Lögmannablaðið - 2022, Blaðsíða 25

Lögmannablaðið - 2022, Blaðsíða 25
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22 25 standa vörð um eigið sjálfstæði og sjálfstæði dómsvaldsins í landinu.“ Umfjöllun um söguna stöðvuð Í kaflanum „Til móts við nýja öld“ fjallar þú um tímabilið 1999- 2020 og m.a. um gagnrýni Jóns Steinars Gunnlaugssonar á Hæstarétt. Í sögunni bendir þú m.a. á ýmis líkindi með gagnrýni Jóns Steinars og Jónasar frá Hriflu áratugum fyrr en Jón Steinar hefur einmitt gagnrýnt söguna opinberlega með grein í Morgunblaðinu 10. febrúar sl. Eins skrifaði Björn Bjarnason fv. ráðherra ritdóm sem birtist í Morgunblaðinu 9. mars þar sem hann gagnrýnir þig fyrir að vitna í nafnlausa heimildarmenn og útprentun á einkatölvubréfum þegar þú ræðir um vinnuskjal sem fór aldrei formlega út úr dómsmálaráðuneytinu. Hvað finnst þér um þessa gagnrýni? „Efnislega er fátt eða ekkert nýtt í gagnrýni Jóns Steinars í Morgunblaðinu 10. febrúar síðastliðinn, nema það að Hæstiréttur hafi fengið „sakleysingja úr röðum sagn- fræðinga til að tala fyrir sína hönd,“ eins og hann orðar það, og að hæstaréttardómararnir hafi stjórnað skrifum mínum. En þar missir hann marks og ekkert meira um það að segja. Annars fjalla ég nokkuð ítarlega um gagnrýni Jóns Steinars á Hæstarétt í bókinni og styðst þar við bækur og blaðagreinar eftir hann. Hitt er annað mál að fljótlega eftir að bókin kom út sagði Morgunblaðið frá útkomu hennar í stuttri og svolítið brenglaðri frétt, skömmu síðar var ítarlegri umfjöllun blaðsins um bókina stöðvuð, væntanlega af ritstjórum þess, með þeim orðum að ekki yrði meira fjallað um hana í blaðinu að svo stöddu. En svo birtist ritdómur Björns sem er eins og við mátti búast af hans hendi. Telja ritstjórar blaðsins og Björn, sem eitt sinn gegndi embætti dómsmálaráðherra, að hann sé rétti maðurinn til að skrifa ritdóm um bókina? Birni er mikið í mun að gera lítið úr vafasömum afskiptum stjórnmálamanna af dómsvaldinu. Þegar helstu ráðamenn þjóðarinnar reyna að ráðskast með dómsvaldið að eigin vild og jafn laumulega og raun ber vitni er ekkert athugavert við það að sagnfræðingur vísi til þeirra heimilda sem Björn nefnir, ekki ósvipað því sem rannsóknarblaðamenn gera. Björn hefði mátt upplýsa lesendur Morgunblaðsins um það að þarna er hann að verja sjálfan sig.“ Ritnefnd og ráðgjafarhópur Ef við snúum okkur að ritun bókarinnar þá var sérstök ritnefnd skipuð af Hæstarétti en að auki fékkst þú þrjá sagnfræðinga til ráðgjafar, til að tryggja sjálfstæði þitt sem höfundar og að ritið stæðist sem best faglegar kröfur. Af hverju taldir þú það nauðsynlegt? „Ég fékk þau skilaboð um leið og mér var boðið þetta verkefni að hvorki ritnefndin né Hæstiréttur ætluðu að ritstýra mér heldur fengi ég frjálsar hendur við að móta verkið og skrifa það. Þetta kunni ég að meta enda er fræðilegt frelsi hverjum sagnfræðingi mikilvægt. Ég átti í góðum samskiptum við ritnefndina en þar kom að mér þótti nauðsynlegt að fá meiri faglegan sagnfræðilegan stuðning enda einskorðaðist þessi saga, eins og ég vildi skrifa hana, ekki við starfsemi Hæstaréttar. Úr varð að Gunnar Þór Bjarnason, Helgi Skúli Kjartansson og Ragnheiður Kristjánsdóttir voru fengin til að skipa ráðgjafahóp sem reyndist mér góður liðstyrkur. Þegar þarna var komið hafði ég mótað verkið í stórum dráttum og var kominn nokkuð vel af stað með skrifin. Ráðgjafarnir lásu drög að öllum köflum verksins, lásu þá aftur í lokagerð og komu með fjölmargar góðar ábendingar sem ég lagði mig fram um að taka tillit til. Að eiga þetta samtal var afar mikilvægt fyrir mig í svo mörgu tilliti, t.d. við að setja tiltekin atriði í stærra sögulegt samhengi. Eftir sem áður gat ég alltaf leitað til ritnefndarinnar ef mig vantaði tilteknar upplýsingar eða aðstoð við að átta mig á lagatæknilegum atriðum. Allir sem ég leitaði til og þau sem komu að vinnslu verksins á lokastigum eiga að öllu samanlögðu stóran þátt í þessu verki.“ Sláandi frumvarp um aldamótin Að lokum, kom eitthvað á óvart við ritun sögunnar? „Já, ég get nefnt sem dæmi mál Lárusar Jóhannessonar hæstaréttar dómara, víxilmálið eins og ég kalla það. Það reyndist vera miklu umgangsmeira en ég hafði gert mér grein fyrir. Mér finnst þetta mál á margan hátt upplýsandi um íslenskt samfélag, t.d. félagslega lagskiptingu, hagsmuna- tengsl, pólitíska samtryggingu og bankaviðskipti á gráu svæði. Einnig kom mér á óvart hve baráttan um Hæstarétt, með orðum Jónasar frá Hriflu, var hörð og stóð lengi yfir. Ég átti heldur ekki von á að það væri svona mikill matur í tímabilinu frá því um aldamótin 2000 fram að aldarafmælinu árið 2020. Ég gæti nefnt fleira, t.d. hve hlutverk Hæstaréttar var mikið varðandi tilnefningar í nefndir og ráð og að dómsmálaráðuneytið hafi leitað umsagnar Hæstaréttar um náðanir allt til ársins 1949, það er nokkuð sem vert væri að skoða nánar. Að dómsmálaráðuneytið hafi eftir aldamótin 2000 undirbúið frumvarp til laga sem ætlað var að gera Hæstarétt háðari framkvæmdarvaldinu kom mér líka í opna skjöldu, mér fannst það sláandi. Yfirhöfuð kom mér skemmtilega á óvart hve margar hliðar voru á verkefninu og hve gaman var að fást við það.“

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.