Lögmannablaðið - 2021, Page 15

Lögmannablaðið - 2021, Page 15
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21 15 ÉG ER … DÁLEIÐARI, ORKUHEILARI OG RITHÖFUNDUR Sara Pálsdóttir lögmaður hjá lögmannsstofunni Lausnum er dáleiðari og orkuheilari og hjálpar fólki til að fá frelsi frá kvíða, eyða streitu, þreytu og verkjum svo fátt eitt sé nefnt. Hvað kemur til að þú fórst í dáleiðslu og orkuheilun? „Fyrir nokkrum árum glímdi ég við mikinn kvíða, brotna sjálfsmynd og krónískt verkjavandamál. Þetta olli mikilli þreytu og vanlíðan og ég átti orðið erfitt með að endast heilan vinnudag. Ég var búin að fara til alls kyns lækna og sérfræðinga en það var ekki fyrr en leitaði inn á við, fór í hugleiðslu og dáleiðslumeðferð, sem að ég fékk fullan bata. Í því ferli uppgötvaði ég hvað það var sem raunverulega olli kvíðanum og verkjunum. Í dag hef ég öðlast algert frelsi frá öllum óheilbrigðum kvíða, glími ekki við neina verki. Í kjölfarið fór að brenna eldur innra með mér að hjálpa öðrum til að öðlast hið sama og ég fór í dáleiðslunám og lærði einnig orkuheilun. Það var eins og ég væri leidd áfram. Ég man eftir því þegar ég sat í fyrsta tímanum í dáleiðslunáminu og horfði á töfluna en þar stóð „dáleiðsla 101“. Ég spurði sjálfa mig hvað ég væri eiginlega að pæla og hvort það ætti ekki frekar að standa „skaðabótaréttur“ eða eitthvað álíka! Nú býð ég upp á einstaklings- og hópmeðferðir og tvinna saman dáleiðslu og orkuheilun. Ég er með námskeið sem heita „Frelsi frá kvíða“ og er einnig með hóp á Facebook en þar býð ég upp á ókeypis fræðslu, dáleiðslur o.fl. Ég skrifaði barnabókina „Litla snareðlan sem gat“ til að hjálpa ungum börnum, sem glíma við kvíða, að velja hugrekkið og hafa trú á sjálfum sér. Kvíði er alvarlegt og algengt vandamál og það er mikilvægt að fólk viti að það er til lausn.“ Er eitthvað sameiginlegt með því að vera lögmaður og dáleiðari? „Já. Bæði störfin snúast í grunninn um að hjálpa fólki. Um að hjálpa fólki að komast út úr ástandi eða aðstæðum sem veldur fólki vanlíðan og yfir í frelsi og betri líðan. Það er líka það besta við bæði störfin!“ Ef þú þyrftir að velja á milli lögmennskunnar og dáleiðslunnar, hvort yrði fyrir valinu? „Ég færi í dáleiðsluna út af því að ég sinni því af köllun. Þá á ég ekki endilega við um einstaklings dáleiðslurnar heldur námskeiðin mín. Námskeiðin gefa svo mikið en þótt ég elski lögmannsstarfið og það gangi vel þá munu námskeiðin verða mitt aðalstarf í framtíðinni.“ Sara Pálsdóttir er með köllun og segir að orka hafi mikið að segja um hvernig andleg og líkamleg heilsa okkar er. ÉG ER … BÓNDI Óðinn Elísson lögmaður titlar sig sem refaskyttu í símaskránni en samhliða lögmannsstörfum sínum hjá Fulltingi er hann bóndi á Klörustöðum í Kjós. „Ég er með 76 kindur, slatta af hestum og landnámshænur sem eru skemmtilegar skepnur.“ Hvernig á það saman að vera lögmaður og bóndi? „Þetta passar fullkomlega saman, þetta er mitt jóga og veitir ró sem er nauðsynleg í lögmannsstarfinu.“ Ef þú þyrftir að velja á milli, hvort myndir þú velja lögmannsstörf eða bústörf? „Ég hef ekki þurft að velja á milli, það er kosturinn. Það veitir mér frelsi.“ Óðinn Elísson markar lamb með fjármarki sínu sem er sneitt framan hægra og tveir bitar framan vinstra.

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.