Skólavarðan - 2021, Page 31

Skólavarðan - 2021, Page 31
HAUST 2021 SKÓLAVARÐAN 31 Pétur Þorsteinsson / VIÐTAL lauk fékk ég að ræða við Mr. Pluckrose stundarkorn og spurði meðal annars útí lestrarkennslu í skólanum. Skólameistarinn var alveg gáttaður á svo bjánalegri spurningu. „Það hvarflar ekki að okkur að kenna lestur. Sástu ekki lestrarnámið í risaeðlustofunni? Börn lesa það sem þau verða að vita, hugsanlega með aðstoð jafningja – en lestrarkennsla, hvílík fjarstæða!“ Þannig tætti Mr. Pluckrose ranghugmyndir mínar niður, lið fyrir lið, og endaði á spurningu sem breytti lífi mínu: „Pétur, þú veist greinilega allt um nám og kennslu. Segðu mér að lokum hvað átta ára barn þarf að vita?“ Við þeirri spurningu átti ég ekkert svar, enda er það ekki til þótt spakir menn hafi rótað ýmsu uppsópi inn í doðranta og kallað námskrár. Um kvöldið var skemmtun í skólanum þar sem bresk kráar- stemmning frá miðri nítjándu öld var endursköpuð. Mr. Pluckrose var „Master of ceremonies“, í kjólfötum með pípuhatt, í lítilli stúku uppá vegg í salnum og kynnti skemmtiatriðin á svellandi kokkney ensku. Í forstofunni stóð áma á stokkum og yfirkennarinn hrópaði „Ale and cheese, buy ale and cheese, the finest in London. Ale and cheese!“ Skemmtiatriðin voru frábær; nemendur og kennarar, klæddir í samræmi við tíðarandann, sungu dónalega söngva og dönsuðu tvíræða dansa og höfðu tileinkað sér viðeigandi málýsku. Það var ekkert „fínt“ eða „fágað“ enda breskar krár á nítj- ándu öld engir guðsbarnastaðir. Foreldrarnir voru í sjöunda himni, með ölkrúsina og ostbitann, og sungu með af hjartans list. Fátæki skólinn í Fowler Street er ekki síður eftirminni- legur. Þar fékk ég að fylgjast með kennslu ungrar konu frá Íran. Nemendurnir voru þrjátíu og þrír og skiptust í þrjá jafna hluta – þriðjungurinn var frá Bangladesh, annar kínverskur og sá þriðji bresk lágstéttarbörn. Kennarinn kunni hvorki bengal- mál né kínversku og bresku börnin höfðu mjög takmarkaðan orðaforða, hugsanlega þúsund til fimmtánhundruð orð, sagði kennarinn mér. Daginn sem mig bar að garði var lokaæfing í bekknum fyrir ferð á mark- aðinn. Sumir seldu ávexti og grænmeti úr pappír, aðrir keyptu fyrir pappírspeninga. Allir höfðu skrapað saman fáeina skildinga til að nota daginn eftir í alvörunni. Þarna var verið að kenna börnum að lifa og bjarga sér, nær mállaus í framandi menningu. Þetta er sennilega fínasta skólastarf sem ég hef upplifað og frá þeirri stund að ég gekk uppnuminn út á götuna hefur aldrei hvarflað að mér að væla undan erfiðleikum í íslenskum skólum. Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi og ef kennarar mega og þora að hafna stöðluðum aðferðum. Heimsókn í hina dýrðlegu há- skólabókabúð, Dillons, var einnig notadrjúg. Ég sankaði að mér bókum um uppeldisheimspeki og gagnrýnið skólastarf og las eins og óður maður á stamkránni minni og hótelinu. Þarna mótuðust hugmyndir mínar að stórum hluta. Ég skildi loksins að það skiptir næstum engu máli hvað lítil börn gera í skólanum, en öllu máli hvernig þau gera það sem þau gera og hvers vegna þau gera það sem þau gera. Hvernig sú uppgötvun birtist í starfi Grunn- skólans á Kópaskeri er efni í aðra grein. Eftir að ég settist í helgan stein vorið 2009 hef ég helgað líf mitt andófi gegn útskúfunar- og refsihyggju, einkum í svokölluð- um fíkniefnamálum. Ég tel það heilaga skyldu skólamanna að verja ungt fólk fyrir árásum og ofsóknum valdstjórnarinnar. Það er ófyrirgefanlegur glæpur að færa tugi þúsunda ungmenna á saka- skrá fyrir brot gegn kemískum kreddum sem eiga sér enga stoð og leysa engan vanda. Vonandi sér fyrir endann á því þjóðargeðrofi að reka fíknistríð gegn ungu fólki og hampa þeim sem á því traðka.“  X Hverju ertu stoltastur af ef þú lítur til baka? Einhver eftirsjá? „Ég hef ekki tamið mér að vera stoltur af verkum mínum, enda ekkert tilefni til þess. Ég hef lifað og unnið mér til skemmtunar og uppskorið ríkulega. Ég hef lagt hvern kafla að baki eins og gamalt dagblað í bréfakörfuna, svo ég steli ögn frá Sigfúsi Daðasyni. Stundum sé ég dálítið eftir því að hafa álpast út í að stofna Imbu – tölvumiðstöð skóla og síðar Íslenska menntanetið. Eftir á að hyggja var það gagnslítið brölt og kostnaðarsamt. Það var forvitnileg reynsla að njóta útskúfunar eftir hrun Menntanetsins en ég mæli ekki með henni. Það var hins vegar lærdómsríkt að fá tækifæri til að heimsækja annan hvern skóla á Íslandi og upplifa hversu andi þeirra var ólíkur frá skóla til skóla. Sums staðar var andinn svo glaður að ég átti rétt eins von á að það streymdi rauðvín úr kaffikönnunni á kennarastofunni. Í öðrum var hann svo þungur og lamandi að mér fannst sem Glámur sæti á mæniásnum og berði fótastokkinn. Ég játa að ég er stoltur af nemendum mínum og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vera samferða þeim um hríð. Þeir eru farsælt og gott fólk sem spjarar sig vel í lífinu. Oft var ég spurður hvernig ég héldi að nemendum úr svona skóla myndi reiða af í hörðum heimi. Ég bað spyrjendur jafnan að ræða við mig eftir þrjátíu og fimm ár. Þá væri hið endanlega námsmat komið fram. Ég er sáttur við útkomuna. Ég skildi loksins að það skiptir næstum engu máli hvað lítil börn gera í skól- anum, en öllu máli hvernig þau gera það sem þau gera og hvers vegna þau gera það sem þau gera. https://skolathraedir.is/tag/ petur-thorsteinsson/

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.