Læknablaðið - 01.04.2022, Blaðsíða 40
204 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108
V I Ð T A L
„Ég er úrvinda,“ segir úkraínski sérnámslæknirinn María Vygovska. Hún hefur búið og
starfað sem læknir hér á landi í rúm fjögur ár. Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu tekur af
henni hugarróna. Læknablaðið settist niður með Maríu og eiginmanni hennar,
Sveini Rúnari Sigurðssyni lækni
■ ■ ■ Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
Úkraína verður aldrei söm og
sársaukinn ólýsanlegur
„Ég hefði aldrei trúað því að Rússland
myndi hefja allsherjarstríð gegn Úkraínu,
þrátt fyrir hótanir og tilburði til að æsa
landsmenn til þess að svara fyrir sig og
þrátt fyrir ólöglega viðveru í landinu frá
2014,“ segir María Vygovska, sérnáms-
læknir í meinafræði á Landspítala.
„Ég sá fyrir mér að geta áfram farið
tvisvar á ári heim til fjölskyldunnar með
son okkar til að gefa honum tækifæri til
að alast upp líkt og ég gerði, verja sumr-
inu í sumarhúsi foreldra minna á lands-
byggðinni. Úkraína verður aldrei söm eft-
ir þessa árás,“ segir María sem óttast um
börnin og áhrif stríðsins á uppvöxt þeirra.
„Kannski munu þau yngstu gleyma en
hin gera það aldrei.“ Hún lýsir því hvern-
ig fjögurra ára frændi hennar, sem nú
hleypur um stofuna heima hjá henni, ótt-
ast þyrlulæti og hvell hljóð. „Hann beygir
sig við minnsta hvell og verður mjög
hræddur, þrátt fyrir að hafa einungis upp-
lifað einn dag af sprengjugný. Ég hugsa til
þess með hryllingi hvernig komið er fyrir
öðrum börnum sem enn búa við þessar
aðstæður.“
María situr á móti blaðamanni á Te og
kaffi í Borgartúni. Hún er ekki ein heldur
með eiginmanni sínum, Sveini Rúnari
Sigurðssyni lækni. Þau hafa ekki aðeins
tekið á móti foreldrum hennar heldur
einnig mágkonu, vinkonu mágkonunnar
og börnum þeirra. Samtals 7. Stríðsflótta-
mönnum.
Milljónir eru á flótta af rúmlega 43
milljóna þjóð. Þau lýsa því að þjóðarmorð
eigi sér nú stað í Úkraínu, ekki einungis
í Mariupol þar sem 400.000 höfðu verið
innlyksa án vatns og matar í 11 daga
þegar viðtalið er tekið. „Ólýsanlegt,“ segja
þau. Bróðir hennar, sem rak kaffihús í
Kænugarði, varð eftir heima eins og svo
margir karlmenn.
„Reksturinn hans er fyrir bí,“ segir
hún. „En hann er nú í vesturhluta lands-
ins og hjálpar þar til. Hann berst ekki og
mér líður betur að vita af honum þar en í
stríðsátökum.“
Heræfingar sýndu hvert stefndi
Þau lýsa því í skarkala kaffihússins hvern-
ig þau sáu í upphafi árs í hvað stefndi.
„Við vorum búin að hvetja þau öll til að
koma eftir að heræfingar Rússa við landa-
mærin hófust. Glugginn sem Oleg bróðir
hennar hafði, lokaðist aðeins nokkrum
klukkustundum áður en hann ætlaði að
fara,“ segir Sveinn.
Hann hefur verið áberandi í fjölmiðl-
um frá innrás Rússahers, en þau hjón reka
tvö íslensk fyrirtæki með starfsstöðvar
og starfsmenn á víð og dreif um Úkraínu,
einkum tölvunarfræðinga.
Fyrir stríðið héldu þau lífi sínu fyrir
sig. Nú segja þau mikilvægt að tala. „Það
er gjarnan sagt að sannleikurinn sé það
fyrsta sem deyr í stríði en hann hefur ekki
verið aðgengilegur Rússum í stjórnartíð
Pútíns,“ segir hann. Því sé mikilvægt
að ræða og fræða, ekki síst til að minna
Rússa á Íslandi á að miðla upplýsingum
áfram til ættingja heima fyrir. „Sigur
vinnst ekki nema Rússar taki sjálfir á
þeim sem fara fyrir Kreml.“
Þau vilji líka koma fram því nauðsyn
sé á samhæfðu viðbragði hins opinbera,
fyrirtækja og einstaklinga. „Já, áður en al-
gjört neyðarástand skapast. Nú koma um
30-40 konur og börn til Íslands á dag og
því er útlit fyrir að þjóðinni fjölgi um 1%
fyrir 17. júní,“ segir Sveinn Rúnar.
Þau lýsa miklum áhyggjum af því
hvernig innviðir Úkraínu eru sprengdir
upp. Hvernig fjölskyldur heillar þjóðar
eru nú sundraðar um allan heim. „Það
mun taka áratugi að reisa allt við,“ segja
þau. „Sársaukinn er ólýsanlegur. Mörg ár,
ef ekki áratugi, mun taka að græða sárin –
ef það þá tekst nokkurn tímann.“
En hvað geta læknar gert í stöðunni
sem nú er uppi? „Ástandið er þannig að
ekki er hægt að hvetja til þess að læknar
hætti sér inn á stríðssvæði þar sem heil-
brigðisstofnanir, blaðamenn og almennir
borgarar eru skotmörk,“ segir María og
Sveinn segir að Alþjóðaheilbrigðisstofn-
unin WHO hafi sagt að aldrei í sögunni
hafi jafn margar árásir verið gerðar á heil-
brigðisstofnanir eins og í stríðinu nú.
„Það er nauðsynlegt að þjóðir heims
standi með Úkraínu þegar stríðinu lýkur.“
Úkraína er einstök
Sveinn Rúnar kom fyrst til Úkraínu
árið 2005, skömmu eftir appelsínugulu
byltinguna, en hefur nú 17 árum síðar
komið þangað oftar en 100 sinnum: „Það
eru ekki mörg skúmaskot eftir í þessu
risavaxna landi sem við höfum ekki sótt
heim.“ Hún brosir. „Já, hann þekkir landið
og sögu þess jafnvel og ég.“
Stórfjölskylda Maríu býr í Kænugarði