Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 14
14 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21
ALLS KONAR
AUKASTÖRF LÖGMANNA
HVAÐ ÆTLI ALMENNINGUR SJÁI FYRIR SÉR ÞEGAR STARFSHEITIÐ „LÖGMAÐUR“ ER NEFNT? ER ÞAÐ
KANNSKI KARL Á MIÐJUM ALDRI Í BOSS JAKKAFÖTUM SEM SPILAR GOLF Í FRÍSTUNDUM OG RÆÐIR
UM LÖGFRÆÐILEG ÁLITAEFNI Í TÍMA OG ÓTÍMA? EÐA ER ÞAÐ KANNSKI VEL TIL HÖFÐ KONA Á
ÓRÆÐUM ALDRI Í GUCCI DRAGT SEM VELTIR UPP LÖGFRÆÐILEGUM ÁLITAEFNUM YFIR
RAUÐVÍNSGLASI? EF SVO ER ÞÁ ER TÍMABÆRT AÐ JARÐA SLÍKAR STAÐALÍMYNDIR ÞVÍ AÐ
LÖGMENN LANDSINS ERU ALLS KONAR. LÖGMANNABLAÐIÐ RÆDDI VIÐ NOKKRA ÞEIRRA.
ÉG ER …
PARTÝBLÖÐRUVEFVERSLUNARKONA
Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur er einn
af þremur eigendum vefverslunarinnar www.pippa.is þar sem hægt er
að kaupa allar skreytingar fyrir partýið, veisluna, brúðkaupið, afmælið
eða bara fyrir öll hugsanleg tilefni. „Þetta byrjaði sem samstarf þriggja
vinkvenna, allar mæður sem eru búnar að vera vandræðast með að
finna eitthvað flott fyrir barnaafmælin, brúðkaupin og veislurnar í
gegnum tíðina. Við pöntum allt frá birgjum í Bretlandi en ein okkar
er hreinlega með háskólagráðu í smartheitum, er grafískur hönnuður,
og fljótlega varð eftirspurn eftir því að við kæmum á staðinn og
settum upp skreytingar. Þá byrjuðum við að prófa okkur áfram með
blöðruskúlptúra. Þær eru nú orðnar lang vinsælasta varan hjá okkur.“
Af hverju heitir vefverslunin Pippa?
„Það er tengingin við Royalistann í mér en vefverslunin var stofnuð sumarið 2016 um svipað leyti og Pippa Middleton,
systir verðandi drottningar breska heimsveldisins, gifti sig. Þess má geta að Middleton fjölskyldan efnaðist á því að reka
partýbúðina Party Pieces.“
Kemur sér vel að vera lögmaður í verslunarrekstri sem þessum?
„Ég hef getað séð um skjalagerð og hluthafasamkomulag… en í alvöru þá er það góð hvíld að binda saman blöðrur,
ákveða litasamsetningar og velja fallega hluti til að setja í netverslunina. En fyrst og fremst mjög skemmtilegt auka
djobb með tveimur góðum vinkonum.“
Heldur þú að lögmannsstarfið eigi eftir að láta undan síga fyrir verslunarkonunni?
„Það er aldrei að vita, framtíðarsýnin er að stofna verslun samhliða vefversluninni og láta þetta stækka allt saman. Sem
stendur byggir allt á vinnuframlagi okkar sjálfra. En kannski fer maður bara alla leið í blöðrurnar!“
Eigendur vefverslunarinnar Pippu á góðri stund. F.v.
Vigdís Ósk Häsler lögfræðingur, Erna Hreinsdóttir grafískur
hönnuður og Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður.