Borgfirðingabók - 01.12.2016, Síða 41
41
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2016
Metnaðarfyllsta og stærsta verkefni leikdeildarinnar til þessa, var þegar
ráðist var í uppfærslu á leikritinu „Sonur skóarans og dóttir bakarans”,
eftir Jökul Jakobsson. Leikstjóri var Jón Júlíusson, sem kom til starfa hjá
leikdeildinni í fyrsta sinn, en Jón hefur stjórnað flestum uppfærslum
leikdeildarinnar síðan, eða fjórum alls.
Æfingar á leikritinu um „iðnaðarmannabörnin“ hófust í október
1989, og var stefnt á að frumsýna í byrjun desember. En leikritið var
viða mikið og mörg hlutverkin óvenju krefjandi. Auk þess var það svo
mann margt, að talsvert var liðið á æfingartímann þegar loks tókst að
fá fólk í öll hlutverkin. Leikstjórinn var líka laus við, þar sem hann var
einn ig í vinnu annars staðar. Allt þetta og fleira varð til þess að tefja fyrir.
Æfingartíminn teygðist alveg framundir jól, lengur en nokkur hafði
reiknað með. Leikendurnir voru orðnir yfir sig stressaðir og örþreyttir af
næturvökum og vinnu, og farið að gæta óþolinmæði hjá leikstjóranum.
Æfingin sem haldin var kvöldið fyrir Þorláksmessu tókst ekki nema í
meðallagi vel, og veslings leikurunum sýndist leikstjórinn vera eins og
þrumuský, þar sem þeir húktu hnípnir og hljóðir á sviðsbrúninni og
kviðu því að hlusta á aðfinnslur (nótur) hans fyrir frammistöðuna.
Allt í einu heyrðust ógurleg ólæti, hark og hurðaskellir. Einhver var
að djöflast í leiktjöldunum með miklum hávaða. Fólkið hrökk við, og
fyrsta hugsunin var: „Hamingjan góða, nú hefur einhver farið á taugum
og sleppt sér“!
Birtist þá ekki þessi fíni jólasveinn, með söng og gleði, og gjafir handa
fólkinu! Hvílíkur léttir og spennufall! Nú var dansað í kringum jóla-
sveininn, sungið og slappað af. Andrúmsloftið gerbreyttist, og kvöldið
endaði með hlátri og gríni.
Þessi atburður, og hvíld frá æfingum yfir sjálfa jólahelgina, hefur
sennilega gert gæfumuninn. Leikritið var frumsýnt 29. des. og sýnt þó
nokkrum sinnum eftir það, við góða aðsókn og ágætar undirtektir.
Það vitnaðist svo auðvitað eftir á, að koma jólasveinsins hafði verið
vel undirbúin. Siggu (Sigríði Þorvaldsd.) leikdeildarformanni var orðið
ljóst, að eitthvað þurfti að taka til bragðs til að hressa upp á sálarlíf
leikendanna, og datt þá þetta snjallræði í hug. Fékk hún einhverja í lið
með sér með mikilli leynd til að útbúa smágjafir og pakka þeim inn.
Þórður á Brekku tók að sér hlutverk jólasveinsins og lék hann af þeim
myndugleika og krafti, sem til þurfti. Verður þessi uppákoma lengi í
minnum höfð.