Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2009, Síða 6
Í júní 1939 kom fyrsta tölublað Víkingsins fyrir sjónir al-
mennings. Ritstjóri var Bárður Jakobsson, hálfþrítugur
laganemi úr Bolungarvík. Hann fylgdi blaðinu úr garði og
sagði meðal annars:
„Blað þetta, sem nú og framvegis mun bera nafnið „Víking-
urinn“, er til orðið vegna sjómannastéttarinnar og fyrir hana.
Það á að vera sá vettvangur, sem sjómennirnir sjálfir geta rætt
sín áhugamál og fylgst með þeim, án alls ágreinings í stjórn-
málum og dægurþrasi. En það fer auðvitað bezt á því að sjó-
menn sjálfir ræði og riti um það, sem þeim er viðkomandi. Þeir
hafa þekkingu og reynslu á sínum eigin málefnum og störfum.
Þess vegna: Það er ekki nóg að blaðið komi út og að sjómenn
kaupi það og lesi. Þeir verða sjálfir að skrifa það. Ella má
búast við, að það missi marks að nokkru leyti.“
Í næsta tölublaði á eftir hafði nafninu verið breytt, úr
Víkingurinn í Sjómannablaðið Víkingur og á fyrstu síðu þessa
2. - 3. tölublaðs stappaði Fr. Halldórsson stálinu í sjómenn:
Komdu heill!
Komdu „Víkingur“ heill! Þú átt trúnað og traust
þeirra, er takmörkin velja sér há. —
Láttu vakningar-rödd þína viðstöðulaust
benda verkefnin framundan á.
Hefðu raustina djarft yfir dægurþras allt,
strjúktu draumhöfga af svefnþungri brá,
vertu markviss í sókn, flyttu mál þeirra snjallt,
er sem málsvara treysta þig á.
Ekkert viðkvæmnishjal. Láttu að víkinga sið
hljóma vígorð þín djarflega og hreint.
Þú átt sókndjarft að baki þér sameinað lið
ef þú sækir að markinu beint.
Vertu hrópandans rödd, þar sem hálfvelgjan býr
þar sem hikandi stefnan er sett —
vertu í örðugri baráttu aflgjafi nýr
hinni íslenzku sjómannastétt.
Í þessu tölublaði sem flutti meðal annars smásögu eftir Rud-
yard Kipling og fyrsta hluta framhaldssögunnar um Úlf Larsen
eftir Jack London gat einnig að lesa tilkynningar til vélstjóra og
loftskeytamanna. Við hættum nú að gefa vélstjóraritið út
mánaðarlega, skrifaði Hallgrímur Jónsson, formaður Vélstjóra-
félagsins. Ritið mun þó ekki alveg hverfa heldur koma út þegar
aðstæður krefjast svo sem um áramót og í kjölfar aðalfunda
félagsins.
Við ætlum hins vegar, útskýrði formaðurinn, að einhenda
okkur í það, vélstjórar, að styðja við bakið á hinu nýja sjó-
mannablaði, þar munum við ekki láta okkur vanta.
Halldór Jónsson skrifaði svipaða hvatningu til loftskeyta-
manna: „Félag íslenzkra loftskeytamanna hefir gerzt aðili í út-
gáfu sjómannablaðsins „Víkingur“, og er það í samræmi við
stefnu félags vors, að styðja alla þá viðleitni, sem stefnir fram.“
Halldóri svall hugur í brjósti. Hið nýja tímarit var að rísa
upp sem sameiningartákn sjómannastéttarinnar og Halldór
hnýtti við:
„Frá nafninu „Víkingur“ ymur hljómur um dáðríkar athafn-
ir forfeðra vorra, en einnig í nútíð hefir nafnið fullt gildi, því að
hin íslenzka sjómannastétt á marga víkinga. En víkingar mega
ekki fara dreifðir, því að þá er ósigur vís í hverri baráttu. Sjó-
mannablaðið „Víkingur“ á að vera það merki, sem sjómenn geta
fylkt sér um og fylgt til sigurs.“
Í þessum anda varð Sjómannablaðið Víkingur til.
6 – Sjómannablaðið Víkingur
Þetta er kápumyndin sem notuð var á fyrstu tölublöð Víkingsins eða þar til
febrúarblaðið 1940 kom út.
Svo breyttist kápan og upp frá þessu hefur kápumynd Víkingsins verið breytileg
frá einu tölublaði til annars.
VÍKINGUR sjötugur