Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 11

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 11
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21 11 LÖGMENN ERU ÞJÓNAR RÉTTARRÍKISINS VIÐTAL VIÐ SIGURÐ ÖRN HILMARSSON NÝKJÖRINN FORMANN LÖGMANNAFÉLAGSINS Hvernig kom það til að þú ákvaðst að bjóða þig fram til formennsku? Ég hef fylgst með starfi félagsins frá því ég varð lögmaður árið 2009. Ég sat m.a. í starfshópi um hælisleitendamál en kom inn sem varamaður í stjórn árið 2018 og sat alla stjórnarfundi þar sem einn stjórnarmanna hvarf til annarra starfa. Síðan fór ég í aðalstjórn árið 2019 og var varaformaður síðasta starfsár. Þá fór ég aðeins að máta mig við þetta hlutverk. Af hverju fórstu í lögfræði? Það var nú eiginlega fyrir slysni. Ég var í náttúrufræðideild MR og hafði hugsað mér að fara í læknisfræði eða eitthvað slíkt. Í stúdentsprófunum fékk ég hins vegar leið á náttúruvísindum og velti um tíma fyrir mér að fara annað hvort í bókmenntafræði eða heimspeki. Ég endaði síðan á því að skrá mig í lögfræði, aðallega til að fresta ákvörðun um hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Í meistaranáminu fór ég að vinna lögfræðistörf samhliða námi og fékk þá aukinn áhuga á faginu. Lögmannsstofan Réttur hefur verið í fararbroddi við að sinna mannréttindum og pro bono málum, hvers vegna hefur sú stefna verið tekin? Frá því að Ragnar Aðalsteinsson hóf störf sem sjálfstætt starfandi lögmaður árið 1969 þá hefur hann helgað hluta af tíma sínum framgangi réttarins með manngildishugsjón að leiðarljósi. Við sem störfum hér deilum þessari skoðun en lengi vel var svolítið tilviljun háð hvaða mál voru tekin. Fyrir um það bil 7-8 árum þá ákváðum við að formgera stefnu stofunnar í þessum málum og fórum að taka þátt í verkefni Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð. Við ákváðum þá hvaða málaflokka við tækjum að okkur, veltum fyrir okkur hvaða gildi ættu að vera í störfum okkar og hvað fælist í því að vera lögmaður. Og hvað felst í því að vera lögmaður? Lögmenn eru þjónar réttarríkisins, þeirra hlutverk er að gæta að grundvallarréttindum fólks. Það skiptir raunverulegu máli að það sé gott fólk sem veljist til þessara starfa. Sigurður Örn Hilmarsson, einn eigenda Lögmannsstofunnar Réttar, var kjörinn formaður á aðalfundi Lögmannafélags Íslands 28. maí síðastliðinn. Lögmannablaðið hitti Sigurð Örn og ræddi við hann um lögmennskuna, lífið og starfið fram undan.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.