Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2008, Síða 12
12 - Sjómannablaðið Víkingur
1
Úti var niðamyrkur
og 56 stiga gaddur.
Hraðinn 877 kílómetrar og
hæðin rúmlega tíu. Ég var
uppi yfir fjöllunum austan
við Ankara á leið austur til
bæjarins Trabzon. Það var
miður apríl, árið var 2007.
Ég hafði verið sextíu ára í
tæpan mánuð, var níutíu
og eitt kíló að þyngd og
að leggja af stað í annan
áfangann á Silkileiðinni á
reiðhjóli. Árið áður hafði
ég hjólað frá Istanbúl
með Tyrklandsströnd
Svartahafsins til Trabzon,
sem er austur undir
landamærum Georgíu. Endur fyrir löngu
hafði Trabzon verið miklu merkari staður
en óræktarlegi bærinn sem er þar núna.
Þá var það miðstöð gríska ríkisins Pontus
með höfuðkirkjum og keisarar sátu bak
við óvinnandi borgarmúra. En jafnvel
óvinnandi borgarmúrar falla og Tyrkir
settu síðasta keisarann af litlu eftir að þeir
lögðu Konstantínópel undir sig um miðja
fimmtándu öldina. Löngu seinna, eða upp
úr fyrri heimstyrjöldinni, hröktu þeir burt
Grikkina sem höfðu búið þarna frá því
áður en Jesús fæddist og nú er fátt grískt
að sjá í borginni nema grónar rústir. Í fyrra
hafði ég átt stefnumót í Trabzon við vin
minn og ferðafélaga, Guðjón Magnússon.
Við snerum þá baki við Svartahafinu, hjól-
uðum um há skörð suður yfir tætt og ber
Pontusfjöllin upp í hálendi Anatólíu og
þaðan vestur um hið undarlega landslag
Kappadókíu og til Istanbúl á ný. Nú var ég
aftur á leið til Trabzun einn í för en þaðan
ætlaði ég að þessu sinni að hjóla austur
um Kákasuslöndin og að Kaspíahafinu.
Þar næsti áfangi yrði austur um Mið-
Asíu til Kína. Stefnan var
háaustur og komið fram
yfir miðnætti. Ég hafði
verið daglangt á leið-
inni, rogast með reiðhjól,
kerru og farangur um
flugstöðvar og borgað yfir-
viktir. Meðferðis hafði ég
Passíusálmana í vasabrots-
útgáfu því í svona ferð
þurfa allar föggur manns
að vera bæði kjarngóðar
og nettar. Strax í fyrsta
sálmi tilkynnir Hallgrímur
umbúðalaust:
.... bænarlaus aldrei byrjuð sé
burtför af þínu heimili.
Það dylst ekki glöggum lesanda að hann
hefur talað flátt og sagt heimile. Þegar ég
fjórum árum fyrr lagði af stað hjólandi frá
Gdansk í Póllandi suður til Istanbúl hafði
gamall kunningi minn, Sverker, sókn-
arprestur á Gotlandi, lesið yfir mér ferða-
bæn. Að minnsta kosti milljón bílstjórum
höfðu síðan gefist góð færi á að keyra
yfir mig en allir létu það ógert. Sautján
hundruð hunda sárlangaði að bíta mig,
því einhverra hluta vegna fjandskapast
hundar út í hjólreiðamenn með kerru,
sumir gerðu heiðarlegar tilraunir til þess
en aðeins einum tókst það. Bæn Sverkers
hafði reynst vel og ég afréð að láta hana
duga þennan áfanga líka, enda þótt séra
Hallgrímur gefi í skyn að öruggara sé að
endurnýja hana í upphafi hvers áfanga,
en séra Hallgrímur var nú einu sinni hálf-
gerður bænafíkill.
Leiðin sem ég fór frá Gdansk suður til
Istanbúl var einhver elsta verslunarleið-
in í Evrópu, stundum kölluð Rafleiðin.
Hálfgerðir villimenn sem bjuggu norður
við Eystrasalt prikuðu upp með Vislu
og yfir Karpatafjöll með húðir, stund-
um þræla og þó einkum raf sem þeir
tíndu upp á ströndunum til að selja
þetta Grikkjum, Rómverjum og jafnvel
Egyptum fyrir góðan pening. Um ferð
mína eftir Rafleiðinni hafði ég skrifað bók
sem hét Með skör járntjaldsins.
2.
Núna var ég á Silkileiðinni en hún var
elst og öldum saman mikilvægasta versl-
unarleiðin milli Evrópu og Austurlanda
fjær. Burðardýr, sem oftast voru úlfaldar,
fluttu varning að austan sem ekki var til
fyrir vestan og öfugt; einkum silkið sem
Kínverjar kunnu að búa til. Rómverjar
voru heillaðir af silki; eitt sinn elti
rómverski herinn undir stjórn Crassusar
ókunna hersveit á flótta við austurmörk
ríksins nálægt Carrhae. Það voru Parþar.
Rómverjar höfðu yfirburði og voru sig-
urvissir svo þetta var bara orðin spurn-
ing um mínútur. En þá staðnæmdust
flóttamennirnir óvænt á hæðarbrún og
röktu sundur stóra fána sem þeir höfðu
meðferðis og þetta undursamlega skærlita
efni, sem var á mörkum vefnaðar og
andrúmslofts, flögraði létt eins og reykur í
vindinum. Rómverjar höfðu ekki áður séð
silki og í einhverri blöndu af undrun og
hrifningu stönsuðu eftirreiðarmennirnir,
misstu kannski ekki kjarkinn en einbeit-
inguna og stefnufestuna því aldrei höfðu
þeir séð annað eins. Þeir ráku flóttann
ekki frekar en þegar heim kom sögðu þeir
frá þessu undarlega efni og öldum saman
voru Rómverjar sólgnir í, beinlínis háðir,
þessum guðvef austan úr Kína.
Silkileiðin var ekki einn vegur heldur
margir, en þeir lágu í meginatriðum frá
Kína, um Mið-Asíu vestur til Evrópu eða
Austurlanda nær og öfugt. Það er varla
hægt að tiltaka hvar þessi leið byrjaði né
hvar hún endaði. Frá Kína séð var það
oftast í borginni Xian. Núna er sú borg
frægust fyrir að þar lét keisarinn Qin Shi
Huang grafa mörg þúsund sérsmíðaða
hermenn úr leir í fullri líkamsstærð og
með alvæpni ofan í jörðu, til þess að hafa
þá til taks þegar og ef hann þyrfti heyja
stríð í hinu næsta lífi. Hann hefur verið
friðsamari í því lífi en þessu, því aldrei
kvaddi hann þetta varalið sitt í stríð.
Leirmennirnir biðu þolinmóðir undir
grassverðinum þar til fátækur bóndi rak
skófluna sína í höfuðið á einum þeirra,
Jón Björnsson
Spölur af silkileiðinni
Ayasofia kirkjan frá grísku öldunum í Trabzon.
Skipasmíðar í Trabzon.