Borgfirðingabók - 01.12.2016, Síða 28
28
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
sérstaka ritgerð. [...] Einkum þykja þessi böð heppileg erfiðismönnum
að loknu erfiðu dagsverki, áður en þeir leggjast til hvíldar, því að það
losar þá við harðsperrur þær, er koma daginn eftir slíkt erfiði. Fornmenn
kunnu að nota sér þetta ráð rækilega, að lokn um bardögum, ferðavolki
og öðru striti.“ (Ferðabók Eggerts og Bjarna.)
Uno von Troil segir að Íslendingar hafi stundum notað hverina til
litunar.
Fólkið á Laugalandi og Stafholtsveggjum og nágrannabæjum hafði
ýmis not af hverunum, aðallega þó til að þvo þvott og baka brauð. Jó-
hannes Þorbjarnarson frá Stafholtsveggjum sagði: „Hverinn var notaður
frá Stafholtsveggjum til þvotta og til að baka brauð. Við þvotta var vatn
sótt í lækinn, sett í bala í laugarskúrnum og þvotturinn þveginn þar á
bretti. Síðan var soðið í aðalhvernum. Krakað var upp úr honum með
spýtum.“ (Samtal 1992.)
Halldóra Magnúsdóttir sagði að allir þvottar frá húsmannsbýlinu
Lauga landi hafi verið þvegnir í hvernum. „Eftir að skúrinn kom við
nýju sundlaugina var hurðin tekin af og sett yfir hverinn þegar ungu
menn irnir vildu pressa buxur sínar.“ (Samtal 1992.)
Valtýr Ómar Guðjónsson þekkti vel til á Laugalandi frá 1946 til 1952
og lengur, hann ólst þar upp að hluta: „[Konurnar á Laugalandi] þvoðu
allan þvott í hvernum. Ég held að það hafi verið vissir þvottadagar,
kannski hálfsmánaðarlega. Þvotturinn var látinn beint ofan í hverinn og
soðinn þar. Tekinn upp í bala og skolaður undir affallinu af sundlauginni
því það var eini kaldi lækurinn þarna.“ (Samtal 2015.)
Fólk kom af nágrannabæjum, allt neðan frá Flóðatanga, til að þvo,
að sögn Halldóru. Nefna má að í örnefnaskrá fyrir Hlöðutún og
Arnarholt sem Anna Brynjólfsdóttir frá Hlöðutúni tók saman, kemur
fram að þegar farið hafi verið í Stafholtsveggjahver frá Hlöðutúni hafi
Grænaskarð verið farið og þá verið komið beint á hverinn. „Má fara
þar yfir með hesta, og var það alltaf gert, meðan þvottar voru þvegnir í
hvernum.“
Jóhannes Einarsson frá Svarfhóli, síðar bóndi á Ferjubakka, sagði
þessa sögu: „Þegar konurnar voru að þvo í hvernum var steinn fyrir
þeim í hveralæknum. Var sterkur maður, kallaður Gvendur, sendur til
að taka steininn úr læknum. Rembdist hann lengi við án þess að hafa
stein inn en vildi ekki viðurkenna það og sagði: „Það er ekki von að ég
hafi hann, það heldur honum klaki.“ (Samtal við Ragnar Jóhannesson,
1992.)