Morgunblaðið - 26.05.2022, Blaðsíða 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. MAÍ 2022
Verð 2.400.000,-
Upplýsingar í síma 898 9479
Delta Euroline 4700
Árg. 2006 – skoðun til 2024
Einstaklega gott og vel
skipulagt, létt kojuhýsi með
hjónarúmi og sér borðkrók.
TIL SÖLU
HJÓLHÝSI
VIÐTAL
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Listahátíð í Reykjavík hefst eftir fá-
eina daga, þann. 1. júní, og eru ýmsir
góðir gestir væntanlegir til landsins.
Þeirra á meðal er Taylor Mac, sann-
kölluð stórstjarna í sviðslistaheim-
inum sem sló í gegn árið 2016 með
sýningu sinni A 24 Decade History of
Popular Music. Þar fór Mac yfir sögu
Bandaríkjanna frá árinu 1776 til
dagsins í dag með því að flytja vinsæl
lög frá hinum ýmsu tímum í heilan
sólarhring.
Mac mun koma fram á Stóra sviði
Þjóðleikhússins 1. og 2. júní og mega
gestir búast við tveggja tíma kons-
ert-útgáfu af þessu sólarhringslanga
verki. „Yfirleitt þegar við komum
fram einhvers staðar í fyrsta sinn þá
þá viljum við kynna verkefnið fyrir
fólki á smærri hátt svo þetta sé ekki
of yfirþyrmandi. Þegar ég sýni þessa
styttri útgáfu af verkinu þá vel ég
eitthvert þema sem mér finnst eiga
vel við það sem er að gerast í heim-
inum í augnablikinu,“ segir Mac í
samtali við Morgunblaðið.
Sýninguna í heild segir listamað-
urinn nokkurs konar fórnarathöfn.
„Við fórnum því úr fortíð okkar
sem þjónar okkur ekki lengur,“ segir
Mac og vísar í ýmsar hörmungar sem
eiga sér stað í heiminum í dag; stríð
Rússa í Úkraínu, skerðinguna á rétti
til fóstureyðinga í Bandaríkjunum,
takmörkun á réttindum transfólks
þar í landi og ógnina við réttindi sam-
kynhneigðra sömuleiðis.
„Þannig mér datt í hug að við
myndum fórna feðraveldinu, það
verður lögmálið sem við miðum okk-
ur við. En körlum er svo sannarlega
boðið. Þeir eru velkomnir. Við ætlum
bara að fórna þessu feðraveldis-
hugtaki.“
Gagnkynhneigð ekki sjálfgefin
Mac segir sýningu sína vera nokk-
urs konar draumkennda og fjöruga
bænastund fyrir betri heim og stund-
um komi þessi betri heimur í ljós á
staðnum. „Við erum ekki bara að
kvarta yfir stöðunni í heiminum held-
ur í raun og veru að breyta honum
hér og nú. Ég er eins og ég er og
þetta er líf mitt hér og nú, ekki eins
og það gæti orðið.
Hluti af því sem ég geri er að taka
eitthvað sem fólk telur ekki vera hin-
segin og gera það hinsegin. Ég reyni
að finna það sem er „hinsegin“ í öllu
til þess að sýna að gagnkynhneigð
viðmið séu ekki alltaf það sjálfgefna.
Það er stór hluti minnar vinnu. En
svo er það hin hliðin á þessu. Við er-
um ekkert endilega alltaf að gera
eitthvað „hinsegin“, við bara erum
eins og við erum. Mér finnst óþarfi að
setja allt upp í andstæður.“
Mac segist reyna að finna jafn-
vægið milli þess að sýna fram á hin-
seginleikann í sögu Bandaríkjanna
án þess að flokka allt eftir gagnkyn-
hneigðum eða hinsegin viðmiðum.
Í framhaldi af þessari umræðu um
hinseginleika berst talið að því
hvernig viðmælandinn vilji láta
ávarpa sig. „Ég fagna öllum persónu-
fornöfnum, það er mín persónulega
nálgun á málið. Kvenleg orka getur
falist orði þrátt fyrir að það hafi karl-
kyns endingu. En ég kalla alla „hún“.
Ég er gamaldags hinsegin. Það er
heiður fyrir fólk að vera kallað hún
og það fjarlægir eitraða karlmennsk-
una. En það eru ekki allir ánægðir
með það.“
Persónufornafnið „judy“
Mac hefur þó valið að nota per-
sónufornafnið judy sem er vísun í
leikkonuna Judy Garland. „Ég er
ekki trans en þegar ég stíg á svið og
einhver kallar mig „hann“ þá finnst
mér það ekki alveg fanga heild-
armyndina og það sama má segja um
„hún“. Svo ég fann bara upp mitt eig-
ið. Það er gjöf og ég segi við fólk:
„Notaðu það, eða ekki, það er undir
þér komið.“ Það segir meira um
manneskjuna sem velur að nota það
eða neitar að nota það en um mig.
Sumir halda að þetta sé brandari
en það er það ekki. Það þýðir samt
ekki að þetta sé ekki fyndið. Það felst
auðvitað ákveðinn aktívismi í þessu
því fólk á það til að ranghvolfa aug-
unum yfir fólki sem notar önnur per-
sónufornöfn en „hann“ eða „hún“.
Svo ég valdi persónufornafn sem
gerir það að verkum að þegar þú seg-
ir það upphátt, „judy“, og ranghvolfir
augunum samtímis þá dregur það
strax úr karlmennskunni. Þú verður
hommalegur um leið og þú dæmir
mig,“ segir Mac, eða judy, og hlær.
„Þetta er gáskafull leið að efninu,
umræðan um persónufornöfn er svo
alvarleg. Ég vil frelsa okkur undan
því að þurfa að velja og hafna, þurfa
að skilgreina okkur,“ segir judy.
„Fólk áttar sig líka ekki endilega á
því að fatastíll hefur ekkert með kyn-
gervi að gera. Það spyr mig: „Hvern-
ig geturðu verið kynsegin ef þú klæð-
ist gallabuxum og stuttermabol?“
Hversdags gengur Mac í fötum sem
judy kallar karlmannlegt drag, föt-
um sem hinum ósköp hversdagslega
gagnkynhneigða karlmanni liði lík-
lega vel í. „Það er eins og fólk ætlist
til að maður klæðist einhverjum bún-
ingi sem ætti heima í Star Wars
mynd til þess að geta talist hinsegin.
Það er svo heimskulegt.“
Mac lagar hverja sýningu að að-
stæðum hverju sinni og að því hvern-
ig áhorfendahópurinn bregst við.
„Ég veit líka ekkert fyrir fram hvað
mun gerast í rýminu. Hvert kvöld er
einstakt svo ég verð að hlusta á rým-
ið og finna hvar listin liggur og elta
hana uppi. Ég reyni að benda fólki á
hvar dýptina er að finna en það verð-
ur sjálft að elta hana uppi.“
Venjulega taka áhorfendur ríkan
þátt í sýningunni en Mac hefur að-
eins lagað sig að heimsfaraldinum,
t.d. eru áhorfendur ekki lengur
beðnir að dansa vangadans við
ókunnuga.
„Þessi sýning hefur alltaf talað inn
í samtímann í samtali við söguna, svo
hún er síbreytileg. Svona er samtím-
inn, við erum að glíma við Covid og
við drögum þær hörmungar inn í
sýninguna. En ég hef ýmis ráð til
þess að fá áhorfendur til að taka þátt
með öðrum hætti.“
Íslenskir leynigestir taka þátt
Þá lagar Taylor Mac sýninguna að
hverjum stað fyrir sig. „Við bjóðum
oft listamönnum frá þeim stað sem
við erum að heimsækja til þess að
taka þátt í sýningunni svo það verða
einhverjir leynigestir. Við æfum með
þeim kvöldið áður og köstum þeim út
í þetta með okkur.“
Þá verða einnig haldnar nokkrar
vinnusmiðjur hér á landi þar sem
Mac fær tækifæri til þess að ræða
við heimamenn.
„Mér finnst líka bara gaman að
tala við bílstjórann og húsvörðinn.
Ég vil tala við alla til þess að átta mig
á því hvað er að gerast í borginni,
kynnast slúðrinu og áhyggjunum.
Ég reyni að grafast fyrir eins mikið
og ég get áður en ég fer á svið svo ég
geti tekið sögurnar með mér á sviðið.
Það er alltaf hluti af gleðinni.“ Mac
hvetur fólk til þess að heilsa upp á
sig á götum borgarinnar og segja sér
frá lífinu á Íslandi.
Mac kemur fram með tónlistar-
stjóranum Matt Ray og hljómsveit,
auk þess sem búningahönnuðurinn
Machine Dazzle stígur á svið.
Búningar Machine Dazzle spila
stórt hlutverk í sýningunni. „Það
breytir öllu sem ég geri á sviðinu
hvort ég er klæddur í hefðbundið
karlmanns-drag eða í eitthvað alveg
draumkennt. Búningarnir eru eins
og metafórur, ekkert er bókstaflegt.
Allt hefur merkingu, ofan á merk-
ingu, ofan á merkingu. Þetta er list
sem hægt er að klæðast. Það breytir
sýn okkar á lögin sem ég flyt og
breytir sýn okkar á það hver getur
sagt söguna á sviði. Hjörtu fólk opn-
ast við þetta án þess að ég viti alveg
hvernig. Þetta vinnur samhliða minni
eigin list, sem snýst að svo miklu
leyti um að vera í rými fullu af fólki
og að við veltum fyrir okkur hug-
myndum í sameiningu.“
Tónlistin er ekki síður mikilvægur
þáttur sýningarinnar. „Það er ekki
þannig að hver áhorfandi þekki öll
lögin. Við reynum að koma fólki á
óvart með einhverju sem það hefur
ekki heyrt áður. En við sýnum því
líka eitthvað sem það hefur heyrt áð-
ur í nýrri umgjörð. Ég er enginn
kennari. Ég er bara að minna fólk á
það sem það hefur grafið, eða það
sem annað fólk hefur grafið fyrir
það,“ segir Mac og bætir við að
markmiðið sé að afbyggja markvisst
það sem sé í deiglunni hverju sinni
með aðstoð tónlistar sem hefur skil-
greint okkur sem samfélag í gegnum
tíðina.
Vill stöðugt koma á óvart
„Ég vil breyta öllum í salnum, það
er eiginlega markmiðið. Eða
„breyta“ er kannski ekki rétta orðið.
Ég vil opna fyrir pláss í heila þeirra,
hjartanu og sálinni fyrir umburðar-
lyndi. Ég vil vinna gegn einsleitni og
koma fólki á óvart. Það er tækni sem
ég nota mikið. Mér finnst að það eigi
eitthvað óvænt að gerast á tíu sek-
úndna fresti. Það þarf ekki að vera
neitt risastórt. Það getur verið eitt-
hvað einfalt, til dæmis bara verið að
setja tvö orð saman sem þú hefur
aldrei séð hlið við hið áður eða að
syngja lag sem er venjulega mjög
karlmannlegt í háum hælum. Hið
óvænta á það til að opna fólk en sjokk
hefur oft öfug áhrif. Það er aldrei
ætlunin hjá mér að sjokkera með list-
inni minni. Það er frekar tilboðið sem
er kjarni hennar. Ég býð áhorfend-
unum með í þessa upplifun og þetta
augnablik, í hvern andardrátt og
hverja nótu sem er sungin. Sýningin
er í raun röð tilboða til þátttöku en þó
laus við alla tilætlunarsemi um að
fólk taki boðinu.“
Ljósmynd/Sarah Walker
Litadýrð „Það breytir öllu sem ég geri á sviðinu hvort ég er klæddur í hefðbundið karlmanns-drag eða í eitthvað alveg draumkennt,“ segir Taylor Mac sem fram kemur á Listahátíð í Reykjavík.
Ljósmynd/Vess Pitts
Fjörug bænastund fyrir betri heim
- Stórstjarna í sviðslistaheiminum sækir Ísland heim - Taylor Mac endursegir sögu Bandaríkjanna
með tónlist og drag að vopni - Vill opna hjörtu áhorfenda og vinna gegn einsleitni í samfélaginu