Lögmannablaðið - 2022, Blaðsíða 18
18 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22
„BANNAÐ
AÐ DÆMA!?”
Ég er uppgjafarlögfræðingur. Með því á ég við að ég er
hætt að horfa á hluti út frá lögfræði. Að minnsta kosti út
frá lögfræðinni einni.
Ég sit í stjórnum fyrirtækja að atvinnu. Þar ber ég, ásamt
fleirum, ábyrgð á því að fyrirtækjunum farnist vel. Til þess
að svo verði er nauðsynlegt að vera meðvitaður um haghafa
fyrirtækisins og þeirra kröfur og þarfir; viðskiptavini,
starfsfólk, hluthafa, birgja, stjórnvöld o.s.frv.
Þetta hefur verið mér ofarlega í huga í metoo-umræðunni
undanfarið, í tengslum við meinta háttsemi hátt settra
stjórnenda og viðbrögð vinnuveitenda þeirra við þeim. Það
sem forritunin úr lagadeildinni kastar nefnilega sjálfkrafa
og umhugsunarlaust fram er „maður er saklaus uns sekt
er sönnuð“. Afleiðing af þeirri hugsun gæti t.d. verið að
bregðast ekki við fyrr en atvik hefur verið kært til lögreglu
og komið í formlegt ferli eða jafnvel ekki fyrr en dómur
hefur fallið.
En hvað ef þolandinn kærir ekki? Það eru ágætis líkur á því,
miðað við það að ársskýrslur Stígamóta sýna að einungis
um 10% þeirra kvenna sem þangað leita kæra mál sín til
lögreglu. Enda er ekki ákært nema í minnihluta mála,
og þá er engin trygging fyrir sakfellingu. Nú, þá sit ég
uppi með manneskju í fyrirtækinu mínu sem hefur að
líkindum sýnt af sér gríðarlegan karakter- eða að minnsta
kosti dómgreindarbrest. Er það ekki sama dómgreindin og
viðkomandi notar við aðra ákvörðunartöku, meðal annars
innan fyrirtækisins míns? Vil ég treysta á þessa dómgreind?
Er þetta líka manneskja sem ég treysti fyrir því að byggja
upp heilbrigða menningu innan fyrirtækisins? Menningu
sem byggir á virðingu, trausti og jafnrétti?
Og hver munu viðbrögð haghafanna verða við andvaraleysi
mínu? Munu viðskiptavinir vilja eiga viðskipti við mig
áfram eða mun ég verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna
tapaðrar sölu? Hver eru skilaboðin til starfsmannanna
og inn í menningu fyrirtækisins ef ekkert er að gert? Að
svona háttsemi sé í lagi? Mun ég geta ráðið í framtíðinni
framúrskarandi starfsfólk? Mun það hafa áhuga á að vinna
í fyrirtæki sem tekur ekki á svona málum? Hvað ef hluthafi
tekur harða afstöðu gegn þessu viðmóti mínu og selur
hlutabréfin sín og verðið á þeim lækkar? Allir hluthafar
verða fyrir beinu fjárhagslegu tjóni.
Er ég að sinna starfi mínu sem stjórnarmaður, ef ég bregst
ekki við um leið og ég heyri orðróm um að brotið hafi verið
gegn manneskju?
Þá kemur bakþankinn: „En það er ekki öruggt að
viðkomandi hafi gert neitt rangt.“ Spurningin er fyrir mér
hversu þung sönnunarbyrðin á að vera.
Þegar reglunni um sakleysi uns sekt er sönnuð er beitt,
þá er það í refsimálum þar sem dómarar taka ákvarðanir
út frá hagsmunum ríkisins. Byggja ákvarðanir sem teknar
eru innan fyrirtækja á sömu hagsmunum? Er augljóst að
þarna eigi að beita sömu nálgun um að óyggjandi sönnun
skuli fást fyrir sektinni?
INGUNN AGNES KRO