Lögmannablaðið - 2022, Blaðsíða 14
14 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22
John Stuart Mill taldi yfirráð karla yfir konum rótgrónasta
yfirráðakerfi í heimi. Catherine MacKinnon, sem setti einna
fyrst fram hugtakið „kynferðisleg áreitni“ upp úr miðri
20. öld og var þá talin alger öfgamanneskja, setti fram
mismuna (e. difference) kenninguna sem varpar ljósi á
að karlar væru í raun viðmið laganna. Karlar settu lögin,
framkvæmdu lögin og dæmdu eftir lögunum framan af.
Með þetta í farteskinu væri því ekki óeðlilegt í sögulegu
samhengi að kynjamismunun væri innbyggð í lögin, enda
liggja rætur feðraveldisins djúpt í vestrænni menningu.
Samspil laga og samfélags er náið og lögin geta haft stýrandi
áhrif á hegðun fólks. Þá er ríkjandi sjónarmið í íslenskri
lögfræði að lögin séu hlutlaus en að sjálfsögðu eru þau þó
speglun á samfélaginu. Merki þessa eru meðal annars þær
breytingar sem hafa orðið á löggjöf í vestrænum ríkjum og
varða ofbeldi gegn konum. Í því samhengi verður þáttur
„brjálaðra“ kvenna seint ofmetinn.
Í fræðunum er hægt að segja að þetta séu fjórar bylgjur
eða kynslóðir femínista. „Brjálaðar borgaralegar konur“
börðust fyrir kosningarétti, eignarrétti og grundvallar
borgarlegum réttindum sem við sjáum merki um í löggjöf
frá seint á 19. öld og framundir miðja 20. öld. Upp úr 1970
fóru að tínast til konur með lögfræðipróf í krafti baráttu
borgaralegu brjáluðu kvenna fyrstu bylgjunnar fyrir að
aðgengi kvenna að menntastofnunum sem hafði áhrif á
grundvallar lagalegan skilning á kynferðislegu ofbeldi. Á
níunda áratug síðustu aldar var þriðja bylgja femínismans
greind í tvær áttir; annars vegar konur sem „halla sér
fram“ (e. lean in) til að sækja jafnrétti á vinnumarkaði og
„róttækar brjálaðar konur“ sem kröfðust kerfisbundinna
viðbragða gegn kynbundnu ofbeldi. Fjórða bylgjan er svo
yfirstandandi #metoo bylgja sem er leidd af „brjáluðum
(ungum, pc, vegan) konum með aðgang að internetinu“.
Þegar þessar bylgjur eru skoðaðar í samhengi við
breytingar sem hafa orðið tengdar kynferðisofbeldi og
meðferð þess hafa kynjafræðingar vísað til fyrirmyndar úr
náttúruvísindunum um skjálftavirkni og eldgos. Þannig megi
segja að samfélagslegar breytingar tengdar kynferðisbrotum
lýsi sér eins og aðdragandi eldgoss, þar sem fyrst kemur
skjálfi, síðan þrýstingur og loks gýs. Heildarendurskoðun
kynferðisbrotakafla hegningarlaganna árið 1992 má skoða
sem dæmi um þetta. Árið 1984 komu upp nauðungarmál
sem vöktu sterkt ákall um breytingar. Nauðgunarmálanefnd
var sett á laggirnar og árið 1992 áttu sér stað umfangsmiklar
breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaga þar sem
meðal annars var í fyrsta sinn kveðið á um kynferðislega
áreitni í lögum. Þarna varð skjálfti sem orsakaðist af
meðferð tiltekinna mála, samfélagslegur þrýstingur með
ákalli um breytingar og gos í formi lagabreytinga. Ef við
notum sömu nálgun á nútímann hefur skjálftahrina og
þrýstingur staðið yfir talsvert lengi, eða frá árinu 2007 þegar
kynferðisbrotakaflinn var síðast endurskoðaður. Merki
þessa sjást meðal annars í löggjöf um kynferðislega friðhelgi,
aðgerðum stjórnvalda á borð við stofnun Bjarkarhlíðar og
breytingum á verklagi lögreglu í heimilisofbeldismálum.
Það er ýmislegt hægt að gera til að sporna gegn áhrifum
kynjakerfisins í framkvæmd en þrjú atriði voru nefnd. Í
fyrsta lagi hvernig sé tekið á kvenfyrirlitningu í lögum,
en í mörgum Evrópuríkjum er verið að skoða að lögfesta
kvenfyrirlitningu sem grundvöll haturs og hatursbrota. Í
öðru lagi er full ástæða til að skýra kynferðislega áreitni
í lögum. Það eru nú þrjú ákvæði í íslenskum rétti og þau
eru ekki öll samhljóða sem gæti verið ástæða fálmkenndra
viðbragða við #MeToo. Í þriðja lagi þarf að huga að
úrræðum réttarvörslukerfisins með hliðsjón af því hvernig
sá sem brotið er gegn upplifi að hlutur hans sé réttur, en
ekki síður hvaða áhrif það á að hafa fyrir þá sem brjóta gegn
kynferðisbrotakaflanum til lengri tíma. Í því samhengi er
ekki víst að lögin séu eina svarið.
Réttarstaða brotaþola á Íslandi
Dr. Hildur Fjóla Antonsdóttir tók í doktorsverkefni sínu
viðtöl við fólk sem hafði reynslu af því að ganga í gegnum
réttarkerfið í kynferðisbrotamálum og var niðurstaða
hennar sú að réttur brotaþola væri mjög takmarkaður,
málsmeðferð tæki oft óheyrilega langan tíma og að
brotaþolar upplifðu að kerfið sneri við þeim baki. Árið
2018 stofnaði forsætisráðherra stýrihóp um heildstæðar
úrbætur að því er varðar kynferðisofbeldi og var Hildur
fengin til að skrifa greinargerð um leiðir til að styrkja
stöðu brotaþola.
Í dag eru lögin þannig að réttargæslumaður fær einungis
aðgang að þeim gögnum sem varða þátt brotaþola og
eru honum nauðsynleg til að gæta hagsmuna hans á
rannsóknarstigi. Einkum er um að ræða lögregluskýrslu
brotaþola sjálfs og gögn lækna. Lögreglu ber ekki skylda
til að upplýsa brotaþola um framgang máls en árið
2015 var þó sett ákvæði um að brotaþolar hafi rétt til að
kæra ákvörðun héraðssaksóknara eða lögreglustjóra til
ríkissaksóknara. Brotaþoli má ekki hlýða á framburð ákærða
en réttargæslumanni er þó heimilt að vera viðstaddur öll
þinghöld í máli en má ekki beina spurningum til ákærða
eða vitna og er einungis heimilt að tjá sig munnlega fyrir