Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 20
20 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21
en 100% eða 100 stig. Hlutfallsreglu bæri einkum að beita
við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi þegar tjónþoli hefði
áður verið metinn eftir slys. Hann væri því ekki 100% þegar
hann lenti í nýju slysi og nýja áverkann bæri því að meta sem
hlutfall af lægri prósentu en 100%. Hér væri ekki endilega
átt við ný meiðsli á sama líkamshluta og áður hefði verið
metinn, heldur gætu þetta verið óskyldir líkamshlutar. Í
öðru lagi þegar tjónþoli yrði fyrir fleiri en einum áverka í
sama slysi. Í slíkum tilfellum yrði að meta hann með þeim
hætti að mat eins áverka leiddi til lækkunar mats á öðrum
áverkum.
Læknirinn hélt fyrirlestra og skrifaði fræðigrein þar sem
því var haldið var fram að hér væri um meginreglu í
matsfræðum að ræða og að það væri beinlínis rangt að beita
henni ekki við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku
(miska). Þó ekki væri á hlutfallsregluna minnst í þágildandi
miskatöflum örorkunefndar frá árinu 2006 hefði hún alltaf
verið innifalin í þeim. Í kjölfarið fór að bera töluvert á því að
í matsgerðum væri að finna tvær matsniðurstöður, þ.e. eina
með vísan til miskataflna örorkunefndar og aðra (nánast
undantekningarlaust lægri) með vísan til hlutfallsreglu.
Það þarf vart að taka það fram en tryggingafélögin hafa
almennt talið rétt að gera upp á grundvelli hlutfallsreglu
í slíkum tilfellum. Í júní árið 2019 breytti örorkunefnd
miskatöflunum og bætti inn í þær kafla um hlutfallsreglu,
en töflurnar höfðu verið óbreyttar frá árinu 2006. Virðist
umfjöllunin um hlutfallsregluna alfarið fengin að láni
úr bandarískum miskatöflum (Guides to the Evaluation
of Permanent Impairment), enda er vísað sérstaklega til
þeirra. Það má telja gagnrýnivert í ljósi þess að í dómi
Hæstaréttar frá 14. mars 2013, í máli nr. 608/2012, var
kveðið á um að óheimilt væri að styðjast við bandarískar
miskatöflur við mat á varanlegum miska.
Nánar um dóm Hæstaréttar í máli nr. 5/2021
Með dómi sínum í máli nr. 5/2021 staðfesti Hæstiréttur
niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 825/2019, en þar hafði
sýknu héraðsdóms í málinu verið snúið við og fallist á að A
ætti rétt á bótum vegna 45% varanlegrar læknisfræðilegrar
örorku. Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar er í fyrsta lagi
fjallað um það að heimild til beitingar hlutfallsreglu
hefði ekki verið að finna í gildandi kjarasamningi, lögum
nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga eða þágildandi
miskatöflum örorkunefndar. Vörður hefði samið skilmála
tryggingarinnar einhliða og yrði því að bera hallann af því
að ekkert í þeim væri til stuðnings málatilbúnaði félagsins
um beitingu hlutfallsreglu.
Í öðru lagi er í niðurstöðu dómsins fjallað um það hvort
hlutfallsreglan sé meginregla í matsfræðum við mat á miska
vegna fjöláverka. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu
að 2. og 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 styðji
ekki beitingu hlutfallsreglu við mat á fjöláverkum þegar
samanlagður miski nær ekki 100 stigum. Hæstiréttur
víkur svo að því að í framkvæmd hafi verið litið til danskra
miskataflna þegar þeim íslensku sleppi. Sú framkvæmd fái
bæði stoð í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi
til skaðabótalaga sem og dómaframkvæmd Hæstaréttar.
Dönsku miskatöflurnar renni ekki stoðum undir hina
ætluðu meginreglu um beitingu hlutfallsreglu.
Hvaða ályktanir verða dregnar af dóminum og hver eru
hugsanleg áhrif hans?
Greinarhöfundar draga í fyrsta lagi þá augljósu ályktun
af dóminum að tryggingafélög geti ekki borið fyrir sig
hlutfallsreglu þegar ekki er fyrir hendi skýr heimild fyrir
beitingu hennar í skilmálum viðkomandi tryggingar. Það
að fram komi í skilmálum að beita megi hlutfallsreglu er
að mati greinarhöfunda ekki nóg eitt og sér. Skilgreina
verði með nákvæmum hætti hvað hlutfallsregla er, hvenær
henni verði beitt og hvenær ekki.
Í öðru lagi draga greinarhöfundar þá ályktun að ekki sé
heimilt að beita hlutfallsreglu við mat á fjöláverkum þegar
mat fer fram á grundvelli miskatöflu örorkunefndar frá
árinu 2006. Eigi þetta hvort heldur við um mat og uppgjör
samkvæmt skaðabótalögum eða úr slysatryggingu.
Líkt og áður hefur komið fram var hlutfallsreglan færð
inn í miskatöflur örorkunefndar í júní 2019. Í dóminum
er tekið sérstaklega fram að ekki sé tilefni til að fjalla um
lagastoð þeirra miskataflna. Í niðurstöðu dómsins kemur
þó einnig skýrt fram að hlutfallsreglan sé ekki meginregla
í íslenskum matsfræðum. Einnig segir þar að 2. og 3. mgr.
4. gr. skaðabótalaga geti ekki talist vísbending um að beita
beri hlutfallsreglu við mat á fjöláverkum, en umrædd
ákvæði hafa að geyma fyrirmæli um það hvernig mat
á varanlegri læknisfræðilegri örorku (miska) fer fram.
Þá kemur fram í dóminum að þegar hinum íslensku
miskatöflum sleppi beri að líta til danskra miskataflna.
Þær miskatöflur bendi ekki til þess að hlutfallsreglan
sé meginregla í matsfræðum. Með vísan til þessa má að
mati greinarhöfunda færa fyrir því rök að hlutfallsreglu
verði heldur ekki beitt þegar mat á fjöláverkum fer fram
á grundvelli hinna nýju miskataflna. Þó umfjöllun um
hlutfallsreglu hafi verið bætt inn í þær verði að telja
vafasamt að hægt sé með því að gjörbreyta áralangri