snemma á vit ævintýranna til Reykjavíkur þegar þú varst að- eins 16 ára gamall. Þá misstum við svolítið hvor af öðrum því á þeim tíma skutlaðist maður ekki svo glatt á milli Reykjavíkur og Siglufjarðar. Sameiginlegt áhugamál okkar bræðra voru bílar og oft fórum við á rúntinn til að skoða bíla og spá og spekúlera. Síðasti bíla- sölurúnturinn okkar var 19. des- ember síðastliðinn og var ekki annað að sjá en þú værir frískur þá. Ég mun sakna þess að fara ekki lengur í þannig leiðangra með þér. Að tala saman í síma voru gæðastundir fyrir mig og þó að ekkert væri að frétta þurftum við samt að heyrast oft í viku, svo nánir vorum við. Alltaf var þó hægt að tala um hvað þú værir að gera hverju sinni. Gera við bíla fyrir fjölskyldumeðlimi, gera við og dytta að heima hjá Gyðu þinni og ýmislegt fleira. Barátta þín við illvígan sjúk- dóm var erfið og snörp. Sjúk- dóm sem hafði sigur þrátt fyrir baráttuvilja þinn. Þú hefðir svo mikið verið til í að eiga eitt sum- ar í viðbót til að ferðast með Öllu og öðrum ferðafélögum á húsbílnum. Það var þitt líf og yndi að ferðast um landið okkar. Við kveðjum þig með söknuð í hjarta og munum alltaf minnast þín og alls þess sem þú gafst okkur, minningarnar ylja okkur. Stutt mannlegt líf endar skjótt. Guð geymi þig og blessi. Við sendum öllum ættingjum og vinum Bigga innilegar sam- úðarkveðjur. Fel mig nú í faðmi þér vernda mig með þinni sterku hönd. Þegar hafið rís og stormur hvín hefur þú mig upp og gætir mín. Faðir, flóðin hörfa fyrir þér þú ert minn Guð, hljóður ég er. (Þýð. Árný Jóhannsdóttir) Guðbrandur (Brandur) bróðir og Dóra Sólrún. Ég kynntist Þórhalli, eða Bigga eins og flestir þekktu hann, fyrir nokkrum árum gegn- um Gyðu dóttur hans sem er samstarfskona mín og ég leið- beini í doktorsverkefni. Fyrir tæpum fjórum árum eignaðist Gyða tvíbura. Hún bjó þá á fjórðu hæð í blokk sem var ekki auðvelt með tvíbura. Þórhallur lét henni þá eftir húsið sitt á Seltjarnarnesi. Þar var auðveld- ara að búa og frændfólk í næstu húsum. Um þetta leyti lét Þór- hallur af störfum fyrir aldurs sakir og sá fram á rólega og ánægjulega daga eftir starfs- sama ævi. Hann var af þeirri kynslóð sem stritaði í aðalvinnu og aukavinnu til að koma upp húsi fyrir fjölskyldu sína. Hann gladdist mjög þegar tvíburarnir fæddust. Nokkrum árum áður hafði hann misst konu sína eftir erfiðan sjúkdóm. En nú komu betri tímar og hann elskaði litlu tvíburana og þau hann. Hann kom til Gyðu þegar þau komu úr leikskólanum og lék við þau og hjálpaði til fram að kvöldmat. Dyttaði líka að húsinu, kom upp sandkassa fyrir börnin og húsi til að leika sér í. Alltaf með sömu ró og hjálpsemi. Börnun- um þótti vænt um hann og Bjarki var ekki stór þegar hann fór að elta afa sinn með hamar, skrúfjárn og plastborvél og herma eftir honum. Það var snjallt af honum, því Þórhallur var ákaflega handlaginn og mik- ill verkmaður. Á þessum tíma kynntumst við Þórhallur. Hann aðstoðaði mig við að gera við húsið mitt, við- gerðir á múr, lagfæringar á bíl- um og annað sem ég kann ekki. Alltaf með sömu greiðvikninni og róseminni. Hann fann fyrir mig iðnaðarmenn. Þeir voru hluti af hans reynsluheimi en ekki mínum. Ég reyndi að launa honum með því sem ég kunni í rafmagni og að leita að lausnum á netinu. Hann var ekki góður í því. Fyrir rúmu ári bauð hann mér í bíltúr í bíl sem hann hafði nýlega eignast og lét mig keyra. Þá fannst honum greinilega gamli bíllinn minn of gamall. Þegar mér leist ákaflega vel á bílinn hans fór hann með mig á bílasölu og við fundum nýjan bíl handa mér. Bílferðin var áreið- anlega hans hægláta „trix“ til að láta mig fá mér betri bíl. Hægð- in og rósemin eins og venjulega. Síðan dyttaði hann að bílnum fyrir mig svo hann var eins og nýr. Þórhallur greindist með heila- æxli í janúar. Hann var samt enn með hugann við ánægjulega daga í ellinni. Nokkru eftir að hann veiktist sagði hann mér að hann ætlaði að setja festingar fyrir barnastóla í ferðabílinn sinn svo hann gæti tekið tví- burana með í ferðalög í sumar. Það varð ekki af því, sjúkdóm- urinn var óvæginn og eftir stutt- an tíma var hann látinn. Hann, Gyða, Arna og Bjarki misstu þar með af ánægjulegum og góðum árum sem þau horfðu fram til. Fráfall Þórhalls er áfall fyrir Gyðu. Einnig litlu tví- burana sem áttu bara mömmu og afa og þótti ákaflega vænt um bæði. Þau eru lítil og skilja ekki dauðann enn. Bjarki spurði víst þegar mamma hans var að segja honum að afi hans væri dáinn: „Er fólk dáið lengi?“ Það var erfitt fyrir hann eins og okkur hin að taka þessum fréttum. Ég samhryggist litlu fjölskyldunni innilega. Rögnvaldur Ólafsson. Þórhallur Birgir eða Biggi eins og við ávallt kölluðum hann kom til starfa hjá okkur í kjölfar þess að hafa lokað fjölskyldufyr- irtækinu, Mósaík. Var það mikill happafengur því ekki aðeins var hann sann- kallaður þúsundþjalasmiður heldur einnig einstaklega vand- aður og góður maður. Hann var hógvær og hæglát- ur í allri sinni framgöngu, sá um að allar vélarnar í smiðjunni gengju smurt og um viðgerðir á þeim ef svo bar undir. Eftir margra áratuga starf í steinsmiðju var gott að geta leit- að til hans um hjálp og ráðlegg- ingar og það var yfirleitt sama hvað borið var undir hann, alltaf kom hann til baka með góða lausn á verkefninu. Stundum leit út fyrir að ekki væri hægt að lagfæra brotinn hlut en þá var oftar en ekki kallað í Bigga sem skoðaði hlutinn án þess að segja margt, hvarf inn í smiðju og kom til baka búinn að finna lausn og bæta hið brotna. Í kjölfar þess að hann eignast tvö lítil afabörn dró hann mjög úr vinnu sinni, bæði til að geta sinnt tvíburunum og verið til staðar fyrir dóttur sína Gyðu. Hann kom þó reglulega í heimsókn til okkar með sitt ljúfa fas og brosið blíða, sagði okkur hvað hann og afastrákurinn væru að bralla í bílskúrnum og hvert hann og Alla vinkona hans stefndu á að ferðast í sumar, á húsbílnum. Það var okkur mikið áfall og vonbrigði að heyra af veikindum hans nú í vetrarlok. Með söknuði og þakklæti kveðj- um við góðan vin og samstarfs- félaga og sendum fjölskyldu hans og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Fyrir hönd starfsfólks S. Helgasonar ehf., Ásgeir Nikulás. Elsku Biggi frændi. Þú varst bróðir hans pabba, þú varst alltaf í lífi mínu, þið pabbi voruð einhvern veginn svo mikill partur hvor af öðrum. Þið voruð svo tengdir og nánir, sem var svo fallegt að fylgjast með. Hringduð hvor í annan jafnvel bara til að ræða einhverjar skrúfur eða nýja olíu á eitthvert tækið. Ég fór á ótal bílasölusýningar með þér og pabba í gamla daga á laugardögum enda veit ég full- mikið um bíla eftir þessar sýn- ingar með ykkur pabba. Það stafaði af þér svo mikil góðvild í garð allra manna. Þú barst svo mikla virðingu fyrir náunganum og varst ekki að trana þér fram, en á sama tíma varstu mjög stór karakter. Hlýjan í augum þínum og stóra brosið þegar maður hitti þig leyndi sér ekki, þér var svo annt um þitt fólk. Gyða er heppin að hafa átt svo góðan pabba sem þú varst henni og Arna og Bjarki svo dásam- legan afa. Það er svo erfitt að hugsa til þess að þau fái ekki að hafa þig lengur og að þú fáir ekki að vera lengur með þeim til að fylgjast með þeim vaxa og dafna og lifa sínu lífi. En ég veit að þú fylgist með þínu fólki. Hvíl í friði, elsku Biggi frændi, ég mun sakna þín. Edda Sif Guðbrandsdóttir. Þórhallur Birgir Jónsson HINSTA KVEÐJA Djúp og varanleg vinátta er dýrmætari en veraldlegar viðurkenningar, og allt heimsins gull og silfur. Henni þarf ekki endilega alltaf að fylgja svo mörg orð heldur gagnkvæmt traust og raunveruleg umhyggja. Kærleikur, sem ekki yfirgefur. (Sigurbjörn Þorkelsson) Sannur vinur er sannur vinur, þannig vinur var Biggi. Hvíl í friði minn kæri. Jón Sigurðsson. Við þökkum auðsýnda samúð og hlýhug vegna andláts móður okkar, INGVELDAR GUÐMUNDSDÓTTUR hárgreiðslumeistara frá Sæbóli í Aðalvík. Sérstakar þakkir til starfsfólks Landspítala og Droplaugarstaða fyrir góða umönnun. Fyrir hönd aðstandenda, Hafsteinn Hafsteinsson Guðmundur Lúther Hafsteinsson Þorbjörg Hafsteinsdóttir Margrét Rögn Hafsteinsdóttir Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, SIGURÐUR INGIBERGSSON vélfræðingur, lést þriðjudaginn 29. mars á líknardeild Landspítalans. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 20. apríl klukkan 13. Friðfinnur Sigurðsson Eyrún Huld Harðardóttir Ingibergur Sigurðsson Marcela Munoz barnabörn og barnabarnabörn Ástkær eiginkona, móðir, tengdamóðir, systir og amma, INDÍANA SIGFÚSDÓTTIR, lést fimmtudaginn 31. mars á Hrafnistu við Sléttuveg. Útför hennar fer fram frá Langholtskirkju þriðjudaginn 12. apríl klukkan 13. Streymt verður frá athöfninni á hlekknum: https://www.skjaskot.is/indiana. Hlekk á streymi má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat. Gylfi Guðmundsson Þóra Björg Gylfadóttir Davíð Rúrik Ólafsson Gylfi Jens Gylfason Berglind Guðmundsdóttir Sigurður Jón Sigfússon og barnabörn Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, MAGNÚS G. ÓLAFSSON húsasmíðameistari, Heiðargerði 19, Reykjavík, lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu sunnudaginn 3. apríl. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju þriðjudaginn 12. apríl klukkan 13. Blóm og kransar afþakkaðir, þeim sem vilja minnast hans er bent á Barnaspítalasjóð Hringsins. Margrét Þorvaldsdóttir Jónína Magnúsdóttir Ragnar Aðalsteinsson Ingibjörg Ó. Magnúsdóttir Ólafur K. Magnússon Heiðdís Hermannsdóttir barnabörn og barnabarnabörn Elskulegur faðir minn, afi og langafi, REYNIR GUÐBJÖRNSSON, Hákotsvör 1, Garðabæ, lést föstudaginn 1. apríl. Útförin fer fram frá Bessastaðakirkju föstudaginn 8. apríl klukkan 13. Einar S. Reynisson barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.