Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2009, Blaðsíða 31

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2009, Blaðsíða 31
stinga höfðinu inn undir vöðlujakkann eins og sofandi straumönd og var hér um bil sofnaður þegar Svíinn gól „Hallelúja!“ Ælubragðið var komið fram á tung- una þegar sá sænski rotaði fiskinn með þungu höggi á milli þrútinna fingra minna sem héldu um hræið. Á einhverri norrænu tjáði hann mér að hann ætlaði strax að kasta fyrir annan bolta, en ég sagði „nei, hér gilda ákveðnar reglur, einn í hverjum polli“. Síðan leiddi ég hann af stað niður eftir og fann að það var að líða yfir mig. Það er næstum því hálfur kílómetri í næsta veiðistað. Mig fór að svima og sundla á göngunni, hugsaði með mér að ég hlyti að vera kominn með flensu. Lengst niður frá sá ég grilla í stórfiska- staðinn Aðalflóa en það var eins og fæt- urnir á mér væru úr steinsteypu. Ég sagði við Svíann að nú værum við að verða heitir. „Hérna?“ spurði hann og staðnæmdist við flúðir í ánni. Ég hlammaði mér niður á þúfnakoll og dæsti „já“ þótt þarna hafi aldrei veiðst fiskur. Ég benti honum á stóran stein úti í miðri ánni og sagði að undir honum lægju oft miklir drellar. Um leið og Svíinn sneri við mér baki og fór ég að kasta upp. Ég hélt að lungun ætluðu upp úr mér og fékk mér því strax sígarettu til að halda þeim niðri. Skömmu síðar töltum við áfram niður eftir með tvo stóra fiska í bakpokanum og sá sænski var í skýjunum, sagðist vilja meira. Ég horfði á Aðalflóa lengst niður frá og fannst hreinlega eins og hann hefði fjarlægst okkur. Eftir fimm mínútna gang sneri ég mér að Svíanum, kúgaðist aðeins og hvíslaði að honum að hérna væri leynistaður: Steindauður pollur út frá ánni, hálfgert fúafen sem aldrei hafði haldið fiski. „Kastaðu hér,“ hvíslaði ég og klemmdi saman rasskinnarnar. Viskíið frá kvöld- inu áður hafði líka sett magann í mér á hvolf. Svíinn óð út í drullupollinn og fór að kasta. Ég lét mig hins vegar hverfa á bak við hól, hleypti niður um mig vöðlunum og settist á hækjur mér. Handan hólsins sá ég stöngina hans bogna á meðan steinsmugan gekk niður af mér. „Halle- lúja!“ hrópaði Svíinn og ég klappaði saman lófunum með vöðlurnar á hælu- num. „Get another one!“ hrópaði ég til að fá ráðrúm til að finna góða grastuggu til að hafa sem klósettpappír. Og þegar ég var orðinn sæmilega þrifalegur en samt með allt beljandi og baulandi innan í mér, hrópaði Svíinn enn og aftur „Halle- lúja!“ og dró akfeitan fimm punda fisk upp úr fúlum pollinum. Mér var orðið hrollkalt þótt það væri 15 stiga hiti en sá mér til ánægju að það var að koma hlé. Ég gjóaði augunum niður dalinn og gaf Aðalflóa illt auga. „Það er komið hlé,“ sagði ég við Svíann. „Algjör óþarfi að ana lengra niður eftir. Ekkert að hafa þar! Nú leggjum við okkur og veiðum okkur síðan aftur upp að brú eftir hléið.“ Hann vakti mig klukkan fjögur með orðunum „svona svona“ um leið og hann lyfti handleggnum á mér af hálsinum á sér. Mig hafði verið að dreyma eigin út- för og var að reyna að sjá hverjir kæmu í útförina. Hálsinn var þurr eins og gömul olíuleiðsla, nefið stíflað og hausinn brakandi eins og þurrkurinn í sveitinni. „Einn enn og svo förum við heim,“ sagði Svíinn og ég reyndi að bera mig vel. Ég opnaði augun, teygði úr hægra fæti út í loftið til að liðka hann ofurlítið og Svíinn tók það sem bendingu. „Þarna?“ spurði hann æstur og ég uml- aði „joo“. Ég lá í grasinu og horfði á fíflið kasta Europa þurrflugu á fisklausan stað, berjast síðan við á að giska sex punda fisk á meðan ég velti því fyrir mér hvort næsti dagskrárliður hjá mér væri að gubba, ganga örna minna eða deyja drottni mínum. Við kvöldverðarborðið ætlaði höfuðið á mér að klofna þegar sá sænski lýsti því fyrir öllum sem heyra vildu að ég væri snillingur sem gæti látið hvaða klaufa sem er veiða vel í þessari á. Ég brosti, reyndi að sýnast glaður og forðaðist að anda að hangiketinu sem var á borð borið í tilefni dagsins til að sýna sænsk- um frændum vorum smá túrisma. Loks sagðist Svíinn eiga aðra vískíflösku í skápnum sínum, dró hana fram og af- tappaði. Og þá fór landið aftur að rísa. Já, þannig var saga vinar míns og það er svo sem engan lærdóm hægt að draga af henni nema kannski að það getur verið varasamt að drekka mikið ef erfið verkefni bíða daginn eftir og að það getur stundum borgað sig að kasta flugunni á staði þar sem engum hefði dottið í hug að leyndist fiskur. Hjarta úr bleikju. Ótrúlegt en satt: Gert var að fiskinum um hálfri annarri klukkustund eftir að hann var veiddur og þá sló hjartað enn. Hálfgerð felumynd af um fimm punda bleikju í Hofsá í Lýtingsstaðahreppi. Sjómannablaðið Víkingur – 31

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.