Læknablaðið - 01.05.2021, Blaðsíða 38
254 L ÆK N A BL AÐIÐ 2021/107
Reginmunur er á því að vinna á háskóla-
sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og á ís-
lenskum heilbrigðisstofnunum. Þetta segir
Sigurður Böðvarsson, yfirlæknir göngu-
og lyflækningadeildar og nú einnig í starfi
framkvæmdastjóra lækninga á Heilbrigð-
isstofnun Suðurlands. Hann hefur starfað
þar frá því í desember 2018 þegar hann
kom heim eftir 8 ár í Bandaríkjunum, eða
samtals 14 ára veru ef sérnámsárin í Madi-
son Wisconsin talin með.
„En það er svo skrýtið að sjúklingarnir
eru svipaðir og jafnvel með sömu sjúk-
dóma,“ segir hann og hlær. Sigurður
lýsir ólíkum starfsháttum þar ytra og hér
heima. Tryggt sé að læknar í Bandaríkjun-
um nýti krafta sína og þekkingu sem best.
„Þeir eru yfirleitt með mjög margt
aðstoðarfólk og geta því einbeitt sér að
því að sinna sjúklingum,“ segir hann.
Algengt er að sérfræðilæknir sé með tvær
skoðunarstofur í gangi. Á meðan hann
sinni sjúklingi í annarri stofunni sé sá
næsti undirbúinn í hinni. „Svo labbaði ég
á milli,“ segir hann. Hér taki hins vegar
tíma að sækja sjúklinginn fram á biðstofu,
leiða inn á stofu og undirbúa.
Vill sjá framfarir
Samtalið hefur ekki varað lengi þegar
ljóst er að Sigurður vill láta til sín taka.
Breyta, bæta, sjá framfarir. Við heimför
voru Landspítali eða Selfoss í sigtinu.
„Selfyssingar höfðu haft samband við
mig nokkrum árum áður og boðið mér að
koma og byggja upp krabbameinslækn-
ingar á Suðurlandi. Það þótti mér svolítið
spennandi kostur enda Sunnlendingur,“
segir hann.
„Mér fannst í viðtölum mínum á
Landspítala að þar hefði lítið breyst og
ég hafði ekki áhuga á að koma þangað í
gamla starfið mitt sem sérfræðilæknir.
Ég vildi verða yfirlæknir og taka aðeins
til. Það fannst hins vegar engum góð
hugmynd nema mér. Ég ákvað því að fara
á Selfoss og sé ekki eftir því. Mér hefur
fundist frábærlega skemmtilegt að vera
hér.“
Sigurður lýsir því hvernig Heilbrigðis-
stofnunin gengur nú í endurnýjun lífdaga.
Fé hafi verið veitt til að stækka starfsem-
ina og sér hann fram á að ný hæð rísi á
spítalanum á næstu fjórum árum.
„Það er svo mikið í deiglunni. Það kem-
ur til af því að fólki fjölgar hér á svæðinu.
Margt fólk flytur hingað, bæði barna-
fólk og eftirlaunaþegar sem vilja koma í
sveitina, fá meira fyrir peninginn. Þetta
eru hópar sem þurfa mikla heilbrigðis-
þjónustu.“
Heilbrigðisstofnunin fær þrjá milljarða
til að endurnýja sjúkrahúsið. „Það er gam-
an að taka þátt í því að rýna í teikningar,
fá hugmyndir og breyta skipulagi. Við
erum í því núna og stofnunin verður tekin
í gegn frá toppi til táar. Það verður byrjað
á neðstu hæðinni og svo fikrum við okkur
upp á við og byggjum þriðju hæðina.“
Bíður eftir nýju fjárhagslíkani
Sigurður horfir til þess hvernig nýtt fjár-
hagslíkan sem nú sé verið að innleiða á
heilsugæslunni, og svo á sjúkrahúsum
landsins á næsta ári, muni efla starfsem-
ina. „Það gengur út á að fjármagnið fylgi
sjúklingum og að menn fái greitt fyrir
það sem þeir gera.“ Sérkennilegt sé að
sjúkrastofnanir séu á föstum fjárlögum.
„Það er svo skrýtin hugmyndafræði
að fá vasapeninga sem eiga að duga út
árið,“ segir hann. „Það er miklu skynsam-
legra að fá greitt fyrir það sem þú gerir.“
V I Ð T A L
Heilbrigðisstofnun Suðurlands verður endurnýjuð frá toppi til táar, eins og
Sigurður Böðvarsson krabbameinslæknir lýsir. Forsvarsmenn sjúkrastofnunarinn-
ar stefna á að færa heimamönnum aukna þjónustu og hafa rætt leiðir til þess við
Sjúkratryggingar Íslands og heilbrigðisráðuneytið
■ ■ ■ Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir
Endurnýja sjúkrastofnunina
og vilja fleiri sérfræðilækna á
Suðurland