Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 16

Læknablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 16
R A N N S Ó K N sýnt aukningu á nýgengi sykursýki á árunum 1990-1999 en 83% rannsókna sýna hins vegar óbreytt eða minnkandi nýgengi á ár- unum 2006-2014.13 Samanburður á tölum um algengi og nýgengi sykursýki 2 í Bandaríkjunum og á Íslandi eru hér settar fram fyrst og fremst til umhugsunar og hugleiðingar um að nauðsynlegt er að fylgj- ast með þróun sykursýki í samfélaginu þegar breytingar á algengi og nýgengi eru með þeim hraða sem við höfum séð undanfarna áratugi. Eins og sést í fyrrnefndri grein hefur þróun á nýgengi sykursýki verið nokkuð mismunandi, jafnvel í löndum með svip- aðan efnahag og samfélagsgerð og hér á landi.13 En hvar standa Íslendingar í þróun sjúkdómsins? Erum við stödd við upphaf mik- illar aukningar á algengi sykursýki hér á landi líkt og gerðist í Bandaríkjunum í upphafi 10. áratugar síðustu aldar? Það er áhyggjuefni ef Ísland stendur frammi fyrir viðlíka aukn- ingu á fjölda fólks með sykursýki og hefur orðið í Bandaríkjunum. Þótt fjöldi fólks með sykursýki sé nú stöðugur þar hefur því verið spáð að kostnaður vegna sykursýki muni aukast um 53% vestan- hafs fram til ársins 2030.14 Líklegt má telja að þar sem fólki með sykursýki fjölgar hratt á Íslandi muni kostnaður einnig hækka hér á landi þótt ekki hafi verið gerð úttekt á kostnaði vegna sykursýki hér á landi eftir því sem við best vitum. En hver er skýringin á aukinni sykursýki? Fyrri rannsóknir Hjartaverndar hafa sýnt skýr tengsl aukinnar offitu og aukinnar tíðni sykursýki10,12 en við höfum ekki góða mynd af þróun offitu frá 2011 því ekki hafa verið gerðar hóprannsóknir á líkamsþyngd síðan þá. Versnandi mataræði gæti skýrt aukna tíðni sykursýki en í síðustu könnun á mataræði Íslendinga frá 2010-2011 hafði matar- æðið batnað í nær öllum atriðum.15 Aðflutningur fólks þaðan sem algengi sykursýki er hærra en hér á landi gæti aukið tíðni sykur- sýki hér á landi. Algengi og nýgengi sykursýki lækkar hjá bæði körlum og konum í elstu aldurshópunum, líklega tengt aukinni dánartíðni fólks með sykursýki.16,17 Niðurstöður franskrar rann- sóknar þar sem lyfjagagnagrunnur var nýttur á líkan hátt og í okkar rannsókn sýndi svipað lækkað algengi og nýgengi í elstu aldurshópunum.18 Markviss mæling á algengi og nýgengi sykursýki 2 er mikil- væg, en verður eingöngu gerð með hóprannsóknum eins og Hjartavernd hefur staðið fyrir síðastliðna áratugi. Vissulega er hér notast við Lyfjagagnagrunn Embættis landlæknis og fengnar töl- ur þaðan sem gefa hugmynd um algengi og nýgengi sykursýki 2. Slík notkun á gagnagrunnum kemur þó ekki í staðinn fyrir beinar mælingar á tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðinni. Nákvæm mæl- ing á nýgengi verður einungis gerð með því að kalla aftur í hóp fólks sem skoðaður hefur verið nokkrum árum áður og því er að okkar mati ástæða til að kalla aftur inn þátttakendur í Áhættu- þáttakönnun Hjartaverndar sem komu á tímabilinu 2004 til 2011. En hvað er til ráða fyrir einstaklinga og stjórnvöld? Gagnreynd þekking hefur skapast á undanförnum árum um það hvernig hægt er að bregðast við svo koma megi í veg fyrir að fólk fái sykur- sýki 2, bæði á einstaklingsgrunni en einnig með aðgerðum sem ná til heilla þjóða eða stórra hópa í samfélaginu. Yfirlitsgrein um forvarnir gegn sykursýki 2 var nýlega birt af vísindamönnum á vegum heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum.19 Þar er lagt til að forvarnaraðgerðum stjórnvalda sé beint annars vegar að fólki í mikilli áhættu á að fá sykursýki og hins vegar að beita forvörnum sem hafa áhrif á almenning. Sem dæmi um aðgerðir sem beinast að einstaklingum í auk- inni áhættu á að fá sykursýki er US National Diabetes Prevention Program (US DPP). Það er verkefni á vegum bandarískra stjórn- valda sem hófst árið 2010 og snýst um að fá fólk í mikilli áhættu á að fá sykursýki til að breyta lífsháttum sínum. Aðferðirnar sem notaðar eru í þessu verkefni byggja á samnefndri klínískri rann- sókn sem hófst árið 1996.19 Sú rannsókn leiddi í ljós að fólk með aukna áhættu á að fá sykursýki dró úr líkum á sykursýki um 58% borið saman við viðmiðunarhóp með breyttum lífsháttum þannig að þátttakendur grenntust um 5-7% af upphaflegri líkamsþyngd og juku hreyfingu hóflega (í að minnsta kosti 150 mínútur á viku).19 Eins og áður segir hófst verkefnið US DPP á landsvísu í Bandaríkj- unum árið 2010. Í apríl 2019 höfðu 324.000 manns hafið þátttöku í því.19 Svipuð vinna er að fara af stað í Evrópu.20 Á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er lýst heilsueflandi heilsugæslu sem virðist ríma vel við nálgun US DPP. Þar segir: „Við leggjum áherslu á einstaklingsmiðaða nálgun, stuðning við breytingar og raunhæfa markmiðasetningu.“21 Eðlilegt skref fyrir stjórnvöld á Íslandi gæti því verið að efla heilsugæsluna á þessu sviði. Ýmsar gagnreyndar aðgerðir stjórnvalda sem hafa áhrif á al- menning eru einnig nefndar í yfirlitsgreininni. Í Bandaríkjunum hafa verið gerðar tilraunir með reglur um merkingar matvæla, niðurgreiðslu á hollum mat á tilteknum svæðum, skatta á sæta drykki og viðbættan sykur og fleira.22 Svipað hefur verið reynt í Evrópu, svo sem skattur á óhollan mat og/eða niðurgreiðslur á hollum mat.23 Aðgerðir í umhverfis- og skipulagsmálum hafa einnig skilað árangri, svo sem bætt aðgengi að hjóla- og göngu- stígum bæði austan- og vestanhafs.24 Þessi rannsókn bendir til hraðrar aukningar á sykursýki á Ís- landi undanfarin ár. Nú eru liðin 15 ár frá því síðasta hóprannsókn Hjartaverndar hófst og tímabært og nauðsynlegt að ráðist verði í nýja hóprannsókn, bæði til að fylgjast með þróun sykursýki 2 en einnig öðrum krónískum sjúkdómum, svo sem hjartabilun og kransæðasjúkdómi og þróun í áhættuþáttum eins og holdafari, blóðþrýstingi, blóðfitu og æðakölkun. Þakkir Sérstakar þakkir til þátttakenda í Áhættuþáttakönnun Hjarta- verndar og til starfsfólks Hjartaverndar. Þakkir til Embættis land- læknis fyrir aðgengi að gögnum úr Lyfjagagnagrunni embættis- ins. Rannsóknin er kostuð af Rannsóknastöð Hjartaverndar og með samningi Hjartaverndar og heilbrigðisráðuneytisins. Greinin barst til blaðsins 8. janúar 2021, samþykkt til birtingar 30. mars 2021.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.