Skessuhorn


Skessuhorn - 24.08.2022, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 24.08.2022, Blaðsíða 22
MIÐVIKUDAGUR 24. ÁGÚST 202222 Í júní opnaði í Grundarfirði nýtt kaffihús sem heitir Valeria. Eigendur þess eru hjónin Marta Magnúsdóttir og Jan Van Haas. Marta er uppalinn Grundfirðingur og vill hvergi annars staðar vera og því lá beinast við að Jan flytti með henni til Grundarfjarðar þegar þau tóku saman. Jan er frá Kólumbíu, foreldrar hans voru kaffibændur og Jan ólst upp á litlum sveitabæ þar sem fjölskyldan ræktaði kaffi- ber en þau voru einnig með heim- ili í borginni þar sem Jan og bræður hans fóru í skóla. Fljótlega eftir að Jan flutti til Grundarfjarðar fæddist sú hugmynd hjá þeim hjónum að opna kaffihús og bjóða þar upp á kólumbískt kaffi. Nafnið Valeria er kólumbískt og er fengið úr fjöl- skyldu Jans en bróðurdóttir hans heitir Valeria. Mjúk opnun Við aðalgötuna í Grundarfirði, á Grundargötu 24, stendur lítið dökkt hús með bláu þaki sem lætur lítið yfir sér. Framan við húsið er nýr og flottur sólpallur, borð og stólar og skilti sem á stendur ‘Valeria – kaffiristun og kaffihús’. Þegar blaðamann Skessuhorns bar að garði var glampandi sólskin og fallegt veður. Það var rólegt á kaffi- húsinu og því kjörið að setjast út í sólina með kaffibolla. Síðasta sumar festu Marta og Jan kaup á þessu húsi við Grundargötu 24, við tók ár af framkvæmdum til að standsetja það og gera upp svo það myndi henta fyrir kaffiristun og kaffihús. Bæði voru þau í öðrum vinnum síðasta árið meðfram því að gera upp húsið og það gekk því hægar en ella. Marta segir það hins vegar hafa verið blessun að fram- kvæmdirnar hafi tekið þann tíma sem þær gerðu því nú í sumar opn- uðu þau kaffihúsið og segir Marta að það hafi verið alveg réttur tími til að opna. „Við heyrðum af mjög skemmtilegu hugtaki sem er ‘mjúk opnun’, en þá opnar maður án þess að það sé endilega allt tilbúið og við gerðum það. Fyrsta daginn þá opnuðum við bókstaflega með mínútna fyrirvara, við opnuðum bara hurðina og sögðum engum frá og svo fór bara fólk að tínast inn, fyrst einn og svo annar og síðan þá hefur það bara undið upp á sig. Við erum mjög ánægð með hvernig þetta fór og núna er hér yfirleitt þannig fjöldi að Jan getur bara séð um þetta einn og það hentar okkur rosalega vel núna.” Glæpagengi hrekja bændur burt Jan er eins og áður sagði frá Kólum- bíu, alinn upp af kaffibændum og hefur sjálfur unnið á ökrunum við að týna kaffiberin. Kólumbía er stórt og fjölmennt land og þar er töluverð spilling. Stórir glæpa- hópar gera smábændum lífið leitt með því að fara á sveitabæina, hóta bændunum öllu illu og taka þannig yfir jarðirnar. Þá neyðast bænd- urnir til að flýja sveitina sína ellegar ganga til liðs við glæpagengin eða hætta á að vera drepnir fyrir að vera ósamvinnuþýðir. Glæpagengið, sem er eins konar mafía, notar síðan jarðirnar til að rækta kókaín og önnur eiturlyf. Þetta var raun- veruleikinn hjá foreldrum Jans, en fyrir nokkrum árum neyddust þau til að láta frá sér sveitabæinn sinn og flýja. Þau búa enn þá í Kólum- bíu, en í borg, og eru núna orðnir ellilífeyrisþegar. „Það er ekki hægt að segja nei þegar mafían kemur og heimtar að þú látir af hendi sveita- bæinn þinn. Kólumbía er svo ótrú- lega stórt land, jú þú getur látið herinn vita og hann kemur þá og ræðst gegn mafíunni en það þýðir lítið. Mafían flýr til fjalla og felur sig þar til hermennirnir þurfa að fara í næsta verk, því þetta er svo stórt land að herinn getur ekki sinnt öllum svona tilfellum og fylgt þeim eftir. Svo þegar mafían kemur úr felum, kemur hún aftur heim til þín og drepur þig og fólkið þitt. Þetta hefur gerst við marga bændur og þeir búa núna flestir í borgum og betla peninga á götunni. Ég og mín fjölskylda erum heppin að vera á lífi og hafa það sæmilegt.” segir Jan. Versla kaffibaunir af kólumbískum smábændum Jan og Marta kynntust þegar Jan var við störf í Sardiniu á Ítalíu. Þá vann hann á seglskútu, í einka- eigu, sem sigldi í Karabíska haf- inu og Miðjarðarhafinu. Þegar Jan flutti svo til Íslands fyrir tveimur árum fann hann sterkt að hann vildi styðja við bakið á kaffibændum í Kólumbíu og úr varð hugmyndin að opna kaffihús þar sem allt kaffi kæmi beint frá smábændum þar. Bróðir Jans býr enn þá í Kólumbíu og hann sér um útflutningsferlið á kaffinu þaðan, sem getur á margan hátt reynst erfitt. „Hann sér sjálfur um að fara á bæina og sækja kaffi- baunirnar, pakka þeim inn og senda þær úr landi,“ segir Jan. Þau hjónin reyna helst að versla við þá bændur sem eru með minnstu framleiðsluna og hafa jafn vel ekki tök á að selja frá sér á aðra staði. Sumir sveitabæ- irnir eru afskekktir og segir Jan frá því að bróðir hans þurfi að fara á mótorhjóli á ákveðin býli þar sem vegirnir þangað eru einkar slæmir. Hann pakkar svo baununum sjálfur og sendir til Íslands. „Þegar við fáum kaffibaunirnar til okkar eru bændurnir búnir að þurrka þær og flysja. Við ristum svo kaffibaun- irnar hér og búum til gott kaffi fyrir alla sem vilja,“ segir Jan. Kólumbía er þekkt fyrir kaffi- ræktun og kaffið þaðan er betra að gæðum en kaffi annars staðar frá, segir Jan, vegna þess að í Kólum bíu eru kaffiber handtínd en í öðrum löndum, eins og Brasilíu, eru þau týnd með vélum. Þegar berin eru handtýnd eru bara tekin þau ber sem eru orðin mátulega þroskuð en grænjaxlarnir skildir eftir. Það gerir að verkum að kaffið verður bragðbetra. Þá liggur bein- ast við að spyrja hvort Jan hafi sjálfur háan standard þegar kemur að kaffi eða hvort hann drekki hvað sem er. Því svarar hann: „Á bænum mínum verkuðum við og seldum frá okkur allar kaffibaunir sem við ræktuðum. Við keyptum svo ódýrt kaffi til einkanota í næstu matvöru- búð.“ Jan er því alinn upp við kaffi- drykkju sem ekki er ósvipuð kaffi- drykkju íslenskra bænda þar sem kaffið er ódýr uppáhellingur. Hjón- unum finnst þó báðum gott að fá sér góðan kaffibolla. „Við erum bæði að glíma við ákveðið vanda- mál en það er koffínið sem fer illa í okkur svo við þurfum að drekka kaffið í hófi. Þegar við svo ákveðum að fá okkur kaffibolla þá viljum við hafa hann góðan.“ Litríkir veggir og ljúfir tónar Þegar gengið er inn í kaffihúsið blasir strax við kaffisalan. Þar er Jan á heimavelli, malar kaffi og útbýr drykki fyrir gestina sem koma nú inn hver af öðrum. Rýmið er einstaklega notalegt, það er hátt til lofts og hlýir litir prýða veggina. Í einu horninu er stór svört vél sem notuð er til að rista kaffibaunirnar. Baununum er hellt ofan í vélina sem veltast svo um inni í henni í miklum hita. Ferlið tekur einungis nokkrar mínútur og fylgjast þarf vel með allan tímann svo baunirnar verði alveg nógu ristaðar en þó ekki um of svo þær brenni, og þar geta sekúndur skipt máli. Kaffihúsið Valeria býður upp á kólumbískt kaffi Jan Van Hass og Marta Magnúsdóttir, eigendur Valeriu. Kaffihúsið Valeria að Grundargötu 24 í Grundarfirði. Gestir drekka kaffið sitt í glampandi sólskini á nýbyggðum sólpalli við húsið.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.