Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 13

Lögmannablaðið - 2021, Blaðsíða 13
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/21 13 Þetta er að sumu leyti erfitt starf og því fylgir á tímum óumflýjanlega álag. Ég tel þó að margt sé hægt að gera til að bæta starfsumhverfi okkar. Það þarf til dæmis að skoða áfrýjunar- og kærufresti og hvaða áhrif þeir hafa. Til dæmis var sennilega ætlunin með stuttum áfrýjunarfresti fyrir Landsrétti að tryggja styttri málsmeðferðartíma, en það breytir litlu þegar það getur tekið ár eða lengur að fá mál á dagskrá. Þessa fyrstu mánuði langar mig líka að útskýra hlutverk lögmanna betur gagnvart samfélaginu og standa vörð um það. Til dæmis má nefna atriði eins og húsleitir á lögmannsstofum, sem er nánast búið að „normalisera“ sem úrræði en stjórn félagsins hefur verið að beita sér fyrir lagasetningu um þetta. Það er eins og „auðvelda leiðin“ eða letin sé æðsta réttarheimildin. Í gamla daga var hægt að framkvæma leit á lögmannsstofum tiltölulega markvisst, málsgögn voru tekin sem vörðuðu eitthvað ákveðið mál sem var til rannsóknar. Núna er allur tölvubúnaður stofunnar speglaður og í því felst að upplýsingar um aðra skjólstæðinga lögmannsins eru allt í einu komin í hendur ríkisvaldsins og mér finnst það ískyggilegt og illsamræmanlegt þeim kröfum sem við gerum til meðalhófs. Svo getur lögmönnum verið ætlað vitnahlutverk í saka máli sem aldrei raungerist með þeim afleiðingum að sakborn- ingur hefur ekki möguleika á að fá þann verjanda sem hann vill. Þetta skiptir raunverulegu máli. Þó lögmenn geti orðið vitni í sakamáli ætti að fara fram mat hversu nauðsynlegt það er hverju sinni. Eins og staðan er í dag er það ekki gert, heldur nægir að ákæruvaldið segi að það sé ekki útilokað að það óski þess að lögmaður beri vitni á síðari stigum. Að einhverju leyti er vandamálið að þessi brot á réttlátri málsmeðferð, réttindum sakborninga og verjenda, hafa engar eða litlar afleiðingar. Hið opinbera hefur misnotað þetta vald sem það hefur gagnvart lögmönnum - um það hefur verið dæmt. Einnig mætti nefna símhlustanir en ríkissaksóknari, sem ber eftirlitsskyldur með þessum málum, fær ekki fullnægjandi svör frá lögreglustjóraembættunum og virðist skorta úrræði til að fylgja þessum málum eftir. Að endingu mætti svo nefna réttarfarssekt verjanda vegna kæru á gæsluvarðhaldsúrskurði fyrir nokkru. Þar virðist sem að dómstóllinn hafi samsamað lögmanninum við sakborning málsins. Það er ástæða fyrir því að úrskurðir um gæsluvarðhald eru tímabundnir og þeir eru kæranlegir. Það skýtur mjög skökku við að sekta verjanda fyrir að verða að ósk skjólstæðings síns um að neyta þeirra réttinda sem honum eru tryggð í lögum. Nú snúum við okkur að þér sjálfum, hvaða þáttum lögmennskunnar finnst þér áhugaverðast að sinna? Ég hef alltaf haft gaman af málflutningi, en bæði fylgir honum nokkur keppni auk þess sem þar er stundum deilt um kjarnaatriði lögfræðinnar. Stór hluti vinnutíma míns fer í málarekstur fyrir dómstólum og þar á eftir fyrirtækjalögfræði, en ég reyni samt að gæta þess að það sé alltaf tími eftir fyrir mannréttindalögfræðina. Hvernig gengur að samtvinna fjölskyldulíf og lögmennsku? Ég vinn oftast til kl. 16-17, sæki þá börnin og er með fjölskyldunni. Svo tek ég oft svokallaða seinni vakt á kvöldin og finnst það vera góður tími. Þá er enginn sími að trufla og ég kem oft miklu í verk. Bestu hugmyndirnar koma oft þegar maður stendur upp frá skrifborðinu, þetta er starf sem að fylgir manni alltaf. AK og EI Lagadeild Háskóla Íslands hefur verið starfrækt frá stofnun skólans árið 1911. Markmið Lagadeildar er að brautskrá framúrskarandi lögfræðinga sem eigi ríkan þátt í að efla og styrkja íslenskt réttarkerfi í nútíð og framtíð.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.