Morgunblaðið - 26.05.2022, Síða 28
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Norsku hjónin Knut Øines og Marte
Lian Øines eru búsett í Porsgrunn í
Suður-Noregi, bæði vel sjóaðir kepp-
endur og meistarar í vaxtarrækt og
body fitness um allan heim. Þau
skemmta sér vel í tómstundum við að
sigla frístundafleyi sínu milli huggu-
legra hafnarbæja við suðurströnd
Noregs þar sem þau hittust fyrir í
síðustu viku, þjóðhátíðardaginn 17.
maí, er þau lögðu að bryggju í Tøns-
berg, sem er vinsæll áningarstaður
norsks siglingafólks á sumrin.
Blaðamaður þekkir lítillega til
Knut og Marte gegnum menningar-
kima líkamsræktarfólks í Tønsberg
og nágrenni þar sem íturvöxnum
mönnum og konum þykir margt leið-
inlegra en að rífa í kalt stálið sér til
yndisauka. Var þeim hjónum boðið í
spjall um lífið og keppnismennskuna
og brugðust vel við.
Margt er um manninn á bryggj-
unni í Tønsberg 17. maí, sólskin og
hiti, sem ekki er nú alveg föst regla í
Noregi á þjóðhátíð. Knut og Marte
sitja í makindum um borð, hann í
jakkafötum en hún klædd hefð-
bundnum norskum þjóðbúningi,
bunad, enda láta fæstir Norðmenn
sjá sig óspariklædda 17. maí. Eins
syndsamlega og það hljómar þurfa
hjónin og gestur þeirra að leita inn úr
sólinni og í setustofu bátsins svo taka
megi samtalið upp án skarkalans frá
bryggjunni. Hefur þetta helmassaða
fólk gert nokkuð annað en að lyfta
lóðum um sína daga eða hvað?
Fer út með ruslið
„Já já, ég byrjaði nú í frjálsum
íþróttum og keppti heilmikið í þeim
og eins á skíðum og bobsleða,“ svarar
Knut sem er menntaður verkfræð-
ingur frá Glasgow í Skotlandi og ber
auk þess gráðu í viðskiptafræði frá
BI-viðskiptaháskólanum í Sande-
fjord. Þá kenndi hann stærðfræði og
eðlisfræði um árabil en hefur nú
helgað sig rekstri fasteigna, á fjölda
íbúða í Tønsberg og nágrenni sem
hann leigir út. „Ég kem og fer út með
ruslið,“ segir Knut og hlær, og á við
að hann rekur þetta fyrirtæki sitt
einn, annast bókhald, viðhald, sam-
skipti við leigjendur og jafnvel þrif.
Marte er hins vegar frá Þránd-
heimi, útstillingahönnuður þótt hún
starfi ekki við það nú. „Ég vinn við að
þrífa vörubíla núna,“ segir hún frá og
ljóst af mæli hennar að hún hefur
varðveitt hinn sérstaka Þrándheims-
framburð vel, enda aðeins búsett um
fárra ára skeið á Suðurlandinu. Enn
fremur hefur frammistaða Marte á
sviðinu skilað henni stöðu sem at-
vinnukeppnismanneskja í body fit-
ness, eins konar mýkri og kvenlegri
útgáfu af gömlu hefðbundnu vaxtar-
ræktinni.
„Ég var nú maraþonhlaupari til að
byrja með en fór svo að lyfta lóðum
og þar kom að ég fór að heyra út und-
an mér að ég ætti nú að prófa að
keppa,“ segir hún frá. Teningunum
hafi svo verið kastað þegar vinkona
hennar steig á sviðið árið 2011 og
Marte fékk örlitla innsýn í blákaldan
raunveruleika keppandans. Sjálf tók
hún skrefið þó ekki fyrr en árið 2016
og keppti þá í fyrsta sinn í body fit-
ness.
Örlagavaldurinn Opheim
„Þetta fór nú rólega af stað hjá
mér, ég lenti í svona fimmta til sjötta
sæti á fyrstu mótunum en svo gerðist
það að ég hreppti fyrsta sætið í Sand-
efjord 2017,“ heldur Marte áfram.
Það var svo árið 2018 sem heilladís-
irnar skælbrostu við Þrándinum og
hún varð Noregsmeistari í body fit-
ness, Norðurlandameistari í Finn-
landi sama ár auk þess að keppa á
mjög eftirminnilegu atvinnumanna-
móti í Kína 2019 þar sem hún hreppti
3. sætið. Síðasta afrek hennar sem
leikmanns (e. amateur) var hins veg-
ar 3. sæti á HM leikmanna í Póllandi.
Þau Knut nefna bæði í kór að hrein
vatnaskil hafi orðið á keppnisferli
Marte þegar nýr þjálfari, Tone Op-
heim, tók við þjálfun hennar. Hafi
Opheim þessi af hreinu listfengi náð
að draga það besta fram hjá Marte
og lyfta henni með glans úr sjötta
sæti til æðstu metorða enda hrein-
lega þjálfari á heimsmælikvarða að
sögn hjónanna og nefna þau til jar-
teikna að Marte varð atvinnukeppn-
ismanneskja í body fitness árið 2018.
Knut var hins vegar orðinn fertug-
ur þegar hann gekk vaxtarræktinni á
hönd, en til gamans má geta þess að
aldursmunurinn á þeim hjónum er 20
ár, hann fæddur 1965 og hún 1985.
Vettvangur kynna þeirra var sam-
félagsmiðillinn Instagram. Knut hóf
ferilinn árið 2005 og átti hann þá þeg-
ar Noregsmeistaratitla í langstökki,
bobsleða og róðri. „Það er nú dálítið
gaman að segja frá því hvernig þetta
hófst,“ segir norski bergrisinn og
hagræðir sér í sætinu svo myndar-
legur bátur þeirra hjóna tekur grein-
anlega dýfu á stjórnborða.
Ætlaði bara að keppa einu sinni
„Við vorum þrír vinir sem urðum
allir fertugir þetta ár og ákváðum að
halda keppni innbyrðis, taka myndir
af okkur og útnefna þann svo sigur-
vegara sem væri í besta forminu. Svo
guggnuðu þeir báðir á þessu og ég
stóð einn eftir,“ rifjar Knut upp og
segist þá hafa verið kominn í þokka-
legasta form. Hann hafi þá látið kylfu
ráða kasti og stigið á sviðið um haust-
ið á meistaramótinu í Larvik.
„Þar lenti ég í neðsta sæti,“ segir
verkfræðingurinn sem síðar átti eftir
að verða heimsmeistari í vaxtarrækt
enda altalað að fall sé fararheill.
Næsti vettvangur var Noregsmeist-
aramótið þar sem hann hafnaði í
þriðja sæti. „En við vorum bara fjór-
ir í mínum þyngdarflokki,“ bætir
hann við og seyrið glott leikur um
varirnar. „Ég ætlaði bara að keppa
einu sinni í vaxtarrækt og þá væri
maður búinn að prófa það en hugsaði
svo með mér „fjandinn hafi það“ og
var ekkert sáttur við þessa byrjun.“
Hann hafi því keppt í þriðja sinn
2007 og náð þeim glæsilega áfanga að
verða Noregsmeistari í mínus 100 kg
flokki í vaxtarrækt bankahrunsárið
2008. Í kjölfarið varð Knut Norður-
landameistari árið 2011, hafnaði í 5.
sæti á HM 2013 og 3. sæti 2015, Nor-
egsmeistari í flokki 40 ára og eldri
2019 áður en hann stóð með pálmann
í höndunum sem heimsmeistari í
flokki eldri en 50 ára á HM á Spáni
árið 2020, í opnum þyngdarflokki,
101,7 kg við vigtun. Er hér aðeins
stiklað á því stærsta af ógrynni móta
á ferli hans en Knut hefur keppt alls
sex sinnum á HM og lent í fyrsta,
þriðja, fimmta, tvisvar í sjöunda sæti
og í 10. sæti 2009. „Ég hef líka rosa-
lega oft verið í öðru sæti á alls konar
mótum,“ segir þessi stórvaxni Norð-
maður frá.
„Þannig að ég fór úr botnsætinu í
Larvik árið 2005 í að verða heims-
meistari 15 árum síðar, þá búinn að
þyngja mig um tíu kíló, og þarna
sérðu nú muninn á okkur Marte, hún
var ekki nema tvö ár að verða at-
vinnumanneskja frá því hún keppti
fyrst,“ segir Knut og þessi vöðva-
stæltu hjón hlæja dátt. „Hún er bara
rosaleg frá náttúrunnar hendi,
herðabreið og mjög mittismjó. Þegar
hún er í keppnisformi þarf hún að
fara í barnadeildina til að kaupa sér
buxur,“ segir eiginmaðurinn og enn
glymur hláturinn.
Þið Íslendingar virðið sportið
Talið berst að eftirminnilegum at-
vikum á keppnisferli hjónanna og
þau bera saman bækur sínar. „Það er
Norðmenn frá helvíti
- Heimsmeistari í vaxtarrækt 2020 - Kílógramm af kjöti á dag - „Maggi Bess er svakalega flottur“
- Sviðið 163 metra langt - Hjólbörufarmur af seðlum í Kína - Maturinn 90% og æfingarnar 10%
Ljósmynd/Torbjørn Tanberg
Hjónin í Porsgrunn „Rýrt mun verða fyrir honum smámennið ok eigi er ráð að hafa færri en þrjá tigu manna,“
sagði Sigurður svínhöfði er lögð voru á ráðin um fyrirsát Gunnars á Hlíðarenda og föruneytis hans við Knafahóla.
Ósagt skal látið hvort þrír tugir manna fengju lagt Knut og Marte Øines.
Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
Þjóðhátíð Knut og Marte um borð í fleyi sínu við bryggjuna í Tønsberg 17.
maí. Undir spaks manns spjörum leynist vöðvamassi af öðrum heimi.
28 FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. MAÍ 2022
BIOM 2.1 X COUNTRY
21.995 kr. / St. 36-42
GÓÐIR OG LÉTTIR GÖTUSKÓR
BIOM 2.1 X COUNTRY
21.995 kr. / St. 36-42
BIOM 2.1 X COUNTRY
21.995 kr. / St. 36-42
KRINGLAN - SMÁRALIND - SKÓR.IS
- Textíll og nubuck leður
- Mikill stuðningur við fótinn
- Góð dempun
- Gúmmísóli með góðu gripi