Borgfirðingabók - 01.12.2016, Blaðsíða 13
13
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
nú til Guðmundar að launa sér lífgjöfina forðum. Tókst og Guðmundi
brátt að bjarga tíkinni af herðum Benjamíns. Vildi hann létta Benjamín
sem mest og seildist nú til skjóðunnar. Gekk honum gott eitt til og fékk
hann um síðir slitið skjóðuna af Benjamín. Má vera að þá hafi Benjamín
grunað Guðmund um græsku, því svo hefur Guðmundur frá sagt, að þá
svam Benjamín fram úr pyttinum auðveldlega og hreif til sín skjóðuna
þegjandi.
Hófu þeir félagar nú enn för sína, væstir, forugir og sveittir, rifnir og
þrekaðir. Var kafía Guðmundar að mestu slitin af öðrum megin og hékk
niður skufsan hinum megin skósíð, steig hann þar oft í og rasaði jafnan.
Benjamín hafði þá og týnt svarðreipinu, hafði það sprungið af honum
er hann þrútnaði við átökin.
Þar kom um síðir að þá bar að vatni einu. Fengu þeir með engu móti
greint hvort heldur það var stórt eður smátjörn ein sökum yfirþyrm andi
myrkurs.
„Það vildi ég, Benjamín“, mælti þá Guðmundur, „að þú smakkaðir á
þessu vatni og gengir úr skugga um hvort er Hólmavatn eður ei.“
„Eigi þarf að að gá,“ svaraði Benjamín, „er lyktin af vatni þessu sem
af bæjarlækjum Miðsíðumanna og er sú versta lykt, en Hólmavatn hefur
góða lykt. Þó má ég gera að vilja þínum.“
Lagðist nú Benjamín flatur og brá grönum í vatnið. Reis þó brátt upp
og hrækti og frussaði í hinar fjórar höfuðáttir.
„Fór sem mig grunaði,“ mælti hann. „Þetta er drullu¬pollur.“
Hófst nú enn för þeirra félaga í myrkrinu með öllum þeim hinum
sömu mannraunum og áður er lýst. Sáu þeir ekki fram á að þar myndi
endir á verða. Það ráð gerðu þeir, að þeir hétu á Strandarkirkju til bjargar
sér níutíu og fimm aurum hvor. Er þar skemmst frá að segja að heldur
tók þá að greiðast förin og komu nú enn að vatni. Vissu þó alls ekki
hvort vera mundi Hólmavatn. Grýttu þeir nú steinum út á vatnið sem
lengst þeir máttu og lögðu hlustir við. Svo langt kastaði þá Benjamín
að Guðmundur taldi upp í tvö hundruð áður niður kæmi steinninn, en
kom þó víst í vatn.
„Vel mætti þetta vera Arnarvatn hið stóra,“ mælti Guðmundur þá,
„eða Þingvallavatn, og veit ég nú eigi hvern upp skal taka.“
„Förum sem horfir,“ mælti Benjamín, og riðu þeir nú meðfram vatni
þessu þar sem hér var sæmilega greiðfært hestum.
Riðu þeir lengi og sáu að stórt mundi vatnið; var þá nokkuð farin að
greiðast þokan, en myrkt af nóttu.