Lögmannablaðið - 2022, Page 4

Lögmannablaðið - 2022, Page 4
4 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22 STÖÐNUN KYNJAHLUTFALLS FÉLAGSMANNA LMFÍ Í árskýrslum LMFÍ má finna ýmsar fróðlegar upplýsingar. Á hverju ári er þar gerð grein fyrir „þróun kynjahlutfalls félagsmanna LMFÍ“ en við nánari skoðun sést að þróunin er nánast engin. Árið 2013 voru konur 30,2% félagsmanna, en átta árum síðar voru þær 31,2% félagsmanna. Nærtækara væri því að kalla stöplaritið „stöðnun kynjahlutfalls félagsmanna LMFÍ“. Hlutfallið er enn verra ef litið er til sjálfstætt starfandi lögmanna og fulltrúa þeirra. Samkvæmt síðustu árskýrslu LMFÍ voru konur 27,2% þeirra lögmanna sem eiga eða starfa á lögmannstofum. En hvað veldur? Einhverjir kynnu að halda að kynjaskiptingin héldist í hendur við kynjahlutföll útskriftarárganga lagadeilda landsins. Svo er ekki. Samkvæmt upplýsingum frá öllum lagadeildum landsins voru konur 57,5% brautskráðra á árunum 2012-2021. Á hverju þessara ára hafa lagadeildirnar brautskráð fleiri konur en karla. Samt breytist kynjahlutfall LMFÍ nánast ekki neitt. Ef kynjahlutfall LMFÍ yrði yfirfært á útskriftarárgangana væri eins og 380 konur hefðu ekki útskrifast á þessu tímabili. En það gerðu þær sannanlega. Þær bara skila sér ekki inni í félagið eða staldra stutt við. Það er sameiginlegt verkefni okkar að breyta þessu. En hvernig? Í fyrsta lagi mætti kynna betur lögmennsku sem starfsvettvang fyrir fjölbreyttari hóp. Það væri til að mynda einfalt mál fyrir LMFÍ að óska þess að halda slíkar kynningar í lagadeildum háskólanna. En það væri ekki nóg. Í öðru lagi þarf að gæta þess að konur fái sömu tækifæri og karlar. Hvort heldur er við nýráðningar, þróun í starfi og framgang. Í þessu samhengi má nefna að Lögmannablaðið kannaði hlutfall kvenna í hópi eigenda á tíu stærstu lögmannstofum landsins árið 2014, en þar kom fram að einungis 14,5% eigenda voru konur. Það er tímabært að kanna þetta aftur og þá líka hvert eignarhlutfall þessara kvenna er, enda virðist algengara að konur hafi ekki jafnan eignarhlut á við karlana. Í þriðja lagi þarf að huga betur að starfsumhverfi lögmanna. Það er að mörgu leyti gamaldags bæði hvað varðar vinnutíma og vinnulag. Í síðasta pistli mínum nefndi ég könnun á meðal ungra danskra lögmanna en þar kom skýrlega fram að svigrúm til fjölskyldulífs og gott vinnuumhverfi skiptu mestu við val ungra karla sem kvenna á vinnustað. Við þessu þurfa vinnuveitendur að bregðast ætli þeir sér að sækja sér besta starfsfólkið. Svo vinna lögmenn líka utan skrifstofu sinnar þar sem gæta þarf að sömu sjónarmiðum, eins og t.d. hjá dómstólunum. Í fjórða lagi þarf að huga að brottfalli úr stéttinni og ástæðum þess. Til að mynda gæti LMFÍ kannað ástæður innlagnar réttinda og hvort meira brottfall sé að ræða af hálfu kvenna og karla. Til viðbótar við ofangreint mætti svo nefna skýrslu starfshóps LMFÍ um starfsumhverfi lögmanna frá árinu 2017. Þar má finna ágætis samantekt á málefninu og nokkrar tillögur að úrbótum. Ég hvet áhugasama að kynna sér efni hennar. SIGURÐUR ÖRN HILMARSSON LÖGMAÐUR FORMAÐUR Lagadeild Háskólans í Reykjavík býður upp á endurmenntun fyrir lögfræðinga með námskeiðum á meistarastigi. Útskrifuðum lögfræðingum frá HR stendur til boða að sækja námskeiðin með 50% afslætti. Endurmenntun fyrir lögfræðinga Dæmi um námskeið í boði: – Fjölmiðlaréttur – Höfundaréttur í upplýsingasamfélagi – International Law and Litigation on Climate Change – Auðgunar- og efnahagsbrot – EU Constitutional Law @haskolinnireykjavik @haskolinnireykjavik Sjá úrval námskeiða og nánari upplýsingar á: hr.is/lagadeild

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.