Lögmannablaðið - 2022, Blaðsíða 17
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22 17
framburður þeirra væri oft mikilvægasta sönnunargagnið,
einkum í kynferðisbrotamálum þar sem ekki væri öðrum
beinum sönnunargögnum til að dreifa, og þeir hefðu meiri
réttindi en almenn vitni í sakamálum, samanber V. kafla
sakamálalaganna.
Á undanförnum árum hafa verið gerðar umbætur sem
m.a. er hægt að þakka brotaþolum sem hafa stigið fram.
Skýrsla Hildar Fjólu hefur nú þegar haft áhrif varðandi
verklag og t.d. er byrjað að halda fund með brotaþola
og réttargæslumanni þegar mál eru felld niður,
ríkissaksóknari hefur gefið út fyrirmæli um upplýsingagjöf
til brotaþola þegar sakborningur hefur verið settur í
gæsluvarðhald og leystur úr því og á haustmánuðum var
sett á fót upplýsingagátt fyrir brotaþola um gang máls hjá
lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Starfshópar
um málsmeðferðartíma eru nú starfandi, annars vegar
hefur ráðuneytið sett hóp sem skoðar heildarmálsmeðferð
sakamála frá upphafi til loka/fullnustu og hins vegar
hefur skipaði ríkissaksóknari nýlega starfshóp til að skoða
málsmeðferðartíma nauðgunarmála með það að markmiði
að reyna að stytta málsmeðferðartímann.
Í umsögn ríkissaksóknara við frumvarp dómsmálaráðherra
á síðasta þingi var lagt til að réttur brotaþola til aðgangs
gagna væri sá sami og sakbornings. Ríkissaksóknari teldi
að það gæti verið til bóta að brotaþoli hefði aukinn aðgang
að gögnum á rannsóknarstigi með það að markmiði að
sakamálið upplýsist sem best.
Margrét taldi vandkvæðum bundið og ekki til bóta fyrir
sakamálið að brotaþoli bæri vitni fyrir dómi á undan
ákærða enda gæti það litað framburð ákærða. Eins gæti
það verið mjög íþyngjandi fyrir brotaþola að hafa hlýtt
á framburð sakbornings og ekki væri víst að það yrði til
hagsbóta fyrir hann. Sá möguleiki væri þó að á einhverju
stigi gæti brotaþoli fengið að horfa á upptöku á framburð
sakbornings.
Það væri þó eðlilegt og sanngjarnt að brotaþoli sæti
réttarhöld eftir að hafa gefið skýrslu kysi hann svo enda
væru lokuð réttarhöld í kynferðisbrotamálum hugsuð
til hagsbóta fyrir brotaþola ekki ákærða og þess væru
dæmi að brotaþolar fengju heimild til að sitja í málum í
Landsrétti. Það væri til bóta að fá ákvæði inn í lögin um
þetta þar sem dómarar héraði telja sér mögulega ekki
fært að heimila brotaþola að vera viðstaddur með vísan til
stöðu hans sem vitnis. Framlagning gagna og spurningar
réttargæslumanns/brotaþola færu í gegnum sækjanda eða
dómara og væru almennt ekki vandamál og það færi betur
á því að brotaþoli gæfi viðbótarskýrslu sem hefði gildi sem
sönnunargagn fremur en að brotaþoli ávarpaði dóminn.
Ef lögfest yrði að brotaþoli hefði rétt á að áfrýja dómi
yrði grundvallarbreyting á kerfinu enda fæli það í raun
í sér aðild brotaþola að sakamálinu. Ákæruvaldinu hafi
verið komið á fót til að létta sönnunarbyrði af brotaþola
og refsivörslukerfið væri til vegna almannahagsmuna.
Sönnunarbyrðin í sakamálum er lögð á ákæruvaldið en ekki
á brotaþola og það mætti velta fyrir sér hvort það hlutverk
myndi raskast við svona kerfisbreytingu. Einnig hvílir
hlutlægniskylda á ákæruvaldinu en ekki á einstaklingum
og Margrét taldi mikilvægt að skoðuð yrði reynslan á öðrum
Norðurlöndum í þessu sambandi.
Loks taldi Margrét til bóta að í frumvarpinu megi koma að
kröfum um ómerkingu héraðsdóms á heimvísun varðandi
einkaréttarkröfu, ef henni hefði verið vísað frá héraðsdómi
vegna sýknu ákærða. Jafnvel mætti ganga lengra og heimila
Landsrétti að dæma einkaréttarkröfuna þannig að brotaþoli
ætti þá einkaréttarlega aðild að sakamálinu sem væri áfrýjað
þrátt fyrir frávísun einkaréttarkröfu. Eins væri mikilvægt að
brotaþoli fengi skipaðan réttargæslumann fyrir Landsrétti
óháð því hvort brotaþoli gæfi skýrslu eða ekki eins og
frumvarpið kveður á um.
Unnur Lilja Hermannsdóttir og Eyrún Ingadóttir tóku
saman