Morgunblaðið - 17.12.2022, Side 48

Morgunblaðið - 17.12.2022, Side 48
MENNING48 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. DESEMBER 2022 Ljósmyndarinn Orri Jónsson kallar ljósmyndabókina Fangið þitt er svo mjúkt það er eins og lamba ull „blygðunarlausa ástarjátningu“ til fjölskyldunnar, en hann vinnur með ljósmyndabókaformið á hátt sem er sjaldséður í íslenskri ljós- myndasenu. Söguna af tildrögum bókarinnar rekur hann aftur til þess þegar hann fór fyrir nokkrum árum í meistaranám til Toronto og flutti með fjölskyldunni þangað þrátt fyrir að hafa lofað sjálfum sér að setjast aldrei aftur á skólabekk. „Mér finnst það yfirleitt ekki gjöfult umhverfi fyrir skapandi hugsun, og ég fann það einmitt fljótt að nálgunin og þankagangur- inn í þessu námi var rosalega pragmatískur. Upphafið og endir- inn á öllum verkefnum og allri umræðu er einhver texti, krafan er að þú vitir hvað þú ætlir að gera og útskýrir það í texta. Farir svo af stað og framkvæmir eitthvað með myndmiðil sem þú útskýrir svo í texta eftir á. Þú einhvern veginn leggur allt upp og réttlætir allt með textaskrifum. Mér fannst þetta eitthvað svo öfugsnúið í myndlistarnámi og hætti því, kort- er í útskrift.“ Stendur hjarta mínu nærri Þá flutti fjölskyldan til Mexíkó og dvaldi þar í nokkra mánuði í litlu þorpi. Þar varð fyrsti vísirinn að bókinni til. „Þar náði ég einhverjum fókus. Það sem mig langaði að gera, sérstaklega eftir reynslu mína af náminu í Toronto, var að vinna með eitthvert efni sem skipti mig máli. Ekki kokka upp eitthvert konsept og fara svo og skjóta það, heldur vinna með eitthvað sem stendur hjarta mínu nærri. Þá lá beint við skoða hvað ég hef verið að mynda í gegnum tíðina og hvaða myndir mér þótti enn vænt um, burtséð frá því hvort þær pössuðu inn í eitthvert prójekt eða ekki.“ Að lokum segir hann þó að til hafi orðið verkefni þegar hann fór að sjá þráð í gegnum þær myndir sem hreyfðu við honum. „Þannig varð þessi bunki af myndum til. Fyrst var hann mjög stór en svo eimaði ég hann niður með alls konar hrókeringum. Þetta eru myndir sem ná yfir 32 ára tímabil og þetta er að hluta til leikur að tímaskynjun. Myndirnar eru að stórum hluta mannamyndir af minni kjarnafjölskyldu og af því umhverfi þar sem við höfum búið okkur heimili, á Íslandi, New York, Toronto og Mexíkó.“ Upplifunin dýnamískari Spurður út í það hvaða hlutverk hinar ólíku staðsetningar leika í verkefninu segir Orri: „Engar af þessum myndum eru teknar í öðr- um tilgangi en af þörf fyrir að muna og af væntumþykju, og ánægjunni að mynda. Þær eru frjálsar að því leyti. Staðsetningarnar koma ein- faldlega til af því að við höfum búið á nokkrum stöðum í gegnum tíðina, en þegar þær koma saman þá held ég að það gefi aðra vídd og opni á einhverja upplifun sem verður kannski dýnamískari en ef þetta væri allt tekið á sama stað. Ég vona það. En það er ekkert plan eða plott á bak við þessa ólíku staði, þetta bara liggur í hlutarins eðli því þetta eru heimili okkar.“ Þessi ljósmyndabók er ekki sú fyrsta sem Orri setur saman. Bók hans Interiors var gefin út hjá hinu virta þýska ljósmyndaforlagi Steidl árið 2011. Þar var myndefnið íslensk eyðibýli. „Það er allt annað viðfangsefni og líka bara allt önnur nálgun. Þessar tvær bækur eru fáránlega ólíkar. Interiors er í rauninni mjög einföld bók. Það væri hægt að segja að hún sé einfaldlega arkíva af einu mótívi. Allar myndirnar eru skotnar á sama format, þær eru allar í lit og allar jafn stórar á síðunni. Svo það er engin narratíva í þeirri bók og enginn tímaframvinda. Verkin innan bókarinnar eru því svolítið tímalaus.“ Hann segir því það hafa verið mun snúnara að setja hina nýju bók saman en að sama skapi skemmtilegra. Ljósmyndabókin ber hinn langa titil Fangið þitt er svo mjúkt það er eins og lamba ull og spurður út í hann segir Orri: „Það kom til greina á tímabili að láta söguna á bak við titilinn vera einhvers staðar í bókinni en svo ákvað ég að það væri skemmtilegra að hafa enga skýringu á bak við hann. En sagan á bak við titilinn er að þegar við bjuggum síðast í Kanada þá vaknaði yngsti sonur okkar upp um miðja nótt og þurfti að fara á klósettið. Og ég rumskaði og tók hann í fangið. Baðherbergið var á neðri hæðinni svo ég þurfti að halda á honum niður þröngan stiga. Hálfa leið niður stigann þá þrengir hann faðmlagið og muldrar þetta upp úr svefni: „Fangið þitt er svo mjúkt, það er eins og lamba ull“. Þetta er eitt það fallegasta sem hefur verið sagt við mig.“ Hverfur frá kaldri nálgun Ástin á fjölskyldunni fær að vera í forgrunni í verkinu. „Mig langaði að þetta væri blygðunarlaus og kald- hæðnilaus ástarjátning. Komandi úr þessu vestræna mastersnámi var ég kominn með svo mikinn leiða á þessari köldu nálgun, akademískri hugsun og íróníu sem er áberandi í margri myndlist, að þurfa að sýna fram á hvað maður er klár og snið- ugur í verkum sínum. Mig langaði bara að koma með algjörlega blygð- unarlausa hlýju og kaldhæðnilausa yfirlýsingu.“ Hann minnist á að lítið sé um að karlkyns ljósmyndarar, feður, geri langtímaverk um fjölskylduna. „Konur hafa í gegnum ljósmynda- söguna séð um að tækla þennan gjöfula efnivið, en karlar hafa verið feimnir við þetta hingað til, mögu- lega hræddir um að vera ekki teknir alvarlega í listheiminum ef þeir ynnu með myndefni af börnum.“ Orri segir að í bókinni felist ákveðin frásögn, sem sé ólíkt flest- um öðrum íslenskum ljósmynda- bókum, í gegnum tíðina hafi þær oftast verið notaðar sem nokkurs konar arkívusöfn. Fáir íslenskir ljósmyndarar hafa unnið á þennan hátt með ljósmyndabókina en Orri segist halda að það sé að breytast. „Þetta er opið og gjöfult form að vinna inn í en það snúna við þetta er að lesandinn þarf að skilja tungu- málið sem þú ert að vinna með,“ segir hann og bætir við að það sé vandasamt að leggja svona bók inn í samfélag sem ekki sé vant þessari hefð. Fólk sé óvant því að nálgast ljósmyndabækur á þennan hátt, það þurfi að gefa þeim meiri tíma og nálgast á annan hátt en einfaldari arkívu-bækur til að ná utan um efni þeirra. Kallast á fram og til baka En þótt í verkinu felist frásögn þá segir Orri að ekki þurfi að lesa verkið frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. „Maður verður að vera raunsær og átta sig á því að fólk skoðar ekki ljósmyndabækur þannig. Mér fannst ég þurfa að raða henni þannig að hún gæti lesist frá fyrstu blaðsíðu að þeirri síðustu en þú verður líka að geta flett henni aftan frá, eða opnað hana einhvers staðar í miðjunni og blaðað í henni. Mynd- rænt reyndi ég að byggja hana upp þannig að myndirnar kallist svolítið á fram og til baka innan bókarinnar en að sama skapi vil ég ekki flækja þetta um of.“ Sumar af ljósmyndunum í bókinni voru sýndar á sýningu í galleríinu i8 árið 2018 og vonast Orri til þess að þær verði sýndar víðar. „Það var allt annar prósess að setja upp þá sýningu en að gera þessa bók. Myndirnar tala allt öðruvísi saman á vegg heldur en inni í bókaforminu. Ég held að það séu rúmar sjötíu myndir í bókinni, um fjörutíu á sýningunni, en þetta er unnið upp úr bunka með rúmlega hundrað myndum. Ég sé fyrir mér að þegar þetta verður sýnt á fleiri stöðum þá verði sýningarnar alltaf töluvert ólíkar eftir rýmunum.“ lNý ljósmyndabók Orra Jónssonar ber titilinn Fangið þitt er svo mjúkt það er eins og lamba ull lÍ bókinni felst frásögnlFjölskyldan er í forgrunni sem og þau heimkynni sem hún hefur fundið Blygðunarlaus ástarjátning Morgunblaðið/Árni Sæberg Ljósmyndarinn „Mig langaði bara að koma með algjörlega blygðunarlausa hlýju og kaldhæðnilausa yfirlýsingu.“ Opna Mannamyndir af nánustu fjölskyldumeðlimum Orra eru í forgrunni. VIÐTAL Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.