Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 26

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 26
26 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21 skylt að viðhalda fræðilegri þekkingu og faglegri hæfni og tryggja að löglærðir fulltrúar hans fái viðeigandi þjálfun og leiðsögn í starfi. Áslaug Björgvinsdóttir fagnaði þessu ákvæði og sagði mikilvægt að árétta skyldu lögmanna til endurmenntunar. Þá óskaði hún eftir því að félagið héldi námskeið um efnið: „Við þurfum að ræða meira siðferði, heilindi, hollustu og hagsmunatengsl,“ sagði hún. Óttar var sammála því að kynna þyrfti siðareglur fyrir félagsmönnum til að viðhalda þekkingu á þeim. Nú væru þær hluti af prófi til héraðsdómsréttinda en mikilvægt væri að kynna þær reglulega. Viðskiptavinir Lagt er til að bætt verði við 42. gr. siðareglna ákvæði um að lögmanni sé óheimilt að afla sér viðskipta með því að nýta sér viðkvæmar aðstæður einstaklings, og beita einstakling þrýstingi eða hótunum. Siðareglur girða ekki fyrir að lögmenn auglýsi þjónustu sína skv. 42. gr. en nokkuð hefur borið á því að lögmenn gefi sig út fyrir að vera sérfræðingar á sviðum þar sem vafasamt er að sérfræðiþekkingar gæti í raun. Því þykir siðareglunefnd rétt að árétta bann við því. Þá er lagt til að lögmönnum verði óheimilt að afla sér viðskipta með því að nýta sér viðkvæmar aðstæður einstaklinga, svokallað „ambulance chasing“, enda samrýmist slík háttsemi illa þeim siðferðiskröfum sem gerðar eru til lögmanna. Þá er einnig gerð tillaga um að bannað verði að beita einstaklinga þrýstingi eða hótunum í því skyni að fá þá til að óska eftir að nýr verjandi verði skipaður eða tilnefndur. Þorgils Þorgilsson velti fyrir sér hvernig hægt yrði að greina á milli hvenær lögmaður væri að notfæra sér viðkvæmar aðstæður einstaklinga: „Hvar verður línan? Má lögmaður ekki bjóða fram aðstoð sína?“ spurði hann og taldi ómögulegt fyrir úrskurðarnefnd að greina þarna á milli. Þá velti hann fyrir sér hvort siðareglunefnd væri að gefa gróusögum hátt undir höfði með því að ýja að því að lögmenn væru að beita þvingunum og hótunum um ofbeldi svo að menn skiptu um verjanda. Óttar svaraði því til að erfitt gæti orðið að leggja mat á hvenær aðstaða væri misnotuð við verkefnaöflun en ákvæðið væri sett inn til brýningar við lögmenn um að við ákveðnar aðstæður beri þeim að fara varlega. Hann vonaði jafnframt að slík mál kæmu aldrei fyrir úrskurðarnefnd. Það sama ætti við um hótanir og þvinganir: „Þetta ákvæði felur ekki í sér að skjólstæðingur segi upp verjenda sem hann hefur og óski eftir öðrum tilnefndum. Ákvæðið tekur eingöngu á óeðlilegum afskiptum lögmanns,“ sagði hann. Önnur ákvæði Aðrar breytingartillögur voru til dæmis í 8. gr. þar sem fram kemur að lögmaður skuli gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna af einurð en talsvert var rætt um það orð á fundinum og hvort ekki væri heppilegra að nota orðið heilindi. Þá er lagt er til að bæta 43. gr. siðareglna þannig að skýrt sé kveðið á um heimild úrskurðarnefndar lögmanna til að finna að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns, veita honum áminningu eða beita strangari viðurlögum. Slík heimild á sér stoð í 27. gr. lögmannalaga en er ekki orðuð í gildandi siðareglum og einnig er lagt til að skýrt verði kveðið á um að siðareglur bindi alla lögmenn hvort sem þeir starfi á grundvelli undanþágu eða ekki. Fleiri breytingartillögur eru gerðar á siðareglum lögmanna sem ekki verður nánar farið út í hér en áhugasamir lögmenn geta lesið þær í tölvupósti sem þeir fengu fyrir fundinn. Stefnt er að því að taka upp þráðinn á haustmánuðum og ræða nánar breytingartillögur siðareglunefndar félagsins. EI Marteinn Másson gerði athugasemdir við tillögur siðareglunefndar.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.