Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 8
8 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21
Formaður kveður
Berglind Svavarsdóttir formaður sagði stjórnina ekki hafa
setið auðum höndum á starfsárinu þar sem haldinn hafi verið
21 fundur með alls 422 dagskrárliðum: „Meðal fjölmargra
verkefna var settur á stofn vinnuhópur um endurskoðun
reglna og verklags við ákvörðun þóknunar fyrir verjenda-
og réttargæslustörf lögmanna. Hópurinn skilaði skýrslu
þar sem fram komu ýmsir vankantar varðandi framkvæmd
þessara mála og kom með tillögur til úrbóta. Einnig leitaði
félagið til dr. Hersis Sigurgeirssonar doktors í stærðfræði
um forsendur og viðmiðunargrundvöll um útreikning
dómstólasýslunnar á þóknun til handa lögmönnum vegna
réttargæslu- og verjendastarfa. Var hans niðurstaða að miða
ætti við svokallaða vísitölu málsvarnarlauna sem samsett
er 75% úr vísitölu launa og 25% úr vísitölu neysluverðs.
Félagið hefur komið þeirri beiðni á framfæri að framvegis
verði tekið mið af þessari vísitölu við útreikning á ákvörðun
þóknunar fyrir verjenda- og réttargæslustörf,“ sagði hún.
Berglind sagði enn fremur að mikil samskipti væru við
stofnanir, fyrirtæki og félög vegna ýmissa mála sem
varða lögmenn og starfsumhverfi þeirra. Sem dæmi hafi
forsvarsmenn félagsins haldið fund með Skattinum vegna
álagningar sektar á lögmannsstofu fyrir meint brot á
lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun
hryðjuverka nr. 140/2018. Í framhaldi af fundinum
framkvæmdi Skatturinn nýja úttekt á vinnubrögðum
lögmannsstofunnar og féll frá álagningu sektar.
Berglind, sem var að ljúka sínu þriðja og síðasta starfsári
sem formaður, þakkaði að lokum fyrir traust félagsmanna.
Þessi ár hefðu um margt verið sérstök og viðburðarík þar
sem breytingar á dómstólaskipan landsins hefðu komið við
sögu og einn heimsfaraldur: „Eins og sést í ársskýrslunni
þá fer gríðarlegt starf fram hjá félaginu, bæði innan þess
og í samstarfi við aðra aðila. Það sem stendur þó upp úr er
hversu margir félagsmenn eru ávallt tilbúnir til að leggja
hönd á plóg og vinna í þágu félagsins með einum eða öðrum
hætti. Það er ekki sjálfgefið og fyrir það ber að þakka. Að
síðustu þakka ég stjórnarmönnum fyrir afar farsælt samstarf
á starfsárinu og sömuleiðis framkvæmdastjóra félagsins og
öðru starfsfólki,“ sagði hún.
Afkoma félagsins
Ingimar Ingason framkvæmdastjóri gerði grein fyrir
reikningum félagsins og félagsdeildar. Heildartap af rekstri
lögbundna hlutans nam tæplega 2,8 milljónum króna þrátt
fyrir auknar tekjur vegna hækkunar árgjalds, sem samþykkt
var á aðalfundi árið 2019. Ástæðan er meðal annars að
kostnaður jókst talsvert vegna breytinga á fyrirkomulagi
við endurskoðun reikninga félagsins. Þá nam kostnaður
vegna málareksturs tæpum 4,3 milljónum á árinu 2020.
Annars vegar var það vegna rekstrar máls fyrir Hæstarétti,
sem kom til vegna ágreinings um heimild stjórnar félagsins
til að skjóta málum til úrskurðarnefndar lögmanna, og hins
vegar vegna málskostnaðar sem félaginu var gert að greiða
gagnaðila í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar. Kostnaður af
rekstri úrskurðarnefndar lögmanna hækkaði einnig talsvert
milli ára sem og launakostnaður. Tap af rekstri félagsdeildar
var rúmar 1,4 milljónir króna en þar lækkuðu árgjöld
lítillega milli ára á móti auknum tekjum vegna námskeiða.
Á fundinum var borin upp tillaga um hækkun árgjalds fyrir
árið 2022 úr kr. 72.000,- í kr. 79.000,- og var hún samþykkt.
FRÉTTIR
AF AÐALFUNDI LMFÍ
Aðalfundur Lögmannafélags Íslands var haldinn föstudaginn 28. maí síðastliðinn
og var sjálfkjörið í öll embætti að þessu sinni.